Við erum öll hórur

Góður vinur minn, sem er jafnvel enn yngri en ég, fór alveg yfirum um daginn þegar hann sá auglýsinguna frá Íslandssíma um eitthvað nýtt símakort. Í stað þess að froðufella af gleði yfir snilldinni og fá sér kort þegar í stað hafði auglýsingin þveröfug áhrif. Nokkru áður hafði Íslandssími lætt inn á hann þjónustu sinni með gylliboðum, en nú var vinurinn sjóðandi fúll og hringdi til að slíta öllum viðskiptum við fyrirtækið. Honum fannst auglýsingin svona líka viðbjóðsleg og gat ekki hugsað sér að styðja málstaðinn.

Brosa og glenna
Svona svona, sagði ég og strýddi honum með því að herma eftir gamalli nöldurskjóðu að hringja í Þjóðarsálina. En honum var ekki haggað og sagði mér svo sigursæll seinna að hann hafði frétt að margir aðrir hefðu gert það sama og hann.
Nú er vini mínum vorkun, hann á börn og svona, og er orðinn ægilega settlegur. Sjálfur hefði ég aldrei brugðist svona við, því þessi blessaða auglýsing er ekki sjokkerandi í mínum huga. Hún er aðallega hallærisleg. Þarna er gaurinn með kambinn enn og aftur að sýna sér á skaufann (það hefur örugglega ekki þurft að borga honum), einhverjar Manson-gærur að ærslast, Jón Mýrdal á delanum og svo er það sjálfur hardkor-Tarfurinn sem slummar framan í áhorfendur og veifar vörunni. Vá, voða er þetta á brúninni, maður. Hvar fær maður svona kort?
Reyndar ætti ég ekki að vera að auglýsa þessa auglýsingu, nóga athygli hefur hún fengið í þáttum á Skjá einum, en samt; þó hún sé hallærisleg og ekki frumleg eða ögrandi (nema fyrir barnafólk eins og vin minn), er hún gott dæmi um þá staðreynd sem við sitjum uppi með: Kapítalisminn hefur sigrað og það er ekkert hægt að gera annað en að brosa og glenna upp klofið, annað hvort í líkamlegum eða andlegum skilningi. Við erum öll orðin hórur og ættum að fara okkur varlega í að dissa stelpurnar á pjásukössunum. Nákvæmlega allt er til sölu, jafnvel það sem á að vera ögrandi, nýtt og ferskt. Og þá blasir það augljósa við: Ekkert er lengur ögrandi, nýtt eða ferskt, nema kannski í mesta lagi rámir gamlingjar frá Kúbu, sem þó eru gefnir út af stórfyrirtæki og seldir eins og hvert annað kjarnfóður.
Varla er neitt gert lengur nema hægt sé að græða á því -- "Hvað fæ ég út úr því?", spyrja allir og kjammsa á aðal orðinu í dag: ég, ég, ég.

Síðasta vígið Megas
Það gerist þó alltaf að tímarnir breytast, sem betur fer, og einhvern tímann fær fólk leiða á pirrandi verðmiðunum sem lafa á öllu og öllum í dag. Allt breytist. Eða getur einhver ímyndað sér auglýsingu svipaðri þessari frá símakompaníinu fara í loftið árið 1982? Bubbi Morthens að veifa göndlinum fyrir Alþýðubankann? Steinþór í Fræbbblunum að slumma framan í okkur í boði Spur? Bjarni móhikani að sparka Ellý í Q4U út í tjörn til að kynna nýjan matseðil á Kokkhúsinu? Nei, auðvitað ekki. Sigur kapítalsimans var enn tvísýnn þá og ungt fólk hafði smá attitjúd, smá sjálfvirðingu og gerði ekki hvað sem er fyrir peninga.
Kannski sé ég þó þetta tímabil bara í skökku ljósu. Kannski buðust bara ekki tækifæri til að selja sig. Engum datt í hug að selja út á þetta "jaðar"-fólk, enginn kom auga á  markhópinn.
Nú gera flestir flest fyrir rétta prísinn: Johnny National sér um skemmtiatriðin hjá DeCode, Quarashi rappa og rokka í kokteilpartíum Wathne-systra, Hallgrímur Helgason sér um sprellið í Versló. Það eru helst alvöru listamenn/steintröll eins og Megas sem taka ekki þátt í hóriríinu. Þó veit ég að Megas hefur fengið fjölmörg tækifæri til að selja á sér rassgatið, t.d. verið boðið mörg hundruð þúsund fyrir að nota Reykjavíkurnætur í auglýsingum Flugleiða, en nei; alltaf þvert nei. Þegar þú sérð eða heyrir Megas í auglýsingu geturðu því verið alveg viss um að síðasta vígið er fallið og kapítalisminn er endanlega búinn að æla sér yfir aulaeyjuna okkar.

Tíðarandinn Eyþór
Sjálfur aðaldúddinn hjá símakompaníinu, hann Eyþór Arnalds, hefði ekki heldur auglýst á sér rassgatið 1982. Þá var normið að vera reiður og ungur, og því var Eyþór reiður og róttækur, fjölritaði kjaftfort anarkistablað og boðaði byltingu.
Um daginn var hann í Skotsilfri á Skjánum. Sama dag var Egill Helgason að reyna að kryfja tíðarandann í sínum þætti. Ekki hafði þurft að leita svona langt yfir skammt því svarið var að finna í Skotsilfri. Spyrillinn staðhæfði að margt ungt fólk liti upp til Eyþórs og vildi vera í hans sporum í lífinu; hvort hann ætti einhver ráð í pokahorninu fyrir þetta unga fólk á uppleið? Gamli anarkistinn og sellóleikarinn strauk á sér ístruna og bindið og kom svo með nokkur hollráð fyrir unga fólkið.
Hvaða grín er nú þetta? Árið 2001 og ungt fólk vill verða eins og Eyþór Arnalds? Þessi fullyrðing hefði kannski meikað einhvern sens á síðustu öld en nú er þetta svona álíka og Albert Guðmundsson hefði verið spurður árið 1982 hvort hann ætti einhver ráð fyrir allt unga fólkið sem dreymdi um að verða eins og hann.
Maður gæti því spurt: Er ungt fólk upp til hópa slefandi hálfvitar í dag? Eru þetta allt heimskir rasistar á E blaðrandi í gemsa? Er tómhyggjan og græðgin alveg búin að taka völdin? Er allt að fara til fjandans eða er ég bara að verða gamall?

P.S. Titill þessa skika er sóttur til ensku hljómsveitarinnar The Pop Group, sem söng; "We are all prostitutes, everyone has their price" í kringum 1980. Mér fannst þetta sniðug lína þá (og hún hefur öðlast dýpri merkingu í dag) og lét bróðir minn kaupa bol með spekinni þegar hann fór til London. Á bolnum var líka mynd af Magreti Thatcher. Ég ætlaði að vera svaka ögrandi og fara í þessum bol í vinnuna, en þá var ég gjaldkeri í Landsbankanum. Auðvitað þorði ég því aldrei.