Jarðaförin mín er bönnuð með lögum

Dauðinn er það eina réttláta við lífið. Hann valtar yfir okkur öll á endanum. Það sleppur enginn. Kára og kó tekst kannski að lengja aðeins í lífinu og kannski getum við orðið jafn gömul og skjaldbökur einn daginn. Vellauðugur en gamall olíukarl í Texas var mikið að spá í þessu í sjónvarpinu nýlega og var vongóður um að tóra lengi enn með hjálp nýjustu tækni. Hann ætlaði aðallega að nota bónuslífið til að græða meiri peninga og gefa sér tíma til að lesa blöðin. Karl greyið.

Ekkert svar
Eftir að besta myndin af okkur hefur birst í Mogganum við hliðina á sorgmæddri steypu frá ættingjum og vinum veit enginn hvað gerist. Þrátt fyrir að mannskepnan sé alltaf að verða "vitrari" á öllum sviðum hefur ekkert af viti komið út úr rannsóknum á dauðanum. Í upphafi aldarinnar var spíritisminn mikið í umræðunni og þeir sem mest voru á kafi í þeim fræðum þóttust vissir um að svarið við dauðaspurningunni myndi birtast fyrr eða síðar, og alveg örugglega áður en öldin væri öll. Útfrymi lufsuðust út úr miðlum, þeir fengu hin og þessi skilaboð frá fólki að handan og borð og stólar flugu um í íbúðum. Þetta átti að sanna með óyggjandi hætti að dauðinn væri ekki endalokin. Galdrakarlinn Houdini var mikið á móti þessu öllu og sannaði að allir miðlar væru svikarar með því að framkvæma nákvæmlega það sama og þeir höfðu gert.
Í dag ber ekki mikið á spíritsmanum þó fólk hafi vafalítið enn mikinn áhuga á málinu. Stundum heyrir maður sögur um vondar afleiðingar andaglas (allt innanstokks fer á flug) og nokkrir miðlar eru Séð og heyrt-tækar stjörnur og færa skilaboð að handan. Ég get ekki sagt til um það hvort þeir séu snargeðveikir eða með einhverja hæfileika sem ekki öllum eru gefnir. Ég hef engar sögur að segja af sjálfum mér hvað dulrænum fyrirbærum viðkemur og hef aldrei upplifað neitt yfirnáttúrulegt. Ég get þó sagt eina sögu af systur minni.

Jónas í glasinu
Hún var táningur og vann úti í Danmörku með vinkonum sínum snemma á 8. áratuginum. Andaglas þótti góð dægradvöl á þessum tíma og vinkonurnar sátu léttklæddar á gærum í hálfrökkri á Sjálandi og spurðu glasið. Nú kom vinnufélagi pabba og fjölskylduvinur í glasið. Hann hét Jónas og bjó einn í litlu húsi sem nú er búið að rífa. Hann sagði stelpunum með glasinu að hætta þessu undir eins, því þær ættu ekki að vera að fikta við þessa hluti. Systur minni brá auðvitað rosalega því síðast þegar hún vissi var Jónas sprelllifandi. Stelpurnur hættu kuklinu snarlega og þegar systir mín fékk næst bréf frá Íslandi kom í ljós að Jónas hafði nýlega stytt sér aldur.
Þetta finnst mér nokkuð merkileg saga og hún er eina "sönnun" mín fyrir framhaldslífi. Maður hefur oft heyrt að sjálfsmorðingjar lendi "á milli vídda" og ég skil Jónas vel að álpast í andaheimum alla leið til Sjálands til að koma í glasið hjá léttklæddum táningsstelpum.

Sennilegast ormafæði
Svo kemur að því; ég læt lífið, dey, gef upp öndina, hverf yfir móðuna miklu, drepst. Ég hef auðvitað ekki hugmynd um hvað gerist, en vona það besta. Ég neita því ekki að gaman yrði að halda áfram í einhverju formi, en ég býst ekki við því. Sennilegast finnst mér að ég verði ormafæða. Seinna yrði ég svo mold og þá myndu kannski fíflar vaxa upp af mér. Ég sætti mig alveg við þetta en samt finnst mér hræðileg sú tilhugsun að vakna í gröfinni og kafna þar í skelfingu. Svo eru leiði líka eyðsla á plássi og greftrun mengandi. Vissir þú að um 7 tonn af járni eru jörðuð á hverju ári á Íslandi? Hér er ég að tala um hankana á kistunum og krossana. Af hverju er fólk ekki frekar jarðað lóðrétt og án kistu? Ég get ekki séð að í því felist einhver óvirðing.

Hálf skúringafata
Ríkið býður upp á aðra möguleika. Ég get ánafnað Háskóla Íslands líkama minn. Þó það sé skemmtileg tilhugsun að enda kannski sem beinagrind í kennslustofu -- gaman að vera innan um unga fólkið og svona -- er það verri tilhugsun að láta upprennandi kryfjara æfa sig á sér. Ekki að ég sé spéhræddur við að nemarnir sjái á mér typpið; nei, ég er bara hræddur um að vakna í miðjum klíðum með innylfin hangandi úti og að mitt alsíðasta andvarp verði fyrir framan æpandi kryfjarakrakka.
Ég vil því láta brenna mig til að fyrirbyggja öll leiðindi. Ef svo illa vill til að ég vakna í ofninum get ég huggað mig við að ég mun ekki kveljast lengi því hitinn verður eitthvað um 800 gráður. Eftir þessa meðferð verð ég og trékistan runnin saman í 2.5 - 3 kg af ösku -- svona eins og hálf skúringafata. Í öskuhrúgunni miðri verður málmbúturinn sem læknirinn setti í löppina á mér þegar ég ökklabrotnaði. Ég gef hér með leyfi fyrir að honum verði hent, eða að brennarakarlarnir bæti honum við í makkintos-dolluna sem þeir eru með ofan á ofninum. Ég hef það fyrir satt að þar sé alls konar málmdót úr fólki og útfararstjóri sem ég þekki segir að það sé ótrúlegt hvað komi út úr fólki þegar búið er að brenna það.

Sturtað úr sultukrukku
Sumt fólk sem ég þekki segist drullusama um jarðaförina sína. Það sé steindautt hvort eða er og ekki á svæðinu. Eftirlifendur megi því gera það sem þeir vilji við líkið. Ég er nú ekki alveg jafn kærulaus með þetta og sé fyrir mér að gestir í jarðarförinni minni gangi upp á Esjuna. Sá sterkasti ber stóra sultukrukku með öskunni í bakpoka. Þegar upp er komið myndi fólk segja nokkra brandara, syngja nokkur hressandi lög ("Ertu þá farinn" eftir Einar Bárðason væri viðeigandi) og síðan væri sturtað úr krukkunni. Askan myndi fjúka út í veður og vind -- sameinast lofti og láði svo notað sé hátíðlegt orðalag -- og vonandi þyrlast á þakið á flotta húsinu sem ríka fólkið á í Kjalarnesi. Mig langar alltaf til að sjá þarna inn þegar ég keyri framhjá en tími ekki að borga mig inn. Svo væri mér að meinalausu að haldið yrði áfram að sjóða sultur í krukkuna.
En nei, þetta má ekki. Jarðaförin mín er bönnuð með lögum! Það er bannað að dreifa ösku dauðs manns -- trúiði því?! Er frelsið sem allir eru að blaðra um virkilega svona? Frelsið þýðir ekki að maður geti ráðstafað líkinu af sjálfum sér, heldur að maður geti skuldað pening á mismunandi hátt og fengið mismunandi myndir framan á símann sinn. Aumt frelsi það.

Davíð Oddsson og Karl Sigurbjörnsson takið eftir!
Víðast hvar erlendis má fólk taka ösku látins ættingja með sér heim og gera hvað sem er við hana. Í Bandaríkjunum er það stór iðnaður að dreifa ösku úr flugvélum og úr bátum. Í Hollandi eru nær allir brenndir. Meira að segja í Noregi mætti syrgjandi eiginkona taka karlinn í nefið ef hún vildi.
En nei ó nei, ekki á eldgömlu Ísafold. Hér verður að hola öskunni í sérstöku leirkeri niður í sértilgerð leiði innan kirkjugarðs. Þó maður láti afskipti Ríkissins ganga yfir sig án þess að kveina hátt finnst mér einum of að valdsvið þess nái út fyrir gröf og dauða.
Ríkið bannaði þetta með kirkjugarðslögum árið 1963. Það ber við að einkaleiði í görðum um allan bæ hafi ekki alveg verið að gera sig. Kirkjan vill líka halda dauðabransanum út af fyrir sig því hann gefur vel í kassann. Einhverjar mæður eiga líka að hafa klikkast svo gjörsamlega með dána barnið heima að þær báru kerið út á róló og heimtuðu að lifandi krakkarnir léku sér við það. Er þetta ekki enn eitt sláandi dæmið um kolklikkað fólk sem hefur vit fyrir okkur hinum?
Kæru herrar, Davíð Oddson og Karl Sigurbjörnsson. Viljiði gjöra svo vel að beita ykkur fyrir því að þessum lögum verði breytt. Mér finnst Gufuneskirkjugarður ekki fallegur staður.