Svona eru jólin
Síðan í byrjun nóvember hafa útvörpin
baulað á mann fagnaðarerindinu: Jólin eru að
koma! Jólin eru að koma! Já einmitt, jólin eru
að koma og það er ekkert sem maður getur gert í
því. Þau verða ekki flúin nema maður
sé Votti, alveg trylltur úr trúleysi, þunglyndur
einbúi eða ákveði það bara upp á
eigin spýtur að vera ekki með.
Tilhlökkunin
Ég man ekki mikið úr æsku minni, en man þó
sæmilega eftir því þegar ég og vinir mínir
föttuðum einn daginn að það væri bara vika
til jóla. Við vorum svona ellefu ára og úti að
leika okkur. Það var dimmt og það kom gufa út
úr manni. Þegar þetta var nefnt, að það
væri bara vika eftir í jólin, brast á hvílíkur
fögnuður – við vissum ekki hvert við ætluðum.
Í þessu, eins og svo mörgu öðru, er tilhlökkunin
stærsti hlutinn í heildarpakkanum. Hamrað er á
niðurtalningunni, kerti eru brennd, dagatöl opnuð, skór
eru fylltir af lúsiðnum jólasveinum. Hjálparkokkar
tilhlökkunarinnar eru auglýsingarnar sem flæða yfir
og allt plöggið og áreitið, sem er reyndar auðveldasta
mál í heimi að losna við ef maður vill. Það
er bara að ýta á takkann framan á kassanum.
Það sem byrjar í nóvember nær hámarki
á Þorláksmessu en svo dettur allt í dúnalogn
á aðfangadag. Hangikjötslykt í loftinu, fréttir
klukkan eitt, pakkar keyrðir í hús. Klukkan sex er skrúfað
frá Rás 1 og prestur jarmar yfir steikinni. Eftir átið
legst maður fyrir með beltið slakt. Svo eru kortin rifin upp
og loks pakkarnir. Í þessu stenda flest allir landsmenn svona
á bilinu sex til níu og það er þetta sameiginlega
bauk sem er svo sérstakt og skemmtilegt við jólin. Megnið
af árinu eru allir að vesenest eitthvað í sínu
horni en á aðfangadagskvöldi eru allir nokkurn vegin að
gera það sama. Prestarnir tala um samkennd.
Epli og dauðar hórur
Það er ekki ólíklegt að þegar fólk
hittist um jólin að þeir sem eldri eru minnist á
það hvernig jólin voru í “gamla daga”. Það
er ekki ólíklegt að einhver minnist á eplakassa.
Þegar sá sjaldséði munaður var dreginn í
kot sannfærðust börnin um að nú væru jólin
komin. Flest eldra fólk segist enn muna lyktina af eplunum. Þeir
sem nú eru ungir segja kannski afkvæmum sínum eftir
60 ár frá því hvernig þeim fannst jólin
alltaf vera komin þegar þau tóku utan af tölvuleiknum
og fóru að slátra hórum og glæpalýð
á sjónvarpsskjánum eftir jólasteikina.
Jólakúkur upp á vegg
Eftirminnilegustu jólin sem ég hef upplifað voru
jólin 1986 og þau eru eftirminnileg af því að
þau eru ekkert lík öðrum jólum sem ég
hef upplifað. Á aðfangadag var ég staddur í
Madrid. Þetta var fyrir tíma Visa-kortsins, á fornöld
semsagt, og ég skil ekkert í því hvernig maður
fór að. Ég og vinur minn bjuggum á þessum
tíma í Lyon í Frakklandi en höfðum ætlað
til Portúgal um jólin. Nú vorum við í Madrid
og blankheitin gífurleg. Við vorum á einhverju skítahóteli
og eina jólaskrautið í herberginu var gerviskítur
úr plasti sem ég hafði keypt á markaði og
hengt upp á vegg. Gervikúkurinn og þokkaleg jólamáltíð
á veitingarhúsi höfðu endanlega farið með
fjárhaginn og því skyldu leiðir á jóladag,
ég fór aftur til Lyon með lest (átti þar
nokkra franka undir koddanum) en vinurinn hélt áfram til
Portúgal. Á landamærum Frakklands kom óvænt
babb í bátinn því franskir lestarstarfsmenn
voru farnir í verkfall. Það var jóladagur, ég
var fastur í Port Bou og átti ekki pening til þess
einu sinni að kaupa mér samloku. Mér fannst þetta
frekar aumt þá, en núna eru þessi jól
sveipuð dýrðarljóma, kannski sama ljómanum
og hjá fólkinu sem man tímana tvenna og eplalykt.
Kolkrabbi í jólamatinn
Á leiðinni hafði ég talað eitthvað smávegis
við þýskan bakpokaferðalang, sem var í sama
lággjalda klassa og ég. Hann kom nú til hjálpar
og bauð mér helminginn af því sem hann átti,
niðursoðinn kolkrabba úr dós og enda af fransbrauði.
Ég gleymi líklega aldrei þessari kærleiksríku
jólamáltíð þótt kolkrabbinn væri
ógeðslega vondur. Þarna tók Þjóðverjinn
upp á því að “gleyma ekki sínum minnsta
bróðir”, sem í þessu tilfelli var ég. Þótt
ekki hafi ég verið mjög nálægt hungurdauða
þá komst ég allavega nær því á
þessum jólum en ég á eftir að upplifa aftur,
að öllu óbreyttu. Eins og segir í vísunni
sem Bono kenndi okkur þá er það jú betra
að það séu þau en ekki við sem drepast,
eitt á fjórðu hverri sekúndu. Verst að þau
hafa ekki samanburðin og geta rifjað upp allsnægtarjól
í andarslitrunum. Gleðileg jól!
|