Tollablús fyrir úkúlele

Hinn 23. ágúst 1879 kom skipið Ravenscrag til Hawaii eftir að hafa velkst í hafi í 4 mánuði. Innanborðs voru 419 menn, konur og börn frá Madeira, komin til Hawaii til að hefja nýtt líf. Einn þeirra var Joao Fernandez. Hann var svo glaður að vera loks kominn á áfangastað að hann stökk á land og söng og spilaði á braguinha-ið sitt, fjögurra strengja portúgalskan gítar. Innfæddir ráku upp stór augu, hrifust af tónum hljóðfærisins og sögur af því bárust um eyjarnar.
Nokkrum mánuðum síðar var farið að smíða eftirlíkingar af braguinha Joaos og notað til þess efniviður af eyjunum. Útkoman var kölluð úkúlele -- "hoppandi fló" -- en fingrafimi Joaos á ströndinni þótti minna á hoppandi flær.
Í dag er úkúlele-ið eitt af þjóðareinkennum Hawaii, snilldarhljóðfæri sem allir geta lært á. Mig langaði í úkúlele og hreppti því eitt á uppboðsvefnum Ebay.

Frábær hagræðing
Þegar Póstur og sími var eitt og hið sama var pósttollstofan staðsett í Ármúla og maður blótaði oft í hljóði að þurfa að koma sér alla leið þangað til að leysa út disk eða bók. Svo var batteríinu skipt í tvennt -- "til hagræðingar" -- og hagræðingin sú fyrir mig, viðskiptavininn, fólst í því að nú þurfti ég að dragnast á hjara veraldar, upp í Póstmiðstöðina á Höfða eftir lítilfjöllegum diski eða bók. Það er auðvitað algjört aukaatriði og ekki mál póstsins að ég á engan bíl og hef aldrei tekið bílpróf.
Ég tók þessu þegjandi, blótaði bara í hljóði og tók frí í hádeginu til að druslast eftir dótinu mínu. Ef ég var heppinn fékk ég dótið þegar ég hafði borgað innflutningsgjöld og toll. Samtals var þá dótið orðið miklu dýrara en ef ég hefði keypt það hér. Ef ég var óheppinn þurfti ég aftur oní bæ eftir einhverri útprentun eða ljósriti sem vantaði upp á. Ég hélt að þjónustan gæti ekki orðið verri. Þar hafði ég rangt fyrir mér.

Í höll Drakúla greifa
Að því komst ég að þegar úkúlele-ið kom í pósti. Það hafði kostað 40 dali plús 22 í póstkostnað. Samtals 62 dali, rúmlega 5 þúsund kall. Ég fékk ábúðarfullt bréf í pósthólfið mitt og var boðaður í höll Drakúla greifa við Tryggvagötu. Ég hef komið í pósthúsið í Tallinn, en trúið mér: Við hliðina á Tollinum við Tryggvagötu er það þunglamalega ríkispósthús sem Disney-land. Ég mætti skjálfandi með það sem ég hafði í höndunum; ljósrit af tékkanum sem ég sendi fyrir úkúlele-inu og útprentun á reikningnum frá Ebay. Í upplýsingum var roskinn starfsmaður, sem hjálpaði mér þegar ég hafði vakið hann. Hann fyllti út innfluttningsskýrsluna fyrir mig og hún var send inn í svarthol hallarinnar. Þetta var á miðvikudegi um hádegið. Mér var sagt að koma daginn eftir og tékka á þessu.
Ég mætti á fimmtudagshádegi, en þá var komið babb í bátinn -- eitthvað sem ég skildi ekki alveg, enda hef ég ekki gengið í tollskólann -- en elskuleg starfsstúlka hjálpaði mér að lagfæra skýrsluna sem starfsmaðurinn í upplýsingunum hafði fyllt út daginn áður. Fór þá innflutningsskýrslan aftur inn í svartholið. "Tékkaðu á þessu á eftir", sagði starfsstúlkan að skilnaði.

Ástrós reddar þessu
Þegar ég tékkaði "á eftir" var mér sagt að tékka í fyrramálið. Þegar ég gerði það var mér sagt að tékka um hádegi. "Þetta er enn í skoðun," sagði stúlkan í símanum í hádeginu en gaf mér samband við upplýsingafulltrúann, Ástrósu. Hún vildi ólm "gera eitthvað fyrir mig" og sagði mér að hringja eftir korter. Nú var ég farinn að halda að það væri skriðdreki í pakkanum en ekki úkúlele, eða þá að úkúlele-ið hefði óvart verið fyllt af heróíni. Ég viðurkenni að ég var farinn að svitna þegar ég hringdi í Ástrósu korteri síðar.
"Ég hef bara ekki haft tíma til að athuga þetta," sagði Ástrós þá og sagðist hringja um leið og hún væri búin að kynna sér málið. "Verður það ekki bráðlega," spurði ég varlega því ekki vildi ég styggja ríkisstarfsmann, og hún lofaði því.
Rúmlega hálftíma síðar hringdi Ástrós með stórfrétt: Þetta var tilbúið! Ég fór í höll Drakúla og borgaði samtals 1265 kall í Ö2 gjöld.

Alltaf jól hjá tollvörðum
Nú var kominn föstudagur og vonda veðrið sem spáð hafði verið á miðvikudag var skollið á. Ég var þó ekkert að spá í vonda veðrinu enda fullur fagnaðar með stimplað plagg frá Tollinum í höndunum og hafði ekki verið nema tvo daga að ná því í gegn.
Ég tók strætó nr. 110 og gekk úr Ártúni í víggyrta og skuggalega póstherstöðina í útjaðri borgarinnar. Ég komst veðurbitinn á tollkontorinn, sem er ótrúlega lítill miðað við það flæmi sem pósturinn hefur aðsetur í. Eins og vanalega beið fólk þar í hrönnum eftir að ómarkviss röðin kæmi að því. Í svip gesta var grámygla, enda lítið til dundurs á kontornum. Fólk barðist um velkt eintök af Degi gærdagsins en enginn fékk sér veitta hressingu: staðið vatn og vont kaffi. Tollverðir í ljómandi glæsilegum einkennisbúning kíktu tortryggnir í pakka bakvið, svona líka ánægðir með djobbið. Hjá þeim hljóta alltaf að vera jólin.

Kontór æðiskastanna
Nú fékk fölur náungi með gleraugu snögglega nóg og fór að derra sig við starfstúlku. "En ég er búinn að borga fyrir þetta!," vældi hann örvæntingarfullur og heimtaði þar næst að fá að tala við tollvörð. Hann var leiddur sótsvartur af pirringi inn í hliðarherbergi. Ég átti eins von á að heyra næst byssuhvell og sjá tollverði bera líkið út, en í staðinn rauk föli maðurinn út eftir 5 mínútur og skellti á eftir sér. Enn meiri örvæntingar gætti í kjölfar þessa í andlitum hinna bíðandi gesta, og ég fékk herping í magann. Starfsstúlkurnar brostu umhyggjusamar. Eftir nokkur æðisköst til viðbótar kom að mér og til allrar hamingju fékk ég pakkann möglunarlaust og þurfti ekki að taka kast. Tók leigubíl í bæinn (1450 kall) með úkúlele-ið og andaði léttar.
Næst þegar ég dirfist að kaupa eitthvað frá útlöndum ætla ég að undirbúa mig vel, panta frí í vinnunni og byrgja mig upp af róandi lyfjum. Næst þegar ég heyri blaðrað um Netvæðinguna, Alþjóðasamfélagið og vaxandi viðskipti á Netinu mun mér renna kalt vatn milli skinns og hörunds og ég mun fá martraðir. Þá verður gott að geta gripið til úkúlele-sins og látið sefandi tóna þess róa sig niður.