Hvers lags hálfvitagangur er það þá á þessu landi að hafa grunnskólakennara á lúsarlaunum? Samkvæmt nýju auglýsingaherferð kennara er 125 þúsund kall í vasann týpísk mánaðarlaun. Það er auðvitað fáránlega lítið og til skammar. Ég og þú borgum þessi laun með sköttunum okkar og ég segi það hreint út að frekar vil ég að kennurum sé almennilega borgað en að fábjánarnir á þingi séu yfirhöfuð á launum. Eða að drykkfelldir erindrekar í útlöndum fái endalaust að sukka í tilgangslausum veislum og landkynningarpartíum og að allt þetta lið sé fljúgandi út og suður á Saga Class. Sem dæmi. Það má skera fituna af án þess að ráðast á vöðvana, svo gripið sé til líkingarmáls úr líkamsræktinni. Grunnskólakennarar eru nefnilega vöðvar þjóðfélagsins á meðan tilgangslausa hyskið við kjötkatlana er fitan.
Djúsleginn Bob Moran
Ég man bara slitrur frá mínum grunnskólaárum.
Man eftir fyrsta deginum í 6 ára bekk. Ég og strákur
sem var síðar uppnefndur Sköndli veiddum hrossaflugur í
lófana til að stríða með stelpum. Það
tókst. Svo var öllum krökkunum hópað saman
í sal og kennararnir lásu upp nöfnin á krökkunum
sem áttu að vera í þeirra bekk. Mér leist
ekkert á kennarann sem ég lenti hjá. Fannst hún
eitthvað svo skrýtin í framan og með óeðlilega
miklar freknur. En ég var fljótur að sætta mig
við örlög mín því hún var alveg
frábær kennari. Hún ein kenndi bekknum í 6 ár
og það voru alltaf sömu 25 krakkarnir eða svo. Hún
ól mig semsagt upp í 6 ár jafnt á við foreldra
mína.
Man eftir mengjareikningnum sem hún tróð ofan í
okkur, ævintýrum Bob Moran sem hún las í hádeginu
á meðan maður svolgraði í sig djús og
át samlokur úr plastboxi og draslinu sem við vorum alltaf
að búa til úr klemmum og klósettpappírsrúllum.
Það dót er auðvitað allt týnt eins og mengjakunnáttan.
Þegar byrjað var að kenna dönsku lét hún
alla krakkana fá dönsk nöfn, ég hét Hans,
en einn hressan strák lét hún heita Rasmus.
Ég sá barnaskólakennarann minn svo löngu
síðar í pósthúsi og nikkaði til hennar.
Ég hafði oft hugsað til hennar og spáð í
því hvort hún væri ennþá að
kenna, en svo þegar ég sá hana loksins kom ég
ekki upp orði og hún spurði mig einskis. Ég fattaði
ekki fyrr en ég kom út að auðvitað hefði
ég átt að spyrja hana hvort hún væri ennþá
að kenna og hvernig hún hefði það og eitthvað.
En ég bara fraus. Varð aftur 6 ára.
Gaggó helvíti
Gaggó var allt annar handleggur enda hormónarnir farnir
að segja illþyrmilega til sín. Kennarar sem takast á
við þennan aldur eiga hreinlega að fá sérstakt
álag og áhættutryggingu fyrir að þola þennan
geðveika skrýl sem frussast áfram í gelgjugeðveiki;
greddu, óöryggi og frekju. Flestir kennararnir fengu viðurnefnið
“Slef”. Árni Slef af því að inniskórnir
hans gáfu frá sér hljóð sem minnti á
slef þegar hann gekk eftir línólíumdúkunum,
Ellert Slef af því hann æsti sig einhvern tímann
við nemanda og frussaði framan í hann, o.s.frv. Man eftir
stærðfræðikennara – Slef eitthvað – sem var í
eilífu stríði við nemendur og eftir á að
hyggja var þessi karl líklega frekar lélegur kennari.
Í minningunni ekkert ósvipaður karlinum sem Steindór
Hjörleifsson lék í Morðsögu. Það
var viss passi að honum brast þolinmæði þegar
einhverjar gelgjunar voru búnar að ganga of langt og kom þá
með hótunina “Ef þið hættið þessu
ekki þá er ég farinn”. Í eyrum nemenda hljómaði
þetta líkara loforði en hótun og karlinn fór
því reglulega út í fússi í miðjum
tíma og bekkurinn fékk að fríka út í
friði fyrir stærðfræðiþusi. Man að einu
sinni þegar karlinn var að ganga á dyr hrópaði
nemandi sem gekk einhverra hluta vegna undir nafninu Böbbi dúfa;
“Komdu aftur – það er svo gaman þegar þú ferð!”
við mjög góðar undirtektir krakkanna. En þessi
kennari var undantekning. Man ekki betur en allir hinir hafi verið
frábærir. Og auðvitað hætta bara þessir
lélegu á endanum, verða prestar eða eitthvað.
Engin samúð
Auðvitað á að borga svona fólki vel til að
það leggi sig nú fram og besta fólkið ráðist
í djobbið. En samt eru margir fúlir út í
kennara fyrir að vera í verkfalli. Þeir fá enga
samúð og talað er um að verkfallið bitni á
þeim sem síst skyldi. Þetta er rugl. Það á
að bitna á samfélaginu í heild því
samfélagið er launagreiðandi þessa fólks. Ef
það er ekki næg ástæða fyrir skattgreiðendur
að vilja að uppalendur barnanna þeirra séu á
þokkalegum launum þá ættu þeir að minnast
gömlu kennarana sinna og spyrja sig hvort það hafi verið
sanngjarnt að þeir væru á 125 þúsund
kalli á mánuði. Það er varla neinn svo harðbrjósta
að vilja svelta mömmu sína.