Halldór, hipparnir og sannfæringin

Nú get ég sagt eins og hvert annað gamalmenni að ég muni tímana tvenna. Nýlega rifjaðist gamli tíminn lítillega upp fyrir mér.

Hið heilaga púlt
Ég kíkti í safnið á Gljúfrasteini. Hafði margoft keyrt þarna framhjá, en lét nú verða að því að líta inn, enda húsið komið í mína eigu. Keypti miða í því sem áður var bílskúrinn og tók svo túrinn. Fékk geislaspilara og hlustaði á fagmannlega leiðsögn Þorsteins Joð fyrir hvert herbergi fyrir sig.
Foreldrar mínir bjuggu í Mosfellsbæ í gamla daga og pabbi fékk einu sinni það verkefni að sendast með eitthvað upp í Gljúfrastein. Skáldið var ekki heima, en Auður gaf pabba kaffi og með því. Pabbi þorði ekki að spyrja hvort hann mætti sjá hvar skáldið ynni. Nú stóð ég fyrir framan dýrðina, púltið þar sem karlinn hamaðist á hverjum degi og hin stórfenglegu verk runnu niður af. Við hliðina á púltinu var ritvélin sem Auður notaði til að pikka snilldina inn.
Ellilífeyrisþegar voru líka að skoða. Gamlar bláhærðar konur fannst ekki mikið til eldhúss Auðar koma. “Ekki hefur hún nú haft mikið pláss,” sagði ein. Þarna var hægindastóll skáldsins, þar sem hann sat og púaði stóra vindla. Þarna var flygillinn, þarna langur sófi þar sem gestir sátu. Á Gljúfrasteini voru víst endalausar gestakomur. Ég hefði orðið fúll í miðri skáldssögu ef ég hefði alltaf þurft að vera að sinna einhverju liði.

Halldór Laxness vaskaði ekki upp
Maður fékk það á tilfinninguna að Halldór hafi verið þarna eins og kóngur í ríki sínu, hinn heilagi snillingur, en Auður næstum því eins og þý. Hún skipaði Halldóri Laxness örugglega aldrei að vaska upp. Hann gat valhoppað um sveitina með stafinn sinn og þá afsökun að hann væri að hugsa og Auður þurfti að berja málmgjöll til að kalla hann inn í mat. Ég greip þessa hugmynd á lofti, að fá að sleppa því að vaska upp, og lagði fyrir konuna mína. Líka hvort ég mætti ekki reika hugsandi um Vesturbæinn og hún gæti barið gjöll þegar hún væri búin að elda. Hún tók þessu auðvitað óstinnt upp og sagði að fyrst þyrfti ég að fá Nóbelinn. Það er því til mikils að vinna.
Að koma á Gljúfrastein var að reka nefið inn í heim fortíðar. Húsið var allt vaðandi í bókum og myndum, en hvergi sjónvarp, nema það hafi verið fjarlægt til að gefa húsinu meiri dýpt. Hugmyndin um snillingin sem þarf ekki að vaska upp er löngu gufuð upp. Menn eins og Halldór Laxness eru ekki til í dag, nema kannski nokkrar annars flokks kópíur í skáldastétt. Halldór Laxness hefði aldrei farið með konunni sinni í Kringluna eða horft á Pop Idol.

Hamingjan er í kommúnu
Annað innlit í heim fortíðar fékk ég þegar ég sá nokkrar heimildamyndir Þorsteins Jónssonar og Ólafs Hauks Símonarsonar í Bæjarbíói. Myndirnar fjalla um sannfæringu. Ein myndin um þá sannfæringu ungra menntamanna að fiskvinnsluþrælarnir í Grindavík myndu dafna betur ef þeir þræluðu minna og nyti meiri “menningar”. Önnur um íslenska hippa sem lifðu í kommúnu utan við Hveragerði og voru sannfærðir um að þar væri lífshamingjan fundin. Mjög fyndið að sjá þetta. Reykjavík upp úr 1970 dregin upp sem ægilega hröð og úrkynjuð stórborg. Frakkaklæddir karlar með stresstöskur og gömul kona að væflast yfir umferðargötu sýnd því til staðfestingar. Herskáasta hippastelpan hélt því blákalt fram að þeir sem kjósa að búa í fyrringunni í Reykjavík séu “geðveikir”. Hipparnir hlustuðu á Pink Floyd, ræktuðu grænmeti, dunduðu sér við leðuriðju, héldu partý og “djömmuðu”. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að kommúnan er ekki lengur starfandi og þá glöðustu í partýinu má nú sjá rónast niður í miðbæ.

Sannfæring er málið
Þessar myndir voru gerðar á þeim tíma þegar heimurinn var annað hvort svartur eða hvítur og bera þess merki. Maður kannaðist vel við fílinginn í þeim. Segja má að fílingurinn hafi verið við líði fram að því að Sovétríkin hrundu. Þá tók við kaldhæðni 10. áratugarins. Þá mátti enginn hafa skoðanir og fylgja þeim eftir, heldur voru allar skoðanir jafn réttháar, jafn heimskulegar í raun. Kannski skildi þetta hugarfar ekkert eftir nema hugmyndafræðilegt tóm. Nú fer fólk líklega að komast að því aftur að það er miklu auðveldar að lifa lífinu ef maður hefur sannfæringu. Sannfæringin svarar spurningunni: Til hvers er maður eiginlega að þessu? Sannfæringin er vasaljósið sem vísar leiðina í myrkri tilgangsleysisins í átt að hamingjunni. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvaða sannfæring það er: Sannfæring sósíalista (allt verður frábært þegar fullkominn jöfnuður er kominn á), sannfæring trúaðra (allt verður frábært þegar ég dey), eða sannfæring auðvaldsins (ef allir hugsa um að græða sem mest hefur fólk einhvað til að lifa fyrir). Sannfæringar eru mismikið í tísku, nú er t.d. jafnaðarsannfæring sósíalista alveg úti en gróðasannfæringin þeim mun vinsælli. En krakkar: Það er um að gera að koma sér upp sannfæringu sem fyrst. Það er jafnnauðsynlegt og að drífa sig í að endurfjármagna. Hver vill ekki öðlast eilífa hamingju?