Ég hef allur meyrnað síðan sonur minn fæddist. Ég er orðinn mun næmari fyrir myndum af limlestum smábörnum. Ég sá forsíðu Moggans í síðustu viku; vitstola faðir með nýlátinn son sinn í fanginu og ég gat ekki annað en sett hausana á okkur feðgunum á skrokka þessara óheppnu Íraka og þar af leiðandi fundið til einhvers sem líklega heitir samkennd. Það var ekki fyrr en ég “gat sett mig í spor” þessa fólks að samkenndin kom. Ekki það að ég hafi gert eitthvað meira en að glápa á myndina og heimfært harmleikinn upp á okkur feðgana. Hvað á maður svo sem að gera? Hvað get ég gert í þessum risa vandamálum sem hrjá heiminn?
Hin fullkomna martröð
Í september 2001 hafði sprungið rör undir baðkarinu
hjá mér og vatn flætt niður á næstu
hæð. Þar var eldhúsinnrétting nágranna
míns í klessu og ég bótaskyldur. Allt þetta
röravesen var hundleiðinlegt en ég var búinn að
kaupa ferð til New York fyrir mig og konuna í desember til að
hafa eitthvað til að hlakka til í grámósku
hversdagsins. Ég var í íbúð nágrannans
ásamt verklögnum vini mínum að tjasla eldhúsinnréttingunni
saman. Rétt eftir hádegi kom konan heim: “Fljótir,“
sagði hún, “kveikið á sjónvarpinu, það
er flugvél búin að fljúga á World Center”.
Þetta var ægilegt. Við höfðum verið á
netinu kvöldið áður að skoða myndir af “mollinu”
í World Trade, sem var eina mollið á Manhattan. Konan
fríkaði út af ótta og ég sá New
York ferðina fuðra upp. Í sjónvarpinu hrundi turninn
fyrir augunum á okkur og við sem höfðum talað um
að fara í útsýnisferð upp á topp. Ég
setti mig í spor fólksins sem var dáið eða
á leiðinni að deyja, sá mig og konuna fyrir mér
á efstu hæðinni þegar þotan flaug á
turninn. Þetta var efsta stig martraðarkenndar tilhugsunar og
er enn.
Við fórum reyndar til New York í desember en þurftum
að fara til Staten Island til að komast í moll.
Íslenskur stimpill á líkunum
Það var ægileg geðshræring í samfélaginu.
Þessi atburður var vatn á myllu kölska. Ég
man eftir lafhræddum Össuri Skarphéðinssyni í
Kastljósi talandi um að nú þyrftum við líklega
að “fórna einhverju af frelsinu”. Það fannst mér
ekki góðs viti. Fljótlega varð ljóst að
Ósama Bin Laden væri vondi karlinn og hann átti að
hundelta með öllum tiltækum ráðum. Stríðið
í Afganistan kom eins og af sjálfu sér, en Írak
var næst. Maður gat fylgst með því í
Jay Leno hvernig Kanarnir voru æstir upp í stríð,
stig af stigi. Flestir arabar voru satanískt skítapakk, Saddam
og Ósama voru víst góðkunningjar og Saddam tilbúinn
að eyða heiminum hvenær sem er. Þegar “alþjóðasamfélagið”
vildi ekki vera með Könunum í stríðinu fóru
þeir bara samt enda olíuauður Íraka alltof girnilegur
til að sleppa tækifærinu. Kanarnir drógu með
sér nokkrar viljugur þjóðir til að þetta
liti ekki alveg eins illa út. Davíð og Halldór
Ásgrímsson samþykktu að Ísland yrði
með þótt meirihluti landsmanna væri á móti
því. Það ber ekki beinlínis mikið á
Íslandi í þessu stríði, það er
ekki eins og Selfyssingar séu að deyja í Bagdad, en táknrænt
séð er samt íslenskur stimpill á líkunum.
Ósama er reyndar ekki fundinn en Kaninn er allavega ennþá
á Miðnesheiði.
Fórnarkostnaður lýðræðisins
Flest getum við lítið gert í vandamálum
heimsins annað en “ræktað eigin garð” og kosið eitthvað
lið yfir okkur á fjögurra ára fresti. Það
lið er síðan í vinnu fyrir okkur, ekki sjálfráðir
einræðisherrar eins og margir þeirra halda, eins og t.d.
þeir tveir sem komu Íslandi í hræðslubandalag
smápeða sem tekur táknrænt þátt í
viðbjóðslega ruglinu í Írak. Heiminum er stjórnað
af fólki en ekki andlitslausum fyrirtækjum eða þjóðum.
Því var ég að spá í því
hvernig þessir gaurar sem mögulega gætu gert eitthvað
í stöðunni ef þeir kærðu sig um bregðast
við öllum hörmungarfréttunum. Hvað ætli
Halldór Ásgrímsson hugsi t.d. þegar hann sér
limlestu og blóðugu smákrakkana í Írak.
Ætli hann hugsi: “Já, djöfull er gott hjá okkur
að vera með í þessu”. Ætli hann hugsi kannski:
“Fokk, við verðum að draga okkur út úr þessu
rugli, skítt með það þótt herinn fari”.
Kannski er hann svo harðsvíraður að hugsa bara: “Þetta
er náttúrlega bara fórnarkostnaður lýðræðisins.
Þeim líður miklu betur eftir að Saddam var bolað
í burtu, jafnvel þótt þau séu dauð”,
eða kannski reynir hann bara að hugsa um eitthvað annað,
eins og t.d. hvað það er æðislegt að vera loksins
kominn á toppinn.