Fámenni í 2000 ára afmæli leiðindapúka

Sem betur fer tóku mapa fæðingu mína ekki upp á videó. Ég kom auðvitað löngu fyrir þann tíma er búið var að selja hvaða nonna jóns þá hugmynd að hann yrði að eiga videókameru. Þótt mapa hefðu átt tökuvél hefðu þau aldrei filmað þegar ég datt út slímugur og grenjandi. Þau eru of heilbrigð til að láta sér detta slíkt í hug, eða kannski fæddist ég bara inn í heilbrigðara þjóðfélag. Þau sögðu aldrei í sjónvarpsherberginu: "Sjáðu Gunni, hér ert þú að koma í heiminn. Nú skulum við sýna þetta hægt aftur á bak."
Mapa voru líka það heilbrigð að þau lögðu ekki krónu inn á sparnaðarreikning fyrir mig. Það var heldur engin brosandi amma sem fékk koss á kinn fyrir fimm þúsund kall. Nú er ég að vitna í ógeðslegustu auglýsingaherferð síðari tíma, þessa frá bankanum. Hún er með krökkum sem hlægja geðveikislega, eins og þau hafi sturlast af því að eiga svo mikla peninga inni á reikningi. Kannski á þessi hlátur að fyrirstilla það að þau hlakkar svo til þegar þau verða 18 ára og geta tekið aurinn út. Nei, mætti ég þá frekar biðja um "kombakk" hjá Trölla en þennan viðbjóð. Maður undrast að hrægömmum bankanna hafi ekki ennþá dottið í hug að byrja með "Líkkistureikning unga fólksins". Ekki væri hægt að taka út af honum fyrr en á banalegunni. Þá ættu krakkarnir fyrir útförinni sinni.

Skítafýla af peningum
Peningar skiptu mig litlu þegar ég var að alast upp. Ég fékk stundum pulsu og Matchbox-bíl og það nægði mér. Ég hefði ekki orðið neitt hamingjusamari þó ég hefði átt milljón kall þegar ég varð 18. Mér var sama hvort ég ætti peninga eða ekki.
Lífið snýst ekki og á ekki að snúast um peninga. Það er skítalykt af peningaseðlum og úldin fýlan af þeim sem segja mér að ég verði að eiga peninga eða kaupa hitt og þetta, annars líði mér ekki vel. Hagnaður og gróði? Þeir geta troðið því öllu upp í rassgatið á sér!
Þú kaupir þér ekki hamingju. Þú kaupir þér ekki heilsu. Það eina sem þú getur keypt þér er í besta falli eitthvað sem rúnkar sálartetrinu í skamman tíma. Þó þetta liggi svo í augum uppi að það sé barnalegt að nefna það, fannst mér rétt að minna á það. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann nefna þetta lengi. Ef þú ert með eitthvað múður læt ég Bítlanna baula á þig "Can't Buy me Love".

Speki smjörkúka
Á mínu æskuheimili voru smjörgreiddir ungir menn með bjánaleg gleraugu og mjó svört bindi kallaðir smjörkúkar. Þeir voru á svipinn eins og þeir hefðu unnið í bókhaldi frá fæðingu. Í dag eru smjörkúkarnir jafn slepjulegir þó þeir dulbúist betur.
Græðgi þykir fallegt og jákvætt orð í orðabók smjörkúka. "Hvað er að því að græða?," spurði einn alveg gáttaður í sjónvarpinu nýlega, "það er það sama og að græða eitthvað upp, sbr. skógrækt". Hann skyldi ekkert íðí að fólk skyldi ekki samþykkja þann einfalda sannleika að eina leiðin til paradísar er að verða akfeitur karl og kjamsa við veisluborðið, því þá detta nefnilega leifar til pakksins sem hímir fyrir neðan. Þannig ættu allir að verða glaðir og tilgangur lífsins sá að komast með fallegri græðgi á góðan stól við borðið.
Æi, blessaðir aumingjarnir (eins og amma mín, sem gaf mér aldrei fimm þúsund kall en ég kyssti samt á kinnina, hefði sagt); ef þeir þykjast finna lífshamingju í því að græða peninga þá held ég að þeir megi það. Það væri bara óskandi að þessum aumkunnarverðu lífsgildum væri ekki troðið upp á mig í hvert skipti sem ég kveiki á sjónvarpinu.

Bóla á rassgati góðærisins
Auglýsingarnar eru krabbamein í sjónvarpinu. Nú er sjúkdómurinn skæðastur og Þjóðkirkjan klappar fyrir honum út í því horni sem hún er búin að mála sig út í með aumingjaskap. Eina leiðin til að ég þoli heilan auglýsingatíma er að ég túlki auglýsingarnar á mannamál, að ég kreisti út úr þeim hvað þær eru raunverulega að biðja mig um. Þegar ég er búinn að taka burt uppstrílaðann textann og flottræfilsleg myndskeiðin verða skilaboðin skýr: Kauptu bíl, kauptu kviðarstrekkjara, kauptu hamingju í þessu eða hinu forminu, kauptu graftarbóluna á rassgati góðærisins.
Kirkjan er ekki bara búin að mála sig út í horn, hún er líka búin að gera á sig. Ef ég hefði gert á mig á síðasta fyllirí hefði ég barið á dyrnar hjá Þórarni Tyrfingssyni og beðið hann um að hjálpa mér. En kirkjan ber ekki á dyrnar hjá neinum þó hún sé búin að gera á sig. Hún er alltof mikil með sig til þess og of hugað um að vera "í takti" við tíðarandann. Hvað er líka íslenska þjóðkirkjan annað en hópur fólks sem hefur stundað guðfræðinám? Það er jafn mannlegt og við hin og löngu búið að láta heilaþvo sig með auglýsingafarganinu. Búið að gefast upp.

Gamaldags hipparæksni
Nú á Jesú greyið stórafmæli. Hann er tvöþúsund ára og heldur sér vel, er ekki deginum eldri en 33. Sérarnir Gunnar og Snorri, sem halda einhvers konar brenglaðri útgáfu af boðskap hans enn á lofti, baka handa honum afmælistertu. Jesú setur þó vafalítið á þá múl þegar þeir byrja með hommaruglið sitt.
Ef gamli Jesú myndi birtast í dag yrði hann hleginn út úr eigin afmælisveislu. "Hvers konar gamaldags viðhorf ert þú með hérna hippinn þinn?," myndu smjörkúkarnir spyrja á meðan þeir spörkuðu í rassinn á honum. "Ha, viltu kannski bara geta keypt Prins póló í sjoppunni?"
Við lifum í útópíu góðærisins. Þegar atvinnuleysi og kreppa skellur á munum við hugsa um jólin 2000 og þurfa vasaklút til að þerra af okkur tárin. Ó, hvað það var yndislegt þegar við lágum eins og glaðir grísir í drullupolli og höfðum efni á að kaupa okkur frá efasemdum lífsins. Ef við fundum fyrir tilgangsleysi innra með okkur fórum við bara í BT tölvur.
Það segir sig sjálft að þegar við verðum blönk og eigum eldgamlan skrjóð mun Jesú kannski meika einhvern sens fyrir okkur.  Núna nennum við ekki að hlusta á rausið í honum, við erum of upptekin í kringlunum. Við þurfum því annars konar frelsara.

Himnaríkið Ísland
Nýji frelsari er enginn leiðindapúki eins og sá gamli. Sá talaði um kærleik, samúð, gjafmildi og annað eins kerlingavæl, og var með geðveikisblaður um að hinir ríku kæmust ekki til himnaríkis. Veit bjáninn ekki að við erum í himnaríki akkúrat núna og getum bráðum orðið 200 ára gömul, jafnvel eilíf, ef Kári og hinir gaukarnir standa sig vel? Hver nennir hvort eð er til himnaríkis? Hvað eigum við svo sem að gera þar? Getum við grætt á hlutabréfum þar? Er Baugur búinn að opna útibú? Náum við Skjá einum?
Nei, Þjóðkirkjan ætti að hætta þessu hálfkáki, henda krossunum og útstillingamyndunum í Kirkjuhúsinu í eitt skipti fyrir öll. Jesú og boðskapur hans er ekki málið í dag og asnaskapur hjá kirkjunni að reyna að smygla þeim pakka stökkbreyttum inn í góðærið. Í staðinn ætti að festa erni á kirkjurnar og myndir af nýja frelsaranum að koma í gluggann í Kirkjuhúsinu. Hann er ungur, vatnsgreiddur og með gleraugu; nánast smjörkúkur af gamla skólanum. Hann lofaði okkur um daginn að innan fárra ára yrði kominn hópur á Íslandi sem vissi ekki aura sinna tal. Líkt og Vottarnir nefndi hann tölu, en ég man ekki hve mörg þúsund áttu að öðlast himnavist hjá honum. Þér er borgið ef þú fjárfestir í réttum hlutabréfum, sagði hann.
Guð sjálfur stígur svo niður til okkar á gamlárskvöld og talar til okkar úr sjónvarpinu. Hann mun blessa okkur og segja að himnaríkið Ísland vari að eilífu þrátt fyrir verðbólguspár djöfulsins.
Vonum það í lengstu lög. Það væri leiðinlegt að skemma fín jakkaföt ef nýji frelsarinn yrði krossfestur.