Með bullandi samviskubit

Þetta hræðilega flóð sem er búið að drepa hátt í 200.000 manns varð til þess að maður fékk bullandi samviskubit. Á hverju ári hefur maður keypt nokkrar rakettur og púðurkellingar af Skátunum, en nú voru undirliggjandi skilaboð um að ég ætti frekar að gefa Rauða krossinum 5000 kallinn. Fáir þorðu þó að segja þetta hreint út af ótta við rakettumafíuna, en þetta lá í loftinu. 

Samviskubit á spýtunni
Ég hringdi nokkrum sinnum í 9702020 til að róa samviskuna, en fór svo og keypti púður fyrir 5000 kall af Skátunum. Ég bældi niður samviskubitið rétt á meðan og taldi sjálfum mér trú um að Skátarnir stunduðu líka hjálparstarf og kannski ættu þeir eftir að bjarga mér fótbrotnum af Esjunni. Samviskan nagaði þó fram á nýársnótt og með hverri rakettu fylgdi vænn skammtur af samviskubiti.
Árum saman hefur maður haft ríka ástæðu til samviskubits. Við hérna erum svo rík og höfum það svo gott á meðan meirihluti jarðarbúa lepur dauðan úr skel. Sama hversu langt við sökkvum í aumingjaskap og alveg sama hvað við skuldum Vísa; það eru sáralitlar líkur á því að við eigum eftir að standa frammi fyrir þeim möguleika að þurfa að drepast úr hungri. Árum saman hafa glorhungruðu smákrakkarnir í Afríku mænt á okkur úr sjónvarpinu en flestir eru löngu búnir að missa niður hæfileikann til að láta það fá á sig og fá samviskubit. Því er þetta nýtilkoma samviskubit dálítið hressandi. 

Misdýrt fólk
Maður getur líka fengið bullandi samviskubit yfir þeirri staðreynd að það eru Vesturlandabúarnir sem dóu sem orsaka alla þessa athygli sem harmleikurinn fær. Ef það hefðu eintómir Asíubúar dáið hefði fólk bara yppt öxlum í nokkra daga, jesúsað sig og sagt þetta agalegt, en nú væri varla sagt frá þessu lengur í fréttunum og söfnunarsíminn væri löngu þagnaður. Jarðskjálftinn í Íran fyrir rúmlega ári þar sem hátt í 20.000 létust var t.d. fljótur að hverfa af skjánum. Maður sér hvernig fréttaflutningurinn hefur verið af flóðunum: “Nú er talið að 150 þúsund hafi dáið, þar af 6 þúsund Vesturlandabúar, en enginn Íslendingur.” – semsé, fólki er skipt í þrjá verðflokka; “okkur”, “næstum því við” og “hinir”. Þessi misskipting mannslífa ætti ekki að koma á óvart, enda er það í ríkjum “hinna” þar sem börn deyja á 4 sekúndna fresti og dauðinn er það daglegt brauð að bakaríið er fjöldagröf. Þessi staðreynd hefur ekki truflað okkur átakanlega hingað til.

Samviskubit á heimavelli
En maður þarf ekki að hugsa um eymd þriðja heimsins til að verða sér úti um samviskubit. Það er reynt að koma inn hjá manni samviskubiti í flestum frétta- og dægurmálatímum. Það er hamrað á ófullkomleika okkar út í eitt. Við étum of óhollan mat, hreyfum okkur of lítið, drekkum of mikið. Við eyðum of miklum tíma fyrir framan sjónvarpið, í vinnu, og ekki með börnunum okkar. Við lesum of lítið, horfum of mikið á klám og erum bara almennt alveg glötuð. Svona er hjakkað á manni dag eftir dag með aðstoð miðaldra sérfræðinga. 
Ein leiðin, og líklega sú eina af viti, til að sökkva ekki í þunglyndi og örvæntingu, er að gefa skít í samviskubitið þegar það hefur opnar á sér skoltinn og ætlar að höggva í mann tönnunum. Þá segir maður: “Kæra samviskubit: Snáfaðu burt! Ég hef ekkert með þig og þínar slæfandi slepjulegu krumlur að gera. Á hverjum degi reyni ég að breyta rétt og meira get ég ekki gert. Drullaðu þér því burtu og farðu að naga einhverja sem ráða meiru en ég í þessu frábærasta þjóðfélagi í heimi.” 
Eftir þetta útspil er mikil hætta á ferðum, því hægt er að fá bullandi samviskubit yfir því að vera ekki með nógu mikið samviskubit – að gera hugsanlega ekki nóg, að gera ekki allt sem maður getur. Hvað er ég t.d. að röfla hér fyrir daufum eyrum DV-lesenda? Af hverju er ég ekki þrælmenntaðar læknir í Rauða krossinum leggjandi lið þeim fjölmörgu sem þurfa á því að halda? Af hverju helga ég ekki líf mitt því að gera heiminn að aðeins skárra pleisi? Úbbs, ég má ekki vera að þessu. Extreme makeover er að byrja.