Ég er frík

Ég öfunda engan og vildi ekki vera neinn annar en ég er. Ég veit samt alveg hvern ég myndi velja ef svo ólíklega vildi til að einhver ræki byssu í gagnaugað og skipaði mér að velja einhvern annan líkama úr sögunni til að lifa lífinu í. Þá yrði Jóhann risi fyrir valinu. Risavöxtur hans gerði hann að fríki. Hann var afbrigðilegur og lifði af því að sýna sjálfan sig. Ég væri alveg til í það líka; að lifa af því að vera bara ég sjálfur.
Jóhann fór sýningarferðir um heiminn en eyddi stærstum hluta sýningarlífsins í Ameríku. Í bók sem ég á og heitir Freaks: We Who Are Not As Others er sagt að Jóhann hafi á tímabili verið hæstlaunaðasta frík í heiminum. Við, sem erum alltaf að monta okkur ef einhverju okkar gengur vel í útlöndum, ættum að hampa þessari staðreynd meira. Já, vér Íslendingar áttum á tímabili ríkasta frík í heimi. Húrra og skál!

Blóðugur þumall
Jóhann var klár karl. Fyrst kom hann fram í hóp með öðrum fríkum, en hélt síðar einkasýningar. Á veturna dvaldist hann í Flórída í sögufrægu samfélagi fríka í vetrarleyfi. Þarna hefur eflaust oft verið kátt á hjalla hjá Jóhanni, skeggjuðu konunni og dvergunum, en eflaust erfitt líka og oft hefur þunglyndi lagst á mannskapinn. Það tekur auðvitað á að vera ekki normal, að standa út úr eins og blóðugur þumall á handsnyrtistofu lífsins.
Þótt ég sé frík, afbrigðilegur einstaklingur í íslensku samfélagi, kannast ég samt ekki við þunglyndi samfara afbrigðilegheitunum. Nú ætla ég ekki að fletta af mér skyrtunni og kynna til sögunnar útvaxna síamsbróðurinn Hannes, nei, en samt er "fötlun" mín alveg jafn sjokkerandi: Ég hef aldrei tekið bílpróf.

Ekki andvaka
Nú heyri ég þig reka upp undrunarstunu. Ekki með bílpróf!, stynur þú svo steinhissa; hvernig ferðu þá að? Ertu ekki bara hálfur maður, hvernig lifirðu eiginlega lífinu? Meira að segja Jóhann risi var með bílpróf, hvers vegna í ósköpunum tókstu ekki bílpróf þegar þú varðst 17 ára?!
Greyið mitt, þetta er ekkert mál, svara ég. Ég hef alltaf haft eitthvað annað að gera en að taka bílpróf, aldrei langað til þess og aldrei séð eftir því að hafa ekki tekið það. Ég hef bara aldrei keypt nauðsyn þess að kunna að keyra bíl.
Samkvæmt FÍB kostar rekstur á lélegasta skrjóð ekki undir 500 þúsund kalli á ári og þú getur rétt ímyndað þér hvert maður getur farið með leigubíl fyrir þann pening. Svo hef ég lappir og á hjól. Það verður einhver að vera labbandi á Laugarveginum þegar þú rúntar þar niður eins og fiskur í búri um helgar, ekki satt?
Ég á ekki eftir að taka bílpróf úr þessu. Og ég ligg ekki andvaka og bylti mér út af því. Ég ætla að sleppa því að tala um mengunina sem ég dæli ekki út í andrúmsloftið. Ég ætla að sleppa því að tala um alla ókeypis hreyfinguna sem ég fæ út úr því að hafa ekki bílpróf. Ég ætla hins vegar að minnast aðeins á bílamóralinn í þjóðfélaginu.

Fjórar aðaltegundir bílaauglýsinga
Mórallinn er: Þú átt að eiga bíl, þú verður að eiga bíl. Hugsuðurnir í ríkisstjórninni vilja að þú eigir stóran bíl, helst jeppa. Bílaplanið í Sundahöfn er að springa af bílum sem endalaust eru fluttir inn. Notaðir bílar sem enginn vill eiga standa í stöflum um allan bæ. Bílaumboðin eru farin að henda nothæfum bílum, eða borga með þeim. Það er alltaf umferðarteppa á götunum. Það liggur viðbjóðsský yfir borginni á góðviðrisdögum, eins og við búum í Tokyo eða eitthvað. Sjónvarpsauglýsingar ganga flestar út á að selja bíla. Öllum brögðum er beytt. Þó ég hafi ekkert "vit" á bílum tel ég mig greina nokkrar aðferðir í þessari sölumennsku. Þessar eru þær helstu:

1. Unglingabílinn
Aðferð: Sæt fáklædd stelpa og "kúl" strákur í svaka stuði á einhverjum bíl.
Skilaboð: Þú ert aumingi með hor og nærð þér aldrei í drátt nema þú eigir svona bíl.
Kalt mat: Unglingar eru almennt orðnir vitlausari en áður og eiga sér bara eitt framtíðarmarkmið: Að eignast fínan bíl og nýjustu tegund af farsíma (Ó, hvað ég hlakka til þegar 3ja kynslóðin kemur á markaðinn).

2. Fjölskyldubíllinn
Aðferð: Hugguleg útgáfa af meðalfjölskyldu stígur út úr fallegu húsi og beint inn í bíl. Krakkarnir brosa þegar mamma smellir á þau öryggisbeltinu. Glaðleg rödd kynnir bílinn, glaðleg tónlist spiluð undir.
Skilaboð: Líf þitt verður dans á rósum ef þú berð gæfu til að kaupa þennan bíl af okkur.
Kalt mat: Þú verður gamall og þú deyrð, annað hvort sáttur við lífið eða ekki. Bíllinn skiptir engu máli í því sambandi enda vonandi löngu áður orðinn að málmklessu á haugunum.

3. Jeppinn
Aðferð: Jeppi riðlast á gullfallegri íslenskri náttúru á meðan leikari les andstuttur upp hvatningarorð, t.d.: "Ábyrgð. Kraftur. Öryggi."
Skilaboð: Þótt þú sért hættur að ná tillanum á þér upp geturðu samt lifað lífinu lifandi.
Kalt mat: Fátt er hættulegra en náttúru- og tillitslausir karlfauskar að runka sér um bæinn á gagnslausum risabílum. Ef jeppinn er þar að auki með montnúmeri er vissara að taka til fótanna.

4. Rándýri bíllinn
Aðferð: Auglýsingin er óskiljanleg og "listræn", t.d. allsber kona að velta sér í drullupolli eða vöðvabúnt að fetta sig hjá Dyrhólaey. Oft í svart/hvítu með nýaldarmúsik undir.
Skilaboð: Þú værður aldrei ríkur ef þú ert ekki nógu djúpur og listrænn til að skilja þessa auglýsingu.
Kalt mat: Það skiptir engu máli hvað þú ert ríkur og á rándýrum bíl, þú verður alltaf hallærislegt fífl.

Stuðið er í strætó
Ég mun ekki falla fyrir neinu af þessu. Ég er að eilífu dæmdur til að vera slefandi frík í skuggum mannlegrar tilveru og mun stundum taka strætó. Þar er líka stuðið. Í sumum strætóum hangir uppi skylti á ensku fyrir ofan bílstjórann -- "For your own safety do not speak to the driver" -- eins og bílstjórinn sé skrýmsli sem muni lúskra á þér ef þú yrðir á hann. Það eru bílstjórar ekki, en þó eru þeir almennt að farast á taugum, enda láglaunastétt. Stundum gefa þeir svo mikið í að maður byrjar að semja erfðaskránna í huganum.
Í strætó er bara gamalt fólk, krakkar undir sautján og furðufuglar og frík sem eiga aldrei eftir að fá sér bíl. Þeir tala stundum við sjálfa sig, hlæja að einhverjum einkabrandara eða reka upp gól og heimta að fá að tala við forsætisráðherrann. Svo róast þeir og halda áfram að stara í leiðslu út um gluggann.
Gömlu góðu fríksjóin sem Jóhann risi lifði af eru löngu hætt. Líklega voru þau bönnuð því venjulegu fólki á að þykja það óeðlilegt að horfa með forvitni og furðu á fólk sem sker sig úr. Bílastrollan niður Laugarveginn um helgar ber þó vitni um að venjulega fólkið sé enn sólgið í að glápa á frík sem ganga eða hjóla um bæinn. En ef þú vilt raunverulega lifa á brúninni og virða fyrir þér frík eins og þau gerast best í dag skaltu samt skella þér í ævintýraferð með strætó.