Er eitthvað að úldna í plöturekkunum?

Þetta voru svo sannarlega bókajól. Aldrei áður hafa víst selst svona margar bækur, og ekki að furða, því aldrei hafa víst verið jafn margar góðar bækur á boðstólum. Allir fjölmiðlar landsins kepptust við að blaðra út í eitt um bækurnar. Sérfræðingar tjáðu sig í hverju horni, stórmarkaðirnir fóru í árlegt verðstríð og auglýsingar hömruðu inn fagnaðarerindið. Stemmingin var eins og á síldarplani og bækurnar runnu út í tunnuvís.
Á sama tíma heyðist varla minnst á plöturnar. Maður þurfti að leita með vasaljósi að einhverri vitrænni umfjöllun um þær, auglýsingar voru ekki fyrirferðamiklar og stemmingin almennt var döpur. Enda urðu þetta hundléleg plötujól. Fáir riðu feitum hesti frá jólaplötuflóðinu; flestir skröltu á þrífættum asna og fjölmargir komust ekki einu sinni á bak.

Ef plötur væru bækur, og öfugt
Fólki finnst bækur miklu fínni gjöf en plötur. Sú tilfinning hefur sýjast inn smátt og smátt. Fjölmiðlar yrða varla á plöturnar en snilldin í bókunum er lamin inn kvöld eftir kvöld. Kannski svarið liggi í því að pakka plötum inn í leðurhulsur fyrir næstu jól og selja helmingi dýrar?
Hvað ætli hafa valdið þessu gegnumgangandi áhugaleysi almennings og fjölmiðla á plötunum? Ætli stærsta ástæðan hafi nú ekki bara verið sú sem liggur í augum uppi: Það var lítið almennilegt í boði. Fólk er nefnilega ekki vitleysingar sem lætur bjóða sér hvað sem er.
Bækurnar sem seldust voru krafmiklar, fræðandi, skemmtilegar, með attitjúd -- þær voru lifandi. Lifandi bækur kveikja lifandi umræðu sem leiðir af sér góða sölu.
Hvað buðu plöturnar upp á? Það segir sig sjálft að þegar í plötuflóðinu eru tíu, tuttugu, plötur með "gömlum lögum í nýjum búningi" er eitthvað mikið að. Það segir sig sjálft að þegar þrjár mest seldu plöturnar á Þorláksmessu eru "kóver-plötur" er eitthvað byrjað að lykta illa í plöturekkunum og fólk nennir ekki í plötubúðir haldandi fyrir nefið.
Það er auðvitað erfitt að bera saman bækur og plötur, en það má samt leika sér að því. Hvað kæmi út ef nýju metsölusögunni hans Einars Más væri breytt í plötu? Hugsanlega ný Bubba plata. Bubbi hefur ekki komið með nýja plötu í nokkur ár en salan á "best of" plötunum hans sýnir samt að frekar vill fólk gömul tíðindi frá kónginum en innihaldslaust lofttúðunauð frá öðrum.
Hvaða vanskapnaður kæmi út ef metsöluplötunum væri breytt í bækur? Er líklegt að bækurnar "Djöflaeyjan, endurskrifuð af Einari Má" eða "Tár, bros og takkaskór, endurskrifuð af Gylfa Gröndal, 9 ára" hafi vakið mikla umræðu? Hver er eiginlega ástæðan fyrir því að íslenskir popparar eru endalaust að endurtaka gamalt efni í stað þess að gera eitthvað nýtt, eitthvað bitastætt, eitthvað lifandi?
Gróðravonin ein? Nei, gæti það verið!?

Smástelpa á valtara
Gott og vel: Jóhanna Guðrún, nú 10 ára, er krútt sem syngur vel. Hún söng nokkra nýlega slagara með íslenskum textum og var mokað í pakka krakka á fermingaraldri. Þó ung sé valtaði hún yfir aðra þessi jólin -- og sú staðreynd að glæný barnastjarna með kóverplötu skuli taka aðra í nefið ætti að fá flesta sem koma nálægt þessum bransa að hugsa sinn gang.
Næst komu þrjár kerlingaplötur, fyrir kerlingar á öllum aldri og af báðum kynjum, með Diddú, Strákunum á Borginni og Páli Rósinkrans. Allt eru þetta framúrskarandi barkar, en þau hefðu gjarnan mátt baka annað en lummur.
Selma og Sálin flytja reyndar nýtt efni, en það fólk sem átti hinir plöturnar með þeim fengu sér nýju plöturnar af skildurækni, eða af þeirri fullvissu að Selma og Sálin bregðast ei; eru örugglega alltaf nokkuð svipuð og síðast. Og það getur verið plús eða mínus, eftir því hvernig maður lítur á það.
Þetta voru nú metsöluplöturnar í ár. Dettur einhverjum í hug orðin ferskleiki, frumleiki eða áræðni?

Óskiljanleg týra í myrkrinu
Hér er iðandi gróska í tónlistarlífinu. Nægir að nefna glæsilegan árangur Múm, Sigur Rósar og Bjarkar í vali gagnrýnenda á Amazon.com. Engin önnur Skandinavíuþjóð er að geraða eins gott og við -- jafnvel þó við sleppum því að spá í höfðatöluna. Þegar yfirflæðandi kóverplötusullinu sleppir koma líka í ljós nokkrar ágætar plötur, þó engin marki beinlínis tímamót eða hafi höfðað til "fjöldans". Mínus voru með frábæra plötu, en eru full harðir til að vera allra. 200.000 naglbítar gerðu meistaraverk í sumar sem tókst aldrei á flug, því miður, og Botnleðja var með enn eina fína plötu (þá bestu í vali Fókus-spekinga). Samt seldu Heiðar og hans framsæknu félagar minna en nokkru sinni fyrr. Kannski var salan á disknum hans Megasar örlítil týra í myrkrinu, karlinn seldi meira en undanfarin ár, þó 1500 seld eintök með annarri eins hvínandi snilld sé kannski ekki eitthvað til að hrópa húrra fyrir. Ber sú sala samt ekki vott um að fólk vilji eitthvað bitastætt, eitthvað gáfulegt, og sé jafnvel til í tuskið þó það skilji ekki helminginn í textunum -- ekki frekar en höfundurinn sjálfur?

Hvar er Skonrokkið?
Hvað veldur því þá að góðar plötur týnast? Verða þær undir í fargi ruslahrúgunnar? Eða voru fjölmiðlar kannski ekki að standa sig? Hefði ekki mátt læða inn einni og einni tónlistarumfjöllun í Kastljósinu? Hefði Stöð 2 getað verið með plötu dagsins annað slagið? Hvað með öll þessi myndbönd sem poppararnir gera og maður sér í mesta lagi brot úr í verðlaunaþætti í Sjónvarpinu eftir áramót? Hvar er Skonrokkið? Fáir með fulle fem yfir fermingu nenna að hanga yfir froðunni á Popptíví til að uppskera kannski eina perlu innan um svín að hrista á sér rassgatið.
Rás 2 má eiga það að hafa staðið sig ágætlega. Þar er þó rekin "allt-í-einum-graut"-stefna sem jafnvel reynir á þolrif "víðheyrnustu" eyrnaparseigenda.
Stærsta glæpinn unnu auðvitað ófrjálsu útvarpsstöðvarnar hans Nonna Ól, sem skelltu múl á íslenska poppara fyrir jólin. Hvaða Stjánar stuð sjá um tónlistarvalið á þessum stöðum? Ætli Nonni -- sem bæ ðe bæó er helsti tónlistarútgefandi landsins -- sætti sig við að 5% af tónlistinni á þessum stöðvum hans er íslensk? Ég segi fyrir mig að ég hlusta með athygli á speki Tvíhöfða á morgnanna, en verð að skrúfa niður þegar hörmulega typpafýlurokkið skellur á. Hefði ekki verið hægt að spila aðeins minna af Creed og Limp Bizkit til að læða góðu íslensku stöffi inn? Jú, ég man eftir einu og einu lagi með Botnleðju og Mínus, en hvar voru t.d. 200.000 naglbítar, Útópía, Stolið, Heiða? Er einhver í fýlu út í einhvern, eða hvað í heilalausu helvíti er eiginlega í gangi hérna?
Kannski verða strákarnir á Skjá einum bjargvættar íslenskrar tónlistar. Þeir keyptu jú Japis og ætla í útvarpsrekstur. Vonandi kemur einhver með viti að útgáfumálum nýja Japis í framtíðinni, því það verður að segjast að ekki byrjar það glæsilega hjá þeim. Eða hvaða vankaði markaðsgúrú hélt eiginlega að tútturnar á Önnu Rakel gætu einar og sér selt plötur?