Er fólk fífl?

Ég er í biðröðinni hjá Atlantsolíu, Kópavogi. Ég hélt að hér yrði allt brjálað, fullt af einbeyttu fólki í kílómeters langri röð og alger geðveiki. Nei nei, það er ekki nema einn fyrir framan mig. Á sjö kílómeters langri lykkjunni sem ég lagði á leið mína til að komast hingað sá ég fullt af fólki á hinum bensínstöðvunum eins og ekkert hefði í skorist. Einhver hafði þó sent út boð um að fólk ætti að sleppa því að versla annað en bensín hjá glæpafyrirtækjunum þrem, eins og réttast er að kalla þau, en það er borin von að fólk nenni því til lengdar, jafnvel bara yfir höfuð. Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur, eins og sagt er.

Í gapastokkinn með þá!
Ég hef oft keyrt hingað til að taka bensín og það áður en skýrsla Samkeppnisstofnunnar var birt. Þegar Atlantsolía kom fram lækkaði glæpabensín sig, en bara á þeirri stöð sem næst er Atlantsolíu. Ég tók einu sinni bensín á svoleiðis stöð og leið svipað og Júdasi á eftir. Rétt slapp við að hengja mig af skömm.
Sama er með flugið. Ég reyni að fljúga með Iceland Express, þó ég þurfi að leggja á mig lykkjur og hanga vansvefta á flugvöllum. Ég hef nefnilega ekki gleymt því hvernig Flugleiðir hegðuðu sér þegar Go! flugfélagið kom fram. Linntu ekki látum fyrr en fyrirtækið hafði drullast af markaðnum og hækkaði svo allt daginn eftir.
Ég reyni með öðrum orðum að vera meðvitaður neytandi. Ég fann á mér að glæpabensínfyrirtækin þrjú væru eitthvað vafasöm. Allsstaðar var bensínið jafn dýrt árum saman. Ef einn hækkaði um krónu voru hinir búnir að því innan hálftíma. Nú er skýringin komin í ljós: þetta var margra ára langt glæpaferli, útpælt og skipulagt. Sárgrætilegast er að þeir sem stóðu fyrir þessu munu eflaust komast upp með það. Það mun enginn fá kæru, enginn þurfa að taka út sekt; sama liðið mun hanga áfram glottandi á valdastólum fyrirtækja og neytendur munu kyngja því hráu. Gleyma þessu eins og öllu öðru. Hvað varð annars um þessa gauka sem voru að svindla á okkur í grænmetinu fyrir nokkrum árum? Eru þeir búnir að taka út sýna refsingu?
Réttlátast væri að virkja augnabliksgremju múgsins með því að koma upp gapastokkum á Laugarvegi. Þar gætu þeir sem unnið hafa samfélaginu mein með takmarkalausri græðgi dúsað yfir helgi eða svo. Fólk gæti hrópað ókvæðisorðum að glæpalýðnum af sunnudagsrúntinum og svo mætt endurnært til vinnu á mánudegi í stað þess að láta gremjuna bulla í sér út vikuna.

Myglað brauð
Eftir því sem fleiri nenna að lesa sig í gegnum 1000 blaðsíðna skýrsluna kemur glæpurinn betur í ljós. Fólk er reitt í augnablikinu og er eitthvað að gjamma út í bæ, sama fólkið og gjammaði eftir síðasta hneyksli sem allir eru búnir að gleyma. R-listalið hefur slegið skjaldborg utan um hinn viðkunnalega Þórólf, sem þrátt fyrir allt var með í glæpnum. Ömurlegt er að sjá þetta lið, sem telur sig í frjálslynt og víðsýnt, breytast á augabragði og hanga á roði valdsins eins og froðufellandi púðluhundar. Vinstri-grænir eru eina fólkið af viti í þessu máli.
Kannski senda gömlu olíuforstjórnarnir hvorir öðrum email um þessar mundir: “Leyfum bara liðinu að gjamma aðeins, blása út. Það verður búið að gleyma þessu á morgun. Ps. Muna að eyða emailinu, ég var búinn að kenna ykkur hvernig á að gera það.”
Og auðvitað gleymir fólk þessu öllu saman, enda hefur það um nóg annað að hugsa. Í hverju málinu á fætur öðru hefur það komið í ljós og þegar öllu er á botninn hvolft er fólki alveg sama um flest og á svipuðu andlegu stigi og forfeður þess sem bogruðu vinnupíndir í moldarkofum. Forfeðrunum hefur örugglega líka þótt hallærislegt að mótmæla myglaða brauðinu sem þeim var skammtað.

Stæli Ríkisolía minna?
Og ég sem hélt að kapítalísk samkeppni ætti að vera svo æðisleg og neytendunum til góðs. Ég sem hélt að allt yrði svo frábært ef það væri í einkaeigu og í bullandi samkeppni við einhvern annan. En ef gróðinn (eða “framlegðin” eins og nú þykir fínt að segja) er meiri með samráði til hvers þá að standa í samkeppni?
Til hvers er annars verið að halda þessum olíufélögum úti? Ætti ekki bara að þjóðnýta þetta? Tekur ekki ríkið meirihlutann af innkomunni hvort eð er? Yrði stolið jafn miklu af neytendum ef Ríkisolía sæi alfarið um þetta? Nú á að selja símann. Til hvers? Til að einhver nýr og ferskur Kristinn Björnsson geti hringt í forstjóra Og Norðurljósa til að ræða við hann hugmyndir um hámarksframlegð. Fyrsti fundurinn kannski í Öskjuhlíð?
Thomas Möller hjá Olís og Botnleðja hafa haldið því fram að fólk sé fífl. Ég get ekki séð betur en að þeir hafi haft rétt fyrir sér. Sjáðu bara hver sigraði í bandarísku forsetakosningunum.