Þrír Tannabúar virða fullir lotningar fyrir sér mynd af "Tom Navy", einn útsendara Jons Frum.


Jon Frum á Íslandi

Ég klikkaði illalega áðí að tékka á Könunum á Vellinum um síðustu helgi. Það var verið að halda upp á 50 ára afmælið og ég hefði getað farið og fengið mér bbq og kók og skoðað flugvélar og eitthvað herdrasl. Ég hreinlega mundi bara ekki eftir þessu og fór í Perluna í staðinn. Á næsta borði sat fjölskylda af Vellinum og borðaði ís. Yfirvaraskeggið á karlinum og snjóþvegnu gallabuxurnar sem huldu svera rassana komu upp um þau. Það er gott að eiga þetta fólk að, hugsaði ég, ef stríð brýst út og svona.

Paradís gegnum gaddavírinn
Áratugum saman litu landsmenn með lotningu til munaðarins sem viðgengst á Vellinum. Þar gátu menn svolgrað í sig bjór, étið allskonar stórsteikur og maulað framandi nammi og að auki baðað sig í öllum nútíma þægindum. Á meðan var haftastefnan við lýði annars staðar á klakanum og mesta lagi hægt að fá Kók og Prins Póló: Kók af því ríkisstjórnin hjálpaði upprennandi kolkröbbum til að ná umboðinu, en Prins Póló af því það kom á móti síld til Póllands. Á meðan við fengum ekkert nema kók og Prins og ýsu með smjöri sáum við glitta í Paradís í gegnum gaddavírsgirðinguna. Svona viljum við líka fá að lifa lífinu, sagði fólk og gekk einu sinni á ári í skrúðgöngu frá Vellinum og niðrí bæ, sönglandi og trallandi til að leggja áherslu á orð sín. Smátt og smátt höfðu skrúðgöngurnar áhrif, haftamúrarnir brustu og Íslendingar gátu lifað lífinu eins og Kanarnir á Vellinum. Nú getum við gert það sama og þeir og keypt næstum því allt það sama, bara verst að við þurfum að borga u.þ.b. 300% meira fyrir góssið. Því er gott að vita af Sölu varnarliðseigna, en þar er hægt að kaupa gamalt drasl sem Kanarnir eru hættir að nota á spottprís. Á meðan við keyrum okkar drasl í Sorpu keyra Kanarnir sitt í S.V. og hafa margir haft vel upp úr því fyrirkomulagi.

Drykkjumenn verða fyrir guðlegri vitrun
Víkur nú sögunni til annarar eyju, Tanna í Vanuatu-eyjaklasanum, sem hvítir menn kölluðu einu sinni Nýju-Hebredesareyjur. Eyjan er í Melanesíu, mitt á milli Nýju Keladoníu og Fidji-eyja. Þar hafa um aldir búið, það sem við myndum kalla, einfaldir og frumstæðir villimenn, þó þeir hugsi reyndar svipað og við. Þarna búa um 20 þúsund manns og yfir þorpunum á ströndinni gnæfir eldfjallið Yasur, sem í hefur kraumað áratugum saman.
Þegar vestrænir trúboðar fóru að herja á frumbyggja Tanna um miðja 19. öld urðu eyjaskeggjaðir heillaðir af eigum og munaði hvíta mannsins. Trúboðarnir sögðu frumbyggjunum að allur þessi munaður kæmi sjálfkrafa ef þeir færu reglulega með bænir og ef þeir afneituðu fornum siðum eins og kava-drykkju, dansi, svartagaldri og að ganga með typpin í slíðri. Auðvitað gerðust því flestir eyjaskeggjar kristnir og fóru í stuttbuxur.
En sama hvað eyjaskeggjar báðust fyrir voru hvítu plantekrueigendurnir og kaupmennirnir alltaf miklu efnaðri en þeir. Við eignuðumst þetta allt með mikilli vinnu, sögðu þeir hvítu og fólkið á Tanna fór því að vinna á plantekrunum.
Fólkið á Tanna púlaði og baðst fyrir áratugum saman en var alltaf skítfátækt miðað við hvíta liðið. Óánægjan fór því að ólga á meðal fólksins. Það var óánægt með hrokann í evrópsku plantekrubossunum, óánægt með þær stífu reglur sem Kirkjan setti og óánægt með að hafa það ekki eins gott og hvíta fólkið.
Óánægjan ólgaði árum saman, en árið 1936 fór fólkið á Tanna að tala um dularfulla persónu sem það kallaði Jon Frum (hugsanlega "John from America"). Goðsögnin segir að Jon Frum hafði komið af hafi og kynnt sig fyrir nokkrum kava drykkjumönnum. (Kava er drykkur unnin úr rótum og getur valdið doða og ofskynjunum.) Jon Frum tilkynnti drykkjumönnunum að innan tíðar yrðu allir eyjaskeggjar ríkir, allskyns munaður og veraldlegar eigur myndu flæða yfir eyjuna og að bráðum myndu engar farsóttir geysa þar framar.

Góssentíðin kemur og fer
Spádómurinn rættist í seinni heimsstyrjöldinni. Þá geysaði stríð á þessum slóðum og ameríski herinn sló herskyldi á Tanna. Eyjan fylltist af amerískum hermönnum, þar á meðal var fullt af svertingjum (en ekki bara 3, eins og hér), og margir Tanna-búar fóru að vinna fyrir herinn. Þeir sáu að herinn átti fullt af dóti; skip, jeppa, flugvélar, ísskápa og útvörp, og líka endalausar byrgðir af kóki, nammi og sígarettum. Tannabúar urðu líka vitni að því að hermennirnir, sérstaklega þeir svörtu, voru mjög gjafmildir, og því drógu þeir þá ályktun að Jon Frum hlyti að vera frá Bandaríkjunum. Hermennirnir væru menn Jons og á endanum hlyti hann sjálfur að koma.
Hann kom þó aldrei. Eftir stríð fóru Kanarnir og um leið lauk góssentíðinni. En Tanna-búar voru komnir á bragðið. Líkt og Jesú og hans lið, hlýtur Jon Frum að vera allt um kring og sífellt með augun á okkur, hugsuðu Tanna-búar. Þeir reyndu að lokka Jon Frum og hans menn til eyjarinnar á ný og var ýmsum aðferðum beytt. Eyjaskeggjar máluðu "U.S.A." á sig og þrömmuðu um eyjarnar í hermannaleik. Þeir reistu fána Rauða krossins út um allar trissur því á stríðstímanum hafði hinn rauði kross táknað stað þar sem ókeypis læknisaðstoð og aðhlynningu var að fá. Sumir bjuggu til gervi senditæki úr blikkdósum og vír og reyndu að ná sambandi, aðrir ruddu skóga og gerðu gervi flugvöll eða smíðuðu gervi flugvélar úr timbri til að freista Jon Frum til að koma aftur með stóran farm af guðlegum munaði og eigum. Enn aðrir reistu bryggju til að Jon Frum geti komið á stóra skipinu sínu, sem vitanlega væri fullt af dóti. Í lengi tíma eftir stríð skoðuðu Tanna-búar allar flugvélar sem lentu á eynni, ef ske kynni að Jon Frum leyndist um borð. Allir Ameríkanar sem komu voru spurðir hvort þeir hefðu einhver skilaboð frá guðinum.

Enn er beðið
Allt þetta bauk í eyjaskeggjum þykir mannfræðingum merkilegt færirbæri. Áöðrum eyjum á þessum slóðum eru svipuð trúarbrögð í gangi og hefur nafnið farmtrú (e. Cargo Cult) fests við fyrirbærið. Trúin á Jon Frum er þó þekktust. Við Íslendingar vorum miklu heppnari en fólkið á Tanna. Menn Jons Frum fóru aldrei héðan og farmtrúin blómstrar nú sem aldrei fyrr. Veraldlegur munaður þykir það dýrlegasta og allir eiga fullt af dóti. Hefðu útlendu mennirnir ekki komið og dokað við værum við líklega enn oní moldarkofunum maulandi Prins Póló og glamrandi á langspil. Nú erum við rosa kúl og að auki fimmta ríkasta land í heimi. Í hugskotum sumra ólgar svo sá draumur að við verðum ríkasta land í heimi. Sjálfur stefndi ég lengi að því að verða ríkasti maður í heimi en fékk lyf við þeim órum þegar ég þótti orðinn hættulegur umhverfinu. Ef við verðum heppin sleppir Jon Frum aldrei af okkur hendinni og góssentíðin mun ríkja að eilífu.
En hvað með fólkið á Tanna? Kemur Jon Frum einhvern tímann þangað eða sendir sína menn færandi hendi? Þeir trúuðu hafa beðið spenntir síðan stríðinu lauk og nýjar kynslóðir taka við af gömlum. Þrátt fyrir allskyns tilraunir hefur hans guðlega ásýnd ekki sést ennþá á Tanna. Þegar mannfræðingarnir spyrja hvort þeir ætli ekki að fara að hætta þessari vitleysu glotta gömlu mannæturnar bara og segja: Þið hafið beðið í nærri því 2000 ár eftir ykkar Jon Frum, en við höfum bara beðið í rúm 50!