Af lúsum og sæljónum (22.11.03)

Davíð Oddson fékk stjörnu í kladda landsmanna á föstudaginn enda kann hann þetta ennþá. Það er að segja, hann kann enn listina sem sirkussæljón heimsins hafa stundað um árabil; að halda bolta á snoppunni þannig að fólk góni dáleitt á og klappi yfir sig hrifið að sýningu lokinni.

Davíð hefur ötullega gert íslenskan fjármálamarkað "frjálsan" með útsölum á ríkiseignum, en hugsaði dæmið líklega ekki til enda og gerði ráð fyrir því að aðeins vinir hans myndu fá að velta sér upp úr frelsinu að umbótum loknum.

Bíddu við: Koma þá ekki bara glottandi og óflokksbundnir götustrákar sem eru svo gráðugir að fólk ælir umvörpum af ógeði. Sannast hér hið fornkveðna: Nýju lýsnar eru verri en þær gömlu, því gömlu lýsnar sem voru búnar að liggja á þjóðinni síðan um seinna stríð eru tiltölulega saddar, en þessar nýju ógeðslega svangar já, hreinlega sturlaðar úr svengd.

Jæja, Davíð sirkussæljón setti boltann á trjónuna og mjakaði sér á hreifunum niðrí Búnaðarbanka í fallegasta pöbblisitístönti sem um getur síðan Framsóknarfíflið kyssti beljuna. Fólk klappaði fyrir sæljóninu enda var þetta vissulega gott stönt, en nýju lýsnar urðu drulluhræddar en með semingi og hroka þó og fúlsuðu nú snögglega við 300 millum á lús, enda tekur því varla að setja bankann í uppnám fyrir aðra eins lús.

Af þessu má líklega læra að Davíð vill ekki að menn græði svona rosalega, allavega ekki svo landsmenn sjái, og sérstaklega ekki ef þeir sem græða eru ekki vinir hans og Flokksins. Þess vegna þarf greinilega að skýra "leikreglurnar": Hver má græða, hversu mikið og hvernig yfir hvaða strik þarf að fara til "gróði" breytist í "græðgi"? Allir vita sem hlustað hafa á speki nýfrjálsu lúsablesana að hámarks gróði er frábært fyrirbæri og það eina sem vert er að vakna fyrir á morgnanna. Öll önnur hugsun er gamaldags kommúnsimi og viðbjóður. Sannast sagna hélt ég að græðgi væri ekki lengur til í orðabókum, en þá fóru tvær lúsiðnar lýs yfir hið ósýnilega strik á eftirminnilegan hátt og allt varð vitlaust.

Nú eru þessir snillingar sem halda að þeir haldi um stjórnartaumana að tala um að gera ofsagróða lúsa landsins "ekki eins sýnilegan", líklega í því tilliti að þá "fái landsmenn ekki þessa blautu tusku framan í sig" á jafn áberandi hátt og gerðist fyrir helgi, heldur viti svona óljóst af tuskunni í hvert skipti sem þeir borga þjónustugjöldin, borga inn á rýrnandi lífeyrisreikningana, borga af yfirdrættinum sínum eða borga af lánunum sem eru með hæstu vaxti í heimi, að mér skilst.

Þér er nær, pínkulitla gráðuga lúsin þín.