Þegar ég var í skóla gat oft orðið stormasamt í tímum, sérstaklega í gaggó enda hormónageðveikin að drepa fílapenslaða krakkana. Nokkrir kennarar áttu til að fá nóg af einelti nemenda og látunum í þeim, bresta í grát, hlaupa út og skella á eftir sér. Þá sátu krakkarnir sigrihrósandi eftir. Þótt framtíðar ógæfufólk hafi glaðst alllengi yfir sigrinum þá fóru krakkar sem síðar áttu eftir að verða góðir og gegnir þjóðfélagsþegnar fljótlega að skammast sín. Þeir urðu glaðir þótt þeir leyndu því þegar kennaratuskan var búin að jafna sig og kom aftur til að kenna, samdægurs eða daginn eftir.
Grenjandi kennarar
Mér finnst kennarar upp til hópa hafa hlaupið grenjandi
út úr tíma alla þessa viku og það
hefur verið óþægilegt að horfa upp á
þetta. Einhver reið kennaragrey eru sýnd í fréttum,
oftast mömmulegar konur, og krakkagrey í kuldagöllum með
hor á kinn og allt einhvern veginn alveg ömurlegt og vonleysislegt
í sambandi við þetta. Það er ríkisvaldið
með lögin sín sem er óþekku krakkarnir í
þessu tilfelli og ekki hjálpa pirraðir foreldrar til,
sem virðast ekki skilja að kennarar nenna ekki að kenna nema
þeir fái almennilega borgað fyrir það. Og það
er auðvitað ekki spurning að kennarar eiga að fá
almennilega borgað fyrir að kenna og ég er alveg til í
borga það með sköttunum mínum, 38.58%, takk fyrir,
af öllu sem ég vinn mér inn plús virðisauki
og ég veit ekki hvað og hvað. Og ef það er ekki
nóg verður bara að hækka skattana. Það er
bara forgangsmál að þetta mál sé í
lagi og álíka óskiljanlegt og ástandið
í Palenstínu afhverju þetta þurfti að enda
svona og ástandið að vara svona lengi.
Kaupandi millar
Og ég sem hélt að það væri offramboð
á peningum. Það mætti allavegana halda það
á þeim fréttum sem heyrast nánast daglega. Bankar
skila hagnaði í tölum sem ég hef ekki vit til að
endurtaka, enda voru svona háar hagnaðartölur ekki til
þegar ég var í skóla. Endalausar fréttir
af alltaf sömu körlunum að veltast um í dýrlegum
gróða eins og svín í skít og svo mikil
framsókn og útrás að þeir ráða
ekki lengur við sig og verða hreinlega að kaupa upp eitthvað
drasl í útlöndum því annars muni allir
peningarnir kæfa þá, eins og Jóakim önd
ef hann fengi flogaveikiskast í seðlagryfjunni. Gera það
eins og að drekka vatn að kaupa risaverslanir í stórborgum,
einhverja gamalgróna banka í milljónaþjóðfélögum
og bla bla bla. Ég skil ekki afhverju það þarf alltaf
að vera að segja okkur hinum hvað þessir millar eru að
vesenast með peningana sína, dýrlegu yndislegu peningana
sína. Hvað kemur það venjulegu fólki við?
Á maður að fyllast minnimáttarkennd og langa til
að taka krasskúrs í viðskipta- eða hagfræði?
Á maður að fá stjörnur í augun og gera
það að markmiði lífs síns að komast
í hóp þessara lúðalegu manna til að
geta keypt ráðandi hlut í ömmu bankastjóra
í Bergen? Ég segi það fyrir mig að ég
hef engan áhuga á þessum peningafréttum af millum
og mín vegna mega blessaðir aumingjans mennirnir troða peningunum
upp í rassgatið á hvorum án þess að
mér sé sínkt og heilagt nuddað upp úr því
í fréttunum.
Hallærislegasti gaurinn í bænum
Þetta ganga sem sé fréttatímarnir út
á: Grenjandi kennarar sem fá ekki eðlilega kauphækkun
og svo fréttir af körlum í fyrirtækjum sem eru
að drepast úr offramboði á peningum. Þá
spyr svona einfeldningur eins og ég: Bíddu bíddu,
er ekki hægt að jafna þetta eitthvað? Millifæra
eitthvað innan þess kerfis sem við köllum þjóðfélag.
Er ekki þjóðfélagið einskonar ofið veggteppi
sem verður bæði að rúma milla og kennara og helst
eiga allir að vera í góðu stuði til að veggteppið
sé veggteppi en ekki bara einhver samhengislaus ullarhrúga
á gólfinu? Með því að tala svona er
ég líklega kominn inn á gamalt og grátt svæði
sem má helst ekki hætta sér inn á í dag
því þá er hægt að klína því
á mann að maður sé bara gamaldags kommi eða hallærislegur
sósíalisti og við vitum nú öll hvernig það
endaði, er það ekki? Hallærislegt er orðið
“misskipting” og fá nú margir grænar bólur að
ég hafi nefnt það. Ennþá hallærislegra
er annað orð sem ég ætla samt að nefna þótt
mér verði stungið inn fyrir að vera hallærislegasti
gaurinn í bænum. Það orð felur í sér
lausn á hallærislega orðinu “misskipting”. Orðið
er “jöfnuður”.