Hvar eru allir Grænlendingarnir?

Ég hef stundum verið að pæla í Grænlandi. Mér finnst svo skrýtið
hvað þetta risavaxna land á lítið upp á pallborðið hjá okkur. Grænland er
jú stærsta eyja í heimi (Ástralía er reyndar stærri en hún telst vera
heimsálfa) og þetta er land sem er næst okkur af öllum löndum. Það væri
næstum hægt að labba yfir frá Bolungarvík væri maður Jesús. Samt er eins og
Grænland sé í órafjarlægð. Það er aldrei neitt í fréttunum um fólkið þarna
og við höfum ekki hugmynd um hvað þessar 55 þúsundir eru að gera eða spá.
Ef eitthvað heyrist þaðan er það yfirleitt um einhverja Íslendinga sem eru
að drepa hákarla með berum höndum eða vesenast eitthvað álíka gáfulegt.

Sífulli frændinn
Það er hreinlega eins og við viljum ekkert af þessum grönnum okkar
vita. Að við hreinlega skömmumst okkar fyrir nábýlið við fólkið sem býr
þarna. Að okkur finnist þetta hálfgert þriðja heims lið. Fólk sem er á
annarri öld eða plánetu og við. Fólk sem er ekkert að spá í hlutabréfum eða
líkamsrækt eða Idol eins og við, heldur silast áfram á klakabunkunum af
gömlum vana á milli þess sem það er blindfullt og drepandi hvort annað með
skotvopnum. Þetta er ímyndin sem við höfum af Grænlendingum.
Það er oft verið að tala um kynþáttafordóma Íslendinga en sjaldan er vikið
orði að því hvaða augum við sjáum Inúítana á Grænlandi. Þeir eru eiginlega
eins og sífulli frændinn sem er næstum því í öllum fjölskyldum á Íslandi.
Sífulli frændinn sem er alltaf eitthvað að skandalísera út í bæ og allir
eru löngu búnir að fá leið á að hugsa og tala um, hvað þá að umgangast.

50/50 líkur
Kannski er þetta með óregluna á Grænlendingum algjör della og þeir
upp til hópa topp lið sem dreypir í mesta lagi á fínu rauðvíni með matnum.
Ég myndi vita minnst um það því það er aldrei sagt frá Grænlendingum
öðruvísi en í neikvæðum tón og með sláandi tölum. Að þetta og þetta margir
séu skotnir á ári á fylliríum. Í gær sá ég í DV að á Grænlandi séu 1064
fóstureyðingar á móti hverjum 1000 fæðingum. Hér á landi er talan 229. Það
er ansi gasaleg staðreynd að það sé fiftí fiftí að maður fæðist séu
foreldrar manns grænlenskir.
Það er alls ekkert hlaupið að því að komast til Grænlands vilji maður tékka
á pleisinu. Flugleiðir bjóða upp á rándýrar ferðir til Kulusuk, en bara á
sumrin, og ef maður vill fara til höfuðborgarinnar Nuuk þarf maður að
fljúga fyrst til Kaupmannahafnar og svo þaðan aftur til baka. Þetta vesen
myndi ekki bara kosta helling heldur færi allur dagurinn í þetta.

Partípleisið Nuuk
Mig langar ekkert sérstaklega til að drepa ísbjörn með riffli.
Einhvern ávinning heyrði ég þó að því að Grænlendingar ætli að fara að
bjóða upp á þá þjónustu fyrir vesturlandabúa. Að leifa þeim að upplifa "The
Ultimate Experience" og drita niður hvítabjörn á hjarninu. Brigitte Bardot
varð víst alveg brjáluð.
Þetta er vitlaus nálgun hjá grönnum okkar. Auðvitað eiga þeir að taka okkur
til fyrirmyndar. Afar okkar og ömmur kynntust klósettpappír á gamalsaldri
og bjuggu í holum í jörðinni fram að því. Við vorum Grænlendingar fyrir
rúmlega hálfri öld. Nú höfum við stimplað okkur inn sem hipp og kúl og
Reykjavík er víðfrægt partípleis.
Áður en ég gifti mig lét ég mig stundum dreyma um að fara til Nuuk. Sá
fyrir að ég myndi t.d. eyða gamlárskvöldi þarna, á Hótel Nuuk auðvitað. Sá
fyrir mér að ég myndi drekka mig blindfullan á hótelbarnum og síðan vafra
út á meðal fólks. Ef Reykjavík er partípleis þá hlýtur Nuuk að vera
partípleisIÐ. Blindfullum væru mér allir vegir færir. Ég kæmist í gott
partí, myndi bara passa mig að vera ekkert að röfla of mikið í köllunum með
rifflana, og svo finndi ég gullfallega grænlenska konu. Myndi jafnvel
setjast að í kjölfarið. Svona hugsaði ég í piprinu miðju.

Framtíð Grænlands
Heimurinn er fullur af piprandi köllum sem þyrstir í konur sem
gefaða frítt og án mikillar fyrirhafnar. Þetta vita Flugleiðir, sbr. Fancy
a Dirty Weekend, og þetta ætti ferðamálaráð Grænlands að athuga. Með réttri
markaðssetningu gæti Nuuk smásaman orðið eitthvað það svalasta í heimi --
bókstaflega ("Nuuk -- litterally cool"). Ég veit ekki betur en til skamms
tíma hafi Inúítar leift hverjum sem er að bregða sér á konurnar sínar. Að
það hafi ekki þótt neitt tiltökumál. Þessa staðreynd mætti rifja upp á
flennistórum auglýsingaskiltum í London. Talan um fóstureyðingarnar kæmi
líka að góðum notum í þessari herferð.
Þegar graðir Evrópubúar færu að hrannast til Grænlands í "ævintýraferðir"
liði ekki á löngu fyrr en grænlenska hagkerfið tæki að blómstra. Í beinu
framhaldi færu Grænlendingar að spígspora um í rándýrum jakkafötum, talandi
í gemsa við fjárfesta erlendis og tvöfaldir ísskápar kæmu í hvert hús. Á
endanum myndi hinn grænlenski Jón Ásgeir kaupa vöruhúsið Magasin í
Kaupmannahöfn af íslenska nafna sínum. Þá fyrst yrðu Danir verulega fúlir.