Gamalmenni framtíðar í góðum
málum
Ég er byrjaður að búa mig undir það
andlega að verða fertugur í
október á þessu ári. Sama hvað ég
reyni að selja sjálfum mér það að aldur
sé afstæður eða hugarástand og að maður
sé bara eins gamall og maður vill
sjálfur, þá nartar hið yfirvofandi stórafmæli
sífellt í heilabörkinn eins
og eilítið vönkuð mús að naga harðan
ost. Fertugur pfft... reyni ég að
fussa í kaldhæðni, en slepp samt ekki undan þeirri
staðreynd að pabbi minn
var á mínum aldri þegar ég kom í
heiminn og hann er vissulega orðin ansi
gamall núna, þótt hress sé og ern. Með
einföldu reiknislíkani get ég því
séð að ég á sirka helming eftir að
grafarbakkanum, og meira að segja minna
sé farið eftir meðalífslíkum íslenskra
karla, sem er 76,92 ár. Samkvæmt því
er ég löngu búinn með helminginn og það
er vissulega lamandi staðreynd.
Kvíðakast í Ríkinu
En hvað er svo sem hægt að gera í þessu?
Ekki mikið. Fjandinn
hafiða að ég láti sprauta gúmmídrasli
undir húðina á mér til að líta út
eins og strekkt gúmmídúkka. Hvað þá
að ég láti plokka hár af rassinum á mér
til að skella á hausinn. Ég er búinn að
vera með skalla síðan Gaggó Vest
sló í gegn. Ég man ennþá þegar
ég fór í klippingu og rakarinn sagði: "Mér
sýnist þú nú verða sköllóttur
bráðlega". Mér fannst þetta algjer móðgun
hjá
rakarafíflinu en pældi svo ekki meira í því.
Hef aldrei tengt hárleysið við
aldur, sérstaklega eftir að menn eins og Egill Ólafsson
og Bubbi gerðu
skallann sexí. Þar fyrir utan hef ég alltaf litið
út eins og gamall karl og
fékk það staðfest 16 ára skjálfandi
í Ríkinu. Þetta var í miðju Kalda
stríðinu og maður varð að benda á það
sem maður vildi eins og í
skömmtunarverslun í Dzerzhinskiy. Þótt ég
væri aldrei spurður um skírteini
var ég alltaf með hjartað í buxunum og fæ
ennþá kvíðakast sé ég staddur
nálægt áfengisútsölu. Þannig
séð er ég því þaulvanur því
að vera
gamalmenni. Samt er það eitthvað við þessi
tímamót -- 40 -- sem fær mig til
að bylta mér í rúminu fram á nótt
eftir nótt.
Eldgamall og ósjálfbjarga
Ætli aðalástæðan fyrir þessum framtíðarkvíða
sé ekki það frekar
ömurlega líf sem manni sýnist gamalmenni landsins
eiga. Allavega fólkið sem
er á alræmdustu elliheimilum landsins. Það er
eitthvað svo óendanlega
sorglegt við það ástand að vera eldgamall
og ósjálfbjarga, bíðandi eftir
því einu að hjartað hætti að slá,
kannski kominn út úr heiminum röflandi
tóma steypu við útlendinga sem skilja hvort eð
er ekkert hvað þú ert að
segja. Það er endastöðin. En auðvitað eiga
flestir mörg fín ár á
elliheimilinu áður en þeir komast á endastöðina;
eru hress í sundleikfimi,
hlustandi á harmóníkumúsik, talandi um
gamla tímann og svona almennt
slappandi af eftir öll erfiðisárin.
Enginn grjónagrautur eða harmóníkugaul
Og líklega verður þetta ekki svo slæmt eftir
allt saman. Áður en ég
verð gamall mun nefnilega hin heimtufreka 68-kynslóð
fara á elliheimilin og
ég trúi því ekki að hún láti
það sama ganga yfir sig og gamalmennin í dag.
Fólk af 68-kynslóðinni mun ekki láta bjóða
sér upp á að margir þurfi að
húka saman í herbergjum og tekur ekki í mál
einhvern lapþunnan grjónagraut.
Hún heldur auðvitað sínu striki og vill pasta
og exótíska indverska rétti í
öll mál og almennilegt rauðvín með matnum.
Ekkert harmóníkugaul heldur
Stones og Bítlana og enga sundleikfimi heldur rope yoga. Þetta
fólk nennir
ekki að hanga á ganginum og tuða um hægðirnar
á sér eða réttir og
smalamennsku, heldur verður slegið upp málþingi
um hagræn áhrif ellinnar
eða stöðu kvenna í hnattrænu samhengi innan
elliheimilisgeirans. Ástandið
þegar ég tékka mig inn verður því
líklega orðið allt annað og betra.
Elliheimili framtíðarinnar verða eins og skemmtiferðaskip
miðað við
spítalaskip nútímans. Enn á ný mun
68-kynslóðin ryðja brautina og strá á
hana angandi blómum okkur sporgöngumönnunum til yndisauka.
Hjúkkit. Mér
líður strax betur, þökk sé 68-kynslóðinni.
Ég get litið bjartsýnn fram á
veginn og tek fertugsafmælinu mínu fagnandi. Svei mér
þá að ég sé ekki bara
farinn að hlakka dálítið til að komast á
elliheimili. |