Margir vinir mínir eru alkóhólistar. Hafa farið oft í meðferð, fallið, þurrkað sig upp aftur, verið harðir og vitnað í fræðin, verið með æðruleysisbænina límda á mælaborðið í bílnum sínum. Hún er svona:
Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það
sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því
sem ég get breytt
og vit til að greina
þar á milli.
Öfundsverðir alkar
Ég hef stundum verið að velta þessari þulu
fyrir mér og þótt skömm sé frá að
segja næ ég henni ekki alveg. Ég er allur að vilja
gerður, en því miður: ég er of vitlaus til
að komast í klúbbinn. Sem er leiðinlegt því
þegar alkavinir mínir hittast og ég er með þeim
líður mér alltaf dálítið undanveltu.
Ekki nóg með að ég skylji ekki æðruleysisbænina
heldur hef ég ekki farið í meðferð, ekki opnað
mig á fundum með grátstafinn í kverkunum og ekki
farið í gegnum 12 spora kerfið. Mér líður
eiginlega eins og þeir séu í leynifélagi sem
ég má ekki vera með í. Þeir hafa unnið
afrek, ekki ég, þeir hafa farið í gegnum hreinsunareld
og standa nú uppi með pálmann í höndunum.
Heilagir menn. Ég dauðöfunda þá. Aldrei hef
ég beðið neinn afsökunar eins og maður á
að gera samkvæmt 12 spora kerfinu: Ganga á milli fólks
og opna sig í fyrirgefningarskyni til að þvo á
sér samviskuna. Ég rogast bara um með syndir mínar
og á alveg sérstaklega erfitt með að biðja fólk
afsökunar, þótt það eigi það inni
hjá mér. Það að biðjast afsökunar
er eiginlega það erfiðasta í heimi eins og allir þekkja
sem til dæmis stálu einhverju sem smákrakkar, það
komst upp og þeir voru neyddir til að skila þýfinu
og biðjast um leið afsökunar. Frammi fyrir því
að þurfa að biðjast afsökunar stífnar maður
allur upp, svitnar á efri vörinni, byrjar að titra og verður
allur asnalegur. Ekki eins og maður á að sér að
vera. Þótt maður hafi kannski bara verið eitthvað
leiðinlegur við konuna og langi til að kötta strax á
þrúgandi andrúmsloftið í stofunni fyrir
framan sjónvarpið kemur maður bara ekki orðum að
því. Kvöldið er því eyðilagt með
vandræðaganginum og því hvað það er
rosalega erfitt að biðjast afsökunar. Ef ódýrara
væri að kaupa heilsíðuauglýsingar í
dagblöðum myndu því margir stökkva á
þá leið. Ef ég hreytti einhverjum leiðindum
í konuna að kveldi gæti ég læðst í
símann og pantað auglýsingu sem hún myndi sjá
morguninn eftir. Heilsíðumynd af syni okkar og texti undir:
Fyrirgefðu elskan hvað ég var leiðinlegur. Ég
lofa að gera þetta aldrei aftur.
Siðferðismeðferð
Í vikunni báðust öll olíufélögin
afsökunar. Reyndar ekki fyrr en annað var varla hægt vegna
nöldrandi fífla sem ætluðu að taka sig saman
og snúa viðskiptunum einhvert annað. Olíumenn keyptu
rándýrar heilsíðuauglýsingar og tróðu
undirmönnum sínum framan í viðskiptavini og lét
það fólk biðjast fyrirgefningar, en allt með semingi
þó. Miklum semingi og hálfgerðum skætingi,
svona eins og þegar Árni Johnsen fór í gegnum
hreinsunareldinn. “Við gerðum í mesta lagi smávægileg
mistök,” segja olíubossarnir, “runnum rétt sem snöggvast
á rassinn á svellinu, en þessi skýrsla Samkeppnisráðs
er samt alger della.” Hvergi bólar á ódýrara
bensíni handa okkur fíflunum þótt dollarinn
sé lár. Í könnun kom fram að fólk
þykir afsökunarbeiðninar ekki nóg miðað við
þann miska sem samráðið olli.
En hvað á eiginlega að gera við þessa olíubossa,
stjórnarmenn, millistjórnendur og hvað þetta heitir?
Er nóg að menn segi sig úr einhverjum stjórnum
og einn borgarstjóri þurfi að taka pokann sinn eftir langan
vandræðagang og rugl?
Nei. Auðvitað á að senda alla þessa karla
í meðferð sem byggir á 12 spora kerfinu. Þá
fyrst er von um sannfærandi fyrirgefningu frá þeim.
Karlarnir geta væflast í sloppum einhvers staðar út
á landi í mánuð, hlustað á fyrirlestra
um það að hámarksframlegð sé ekki alltaf
upphaf og endir alls og alls ekki réttlætanleg ef það
þarf að taka heilt þjóðfélag í
rassgatið til að ná henni fram. Eftir meðferðina
geta svo karlagreyin beðist grátandi fyrirgefningar allir í
einum kór á opnum fundi í beinni útsendingu.
“Við lofum að gera þetta aldrei aftur,” hljómar þá
kannski sannfærandi. Þá mun koma að þjóðinni
að finna það í sameiginlegu hjarta sínu að
náða aumingja siðspilltu karlgarmana og veita þeim
syndaaflausn og áframhaldandi góða innivinnu.