Okkur dreymir öll um að verða öryrkjar

Óskaástand mannskepnunnar er að gera ekki neitt. Við erum því alltaf að strita til þess eins að hafa efni á að gera ekki neitt. Þetta er eilífðarvél lífsins, eilífðarvélin inní okkur. Þessa eilífðarvél hefur fólk á takteinum þegar það heilsast á götu og spyr; Jæja, ekki alltaf nóg að gera?
Þjóðin slítur sig frá volgu bælinu til að gera eitthvað svo hún hafi efni á húsi og sjónvarpi. Dagurinn hefst á því að gera ekki neitt í
húsinu (sofa), svo er eitthvað gert (unnið), og dagurinn endar með því að gera ekki neitt fyrir framan sjónvarpið. Svona rúllar þetta þangað til hin eftirsótta helgi kemur; þá er ekkert gert í tvo daga.

Ekki einu sinni skítarönd
Ef maður gerir eitthvað nógu lengi hefur maður efni á að gera ekkert í langan tíma, t.d. að drolla rorrandi á erlendri strönd eða
slugsa í íslenskum bústað og grilla. Ef maður er ekki þess meiri letingi er vont að lenda í vinnu sem ekkert er að gera í. Þá kemur hökt í eilífðarvélina og tíminn silast áfram. Það er vont. Ég fékk einu sinni ömurlega sumarvinnu við að ræsta í vélsmiðjunni Héðni. Það tók klukkutíma, en vinnuskildan var 10 tímar. Ég hékk því í hvarfi og vonaði að karlarnir fengu skitu eða helst að
matareitrun legðist á mannskapinn. Þá hefði ég haft eitthvað að gera. En karlarnir voru kattþrifnir og umhverfisvænir og ég fékk ekki einu sinni skítarönd til að kljást við. Þetta var því hörmung og ég var hættur eftir tvo mánuði. Helst á tíminn nefnilega að þjóta áfram þegar maður er í vinnunni, en hann á að mjakast áfram þegar maður er að slappa af. Hver kannast ekki við setningar eins og helgin bara flaug úr höndunum á mér, eða sumarfríið var ekki fyrr byrjað en það var búið?
Alltof oft líður þó tíminn of hratt þegar maður er ekki að gera neitt. Setningar eins og Dagurinn við færibandið bara flaug úr höndunum á mér og fyrr en varði var ég komin heim að góna á Leiðarljós eru því sjaldgæfari.

Lufsast á moldargólfi
Í byrjun aldarinnar þurfti fólk að vinna jafn mikið og dráttarklárar og komst sjaldan í þá aðstöðu að geta gert ekki neitt.
Himnaríki Biblíunnar þótti því eftirsóknarvert, að fá að voma að eilífu í því frábæra elliheimili með stóru strákunum og gera faktískt ekki neitt nema að góna á dýrðina. Lítið stóð til boða þá sjaldan fólk átti frí. Menn lufsuðust í mesta lagi í hóp á moldargólfi og lásu upphátt úr Biblíunni við ljóstíru eða riðu út eða hvor öðrum. Svo kom sem betur fer rafmagn og nú höfum við aldrei haft fleiri möguleika til þess að gera ekki neitt. Eins og um síðustu aldarmót horfum við nú bjartsýn fram á við. Framtíðin hlýtur að verða björt fyrst mannkyninu tókst að þrauka enn eina öldina. Einn daginn vonumst við til að þurfa ekki að gera neitt
framar, að við getum bara verið í fríi þar til við deyjum og verðum ekki neitt.

Í viðjum þægindanna
Á allri síðastu öld var þróunin í þá átt að gefa okkur fleiri tækifæri til að gera ekki neitt. Allt þokaðist sífellt í þá átt að gera
okkur lífið léttara. Hér tala ég auðvitað ekki um "okkur" sem allt mannkynið, heldur okkur sem vorum svo stálheppin að fæðast á Vesturlöndum. Hvert sem litið er má sjá merki um þessa þróun. Þú þarft ekki að labba upp stiga því það er lyfta. Þú þarft ekki að elda, maturinn kemur tilbúinn úr örbylgjuofninum. Þú þarft ekki að passa börnin þín, annað fólk sér um það fyrir þig. Þú þarft ekki að hugsa, bara stilla á góða stöð. Þú þarft ekki að velkjast í nístandi tilvistarkreppu og hugsa kvíðinn um stjarnfræðilega smæð þína í alheiminum, þú færð þér bara pillu. Hurðir opnast sjálfkrafa fyrir þér.
Ég stóð sjálfan mig að því nýlega að verða hálf hissa og fúll að þurfa að ýta á hurð til að komast út úr byggingavöruverslun. Ég var byrjaður á kvörtunarbréfi þegar ég uppgötvaði að ég var orðinn fangi í viðjum þægindana og hætti snarlega að skrifa.
Þægindi er málið. Þægindi er lausnarorð samtímans og keppikefli. Og ef fram fer sem horfir verður ástandið svona árið 2100.

Öryrkjar í alfleti
Árið 2100 verður loksins kominn botn í öryrkjamálið því þá verðum við öll orðin að löggiltum öryrkjum. Orðið "öryrki" verður því fjarlægt með lögum úr íslenskunni. Meðalþyngd Íslendinga verður 200 kg og lífslíkur 200 ár. Almennt samþykki verður nefnilega um það á Vesturlöndum að spikfeitt sé fallegt og eintóm geðveiki sé að sporna við eðlilegri spikmyndun. Stórfenglegar uppgötvanir DeCode munu svo lengja meðalaldurinn.
Hver og einn liggur í alfletinu sínu og nennir aldrei út úr því, enda lítið að sækja undir bert loft nema eiturgufur frá álverksmiðjum sem verður búið að troða út um allt og stingandi augnaráð pólskra verkamanna að fara í og úr vinnu. Í alfletinu verður búið að pakka öllu sem við "þurfum" í dag í eitt tæki. Alfletið verður það sem í dag kallast íbúð, klósett, ísskápur, rúm, tölva, sjónvarp, sími o.s.frv. Í Elko (sem þá heitir Beri Beri eftir samrunann við Bónus, BT-tölvur, Rúmfatalagerinn og Ikea ) verður hægt að fá tvær tegundir; deluxe alfleti með innbyggðum Tælendingi, og venjulegt.

Frábær útópía
Í þessu alfleti liggjum við svo og hreyfum ekki annað en puttana á alfjarstýringunni og kjammana til að tyggja gúmmilaðið sem tælenskir innflytjendur keyra heim að dyrum (ef við eigum bara venjulegt alfleti -- í deluxe-útgáfunni mata Tælendingarnir okkur líka). "Vinnan" okkar fer fram fyrir hádegi. Þá millifærum við á milli reikninga, sýslum með bréf, tékkum á því hvað aðrir öryrkjar eru að gera í sínum alfletum og skoðum klám. Eftir hádegi horfum við á alskjáinn fram á kvöld. Þar fáum við ýmsa skemmtun og síðast en ekki síst alls konar mikilfenglega þekkingu, sem verður undirstaða alls í þessari frábæru útópíu.
Allir sjá að þessi framtíðarsýn er rökrétt og endanleg útkoma sé miðað við þróunina á síðustu öld og væntingarnar í dag. Það segir sig svo auðvitað sjálft að árið 2100 verður gamla eilífðarvélin okkar breytt. Bilið milli þess að gera eitthvað og gera ekki neitt verður horfið og við gerum ekkert. Punktur.
Svona verður þetta þangað til blanka innflutta fólkið sem sér um að moka skítinn undan okkur gerir uppreisn og rekur okkur fituhlunkana úr alfletunum. Það dreymir að sjálfssögðu líka um það að verða sílspikaðir öryrkjar og gera ekki neitt.