Atvinna í boði, heiladauði æskilegur

Einu sinni var ég eitthvað að flækjast með vinum mínum á sólarströndinni í Brighton. Á frægri skemmtibryggju staðarins var alls kyns dót sem maður gat eytt peningunum sínum í; skotbakkar, speglasalir og spilavíti. Þarna var líka klasturslegur timburkofi málaður í skærum litum og búið að merkja hann, "The Mystery Surprise Maze". Fyrir framan innganginn sat glottandi gamall karl með sixpensara og gleraugu og seldi inn. "Á þessu verð ég tékka," hugsaði ég, borgaði karlinum og dró andann djúpt um leið og ég gekk inn, "nú verður mér svo sannarlega komið á óvart."

Meiri háttar lífsreynsla
Inni var hálfrökkur. Það var búið að dreifa sandi yfir gólfið. Það var smá gat á einum veggnum og í bjarma sólarinnar sem læddist inn sá ég að það var akkúrat ekkert inni í þessum kofa, hann var galtómur fyrir utan að í einu horninu suðuðu nokkrar flugur. Ég gekk yfir gólfið og kom út um dyr baka til. Þegar ég gekk fram fyrir sá ég að karlinn glotti enn meir en áður. Ég glotti á móti og kappkostaði að líta út í framan eins og þetta hefði verið meiri háttar lífsreynsla. Vinir mínir vildu ólmir vita hvað væri inni í kofanum, en ég sagði að þeir yrðu að upplifa það sjálfir. Því borguðu þeir sig inn einn af öðrum og komu út þöglir sem gröfin en með mikinn leyndardóm í andlitinu. Þegar allir höfðu farið inn, gengið eftir gólfinu í tómum kofanum og komið út hinu megin, héldum við áfram eftir bryggjunni og minntumst aldrei á þessa lífsreynslu framar.
Mér hefur verið hugsað til þessa kofa í seinni tíð. Hann má jafnvel kalla samnefnara yfir lífið sjálft. Maður "borgar sig inn", vafrar í tóminu og býst við einhverju, en kemur svo út "hinu megin". Maður viðurkennir auðvitað aldrei fyrir öðrum að það hafi í rauninni ekkert verið að gerast í kofanum. Kannski gamli karlinn hafi glott svona af því hann var með þessa speki á hreinu. Annað hvort það eða þá að hann var bara svona glaður að hafa haft aurinn af nokkrum næpuhvítum fábjánum.

Dósaverksmiðja dauðans
Þó kofinn sé galtómur og það sé bara hið besta mál, eru allskyns menn alltaf að reyna að fylla hann fyrir okkur. Nú síðast helvítis Framsóknarflokkurinn, sem vill endilega að sem flestir vinni í álverksmiðjum í framtíðinni. Ég þekki strák sem vinnur í álverksmiðju en honum langar ekkert til að vinna í álverksmiðju allt sitt líf. Hann segir að þetta sé leiðinlegt og illa borgað djobb og hann ætlar að skipta um vinnu við fyrsta tækifæri. "Viljum við að börnin okkar vinni í álverksmiðju?, spurði einhver í sjónvarpinu nýlega, "er það sú framtíð sem við sjáum fyrir okkur?" Því miður var þessi spurning ekki rædd frekar, því þegar "stóru spurningarnar" koma upp er alltaf farið að röfla um einhver smámál, í þessu tilfelli einhverja hagfræðiþvælu.
Ég hef ekki unnið í álverksmiðju en ég hef unnið í dósagerð og það er kannski svipað. Dósagerðinni í Kópavogi, líklega mestu eymdarverksmiðju á landinu.
Þetta átti að vera sumarvinnan mín. Fyrsta daginn var ég settur á vél með hálf vangefnum karli sem var drullugur upp fyrir haus. "Þú verður hérna þangað til þú drepst," hvíslaði hann þegar verkstjórinn lét okkur takast í hendur og svo sagði hann ekki meira fyrir hádegi.
Í hádeginu var heitur matur í mötuneytinu. Ég gerði þau mistök að setjast í stól einhvers sem hafði setið í sama sætinu í 20 ár. Ég varð því að "drulla mér" úr sætinu og ekkert annað var laust en við hliðina á þessum skítuga sem ég hafði unnið með fyrir hádegi. "Veistu að þeir leiða skítinn hérna út í voginn," sagði hann og horfði sljóum augum út um gluggann yfir Fossvoginn.
"Ha?" hváði ég og maukaði kjötbollum saman við kartöflumús.
"Já, ég þekki mann sem er kafari og hann sagði mér að hann hefði kafað þarna og hann þurfti að vaða mannaskít og hann var næstum búinn að festa sig og hefði getað drepist fastur í klósettpappírstaumum og smokkum."
"Jæja já," sagði ég og reyndi að slafra í mig matnum.
Eftir hádegi sögðum við ekki neitt og tíminn til klukkan fimm var eins og margar vikur að líða.

Heiladauð tannhjól
Ég mætti daginn eftir og var settur á aðra vél. Það djobb fólst í því að klippa hringi út úr álþynnum. Ég sat við vélina, tók eina álþynnu úr stafla, renndi henni undir "gatarann", steig á fótstig og svona þynnu eftir þynnu frá klukkan 9 til 5. Vinnuvetlingarnir voru vitanlega orðnir götóttir kl. 10, mér var byrjað að blæða kl. 11 og þegar ég kom heim voru hendurnar á mér eins og ég hefði verið að hamast á þeim allan daginn með ostaskera. Ég hætti eftir viku, sem í minningunni er eins og þrjú ár, og ákvað að vinna aldrei aftur í verksmiðju.
Ég get ekki séð að þarna ynnu einhverjir djúpspakir snillingar, eins og stundum er verið að reyna að telja manni trú um að verkafólk sé. Þetta var allt frekar sorrí lið enda að láta þræla sér út fyrir fáránlega lág laun, drakk sig svo til dauða um helgar og var fast í algjörri fábjánahringrás, sem endar annað hvort með dauða eða geðveiki. Ef það hefði haft hinn minnsta möguleika á hefði það rifið sig upp úr þessari eymd og farið að gera eitthvað annað. Kannski voru verkamenn einu sinni upp til hópa snillingar sem lásu Laxness í kaffitímanum og hugsuðu háfleygar hugsanir, en þeir eru það örugglega ekki lengur, nema kannski einn og einn sérvitringur sem enn hefur ekki séð í gegnum útópísku lýgina um hinn stolta verkamann.
Sem betur fer bíður lífið á Íslandi upp á fleira en að fólk gerist heiladauð tannhjól í færiböndum verksmiðja. Alla vega hélt maður það. En nú er Framsóknarflokkurinn að komast í stuð og undirbýr þessa líka frábæru verksmiðjuframtíð fyrir unga fólkið. Það er meira að segja hægt að kynna sér sambærilegar aðstæður áður út í Noregi. Framsókn vill troða unga fólkinu í verksmiðjurnar og um leið þykjast þeir svaka harðir á dópinu. Það sér þó hver heilvita maður að eina leiðin til að fólk nenni að vinna til langframa í álverksmiðju er að það sé útúrskakkt allan daginn, enda hjálpar það til að ná hinum æskilega heiladauða. Til hamingju með þetta allt saman, Austfirðingar!