Vondar fréttir, engar fréttir og góðar
fréttir
Ég er fréttafíkill. Ef ég heyri ekki fréttatíma
yfir daginn telst sá dagur varla með. Rúnturinn byrjar
á morgnanna með blöðunum. Svo tek ég hádegisfréttirnar
og síðan kvöldmatarfréttatímana. Um helgar
er fátt meira spennandi en að horfa á álitsgjafa
rifja upp fréttir vikunnar í sérstökum þáttum.
Svona gengur þetta viku eftir viku.
Vondar fréttir
Svo er auðvitað sjaldnast rassgat í fréttum.
En ef það er eitthvað þá er það bara
fleiri sönnunargögn fyrir því að homo sapiens
sé alveg vonlaus dýrategund. Flestar fréttir sem maður
heyrir vekja upp slæmar tilfinningar. Morð, fjöldamorð,
þjóðarmorð, limlestingar, nauðganir, hópnauðganir,
eldsvoðar, náttúruhamfarir, deyjandi fólk, ljúgandi
stjórnmálamenn, sem eru kosnir aftur og aftur – allt að
fara til fjandans með sífellt meiri krafti, eins og geðveikur
snjóbolti að rúlla niður brekku. Hvenær kom
frétt sem kveikti þá tilfinningu að það
væri ennþá einhver von fyrir mannkynið? Einmitt,
ég man ekki eftir neinni síðan Berlínarmúrinn
féll og þar á undan kannski þegar sýndar
voru óskýrar myndir af mönnum að hoppa á
tunglinu.
En maður er auðvitað orðinn svo dofinn að maður
er löngu hættur að kippa sér upp við þetta
allt saman. Það er ekkert mál að slökkva á
heilanum um stund þegar limlestir eða næstum því
hungurmorða smákrakkar eru dregnir inn í stofu til að
mæna á mann tómum augum frá öðrum heimshluta.
Og ef það er ekki nóg að slökkva á perunni
nægir að tuða í barminn gamalkunnar réttlætingar
eins og “Jæja, þú vilt kannski bara hafa Saddam Hussein
ennþá við stjórn” eða “Það er alltaf
fórnarkostnaður í stríði”. Svo bara sorrí
litla blóðuga smábarn og fjölskylda: Gleðileg
jól, en þið urðum að deyja.
Engar fréttir
Það er engin furða að orðatiltækið
“engar fréttir eru góðar fréttir” sé til.
Stundum, þegar ég er búinn að glápa mikið
og lengi og það eru ekkert nema hörmungar í gangi,
hugsa ég með mér að e.t.v. væri bara ágætt
að hætta alveg að fylgjast með fréttum. Taka Gísla
á Uppsölum jafnvel til fyrirmyndar, flytja í sjálfsskipaða
útlegð einhversstaðar í útnára og lifa
lífinu án frekari upplýsinga um ógeðið
í veröldinni. Láta dagana snúast um hegðun
veðurs og kinda, glápa á fjöllin, spila á
pumpuorgel og lifa í alla staði laus undan sorglegu oki upplýsts
viðbjóðs. En ég renn auðvitað á rassinn
með þessa hugsun um leið og klukkan slær hálf
sjö og Edda og Páll birtast góðhlakkaleg með
“sneisafullan fréttapakka”.
Góðar fréttir
Nú bregður svo við, kannski í tilefni komandi
jóla, að nokkrar góðar fréttir hafa skotið
upp í fréttatímunum. Þetta eru kannski ekki
fréttir sem gefa til kynna að allt mannkynið eigi raunhæfa
von á frábærri framtíð, heldur eru þetta
fréttir sem benda til þess að við hér á
skerinu munum hafa það drullugott á næstunni.
Nú eru bankarnir búnir að taka svo mikil lán
í útlöndum til að lána okkur að við
veltumst næstum því öll um í svo miklum
yfirdrætti og afgangi af endurfjármögnunarlánum
að við getum keypt miklu fínni og dýrari jólagjafir
en síðast. Það er miklu meiri jólaverslun en
um síðustu jól og þar að auki er krónan
svo sterk að við getum látið eins og millar í
Bandaríkjunum, en þar eiga innfæddir undir högg
að sækja með sinn vitavonlausa dollar.
Ég heyrði líka mann segja í fréttum
að gróðurhúsaáhrifin muni hafa frábær
áhrif fyrir okkur. Ísland verður sirka í jafn
góðum málum veðurlega séð og Skotland
og þar sem nú verður hægt að sigla í
gegnum norðurheimsskautið lengur en áður verða hafnir
á Íslandi dúndur vinsælar. Hér fyllist
allt af nýjum dýrategundum, maður fer kannski að
sjá villta apa í Heiðmörk og menn hætta þessu
hestastússi og fara að brokka um á úlföldum.
Þessar jákvæðu gróðurhúsafréttir
eru svo sannarlega annað hljóð í strokknum miðað
við það neikvæða taut sem lopapeysuháskólaúrtölutittir
(nýtt orð sem ég var að finna upp) hafa hingað
til borið á borð.
En það er ein góð frétt í viðbót
og það er góða fréttin sem toppar allar aðrar.
Hún er um breskan erfðafræðing sem heldur því
fram að innan skamms muni menn geta lifað í sirka 1000 ár
af því erfðatækninni hefur fleygt svo fram.
Er þetta ekki frábær framtíðarsýn:
Að maður eigi eftir að borga niður lán og horfa
á fréttirnar í 960 ár í viðbót,
og það í funhita umkringdur exótískum dýrum?
Stórkostlegt!
|