Mig vantar góð eftirlaun – kjósið mig!

Ég verð fertugur á þessu ári. Ég er samt lítið farinn að spá í eftirlaunalífeyrismálin ennþá og satt að segja fæ ég kvíðahnút í magann ef ég leiði hugann að því dóti öllu. Þá þarf maður nefnilega að ímynda sér sjálfan sig eftir þetta sirka 25 ár, eldri og signari með lafandi pung, hættan að vinna, líklega með skít á priki í eftirlaun af því maður var svo lítið framsýnn, en ef maður tekur sig á núna, kannski verandi hálft árið á Kanarí með húð eins og krókódílatösku. Úff… hér kemur hnúturinn aftur.

Frábært kerfi
Nýlega var opinberað frábærasta kerfið í þessu lífeyriskjaftæði öllu. Það er kerfi sem vinir alþýðunnar á Austurvelli komu á af einstæðri góðmennsku við sjálfa sig: Lög um eftirlaun þingmanna. Ef ég skil þetta rétt fara nú þingmenn á blússandi eftirlaun þegar þeir verða sextugir og þá skiptir engu máli hvort þeir séu í fullri vinnu eða ekki. Helvíti gott. Og því er auðvitað bara eitt að gera í stöðunni: Koma sjálfum sér á þing. Maður gæti þá auk þess að uppskera ríkulega af fyrri ákvörðunum barist fyrir öðrum góðum málum eins og að láta sjálfan sig fá ríflega kauphækkun reglulega, lækka eftirlaunaaldur sjálfs síns niður í 50 ár (til að tryggja endurnýjun) og þar fram eftir götunum.

Foringi á slopp
Að koma sjálfum sér á þing ætti ekki að vera svo mikið mál. Allavega sé miðað við marga af þessum þöngulhausum sem eru þarna. Skortur á framsýni kom náttúrlega í veg fyrir að ég hengdi mig á einhvern flokk í barnæsku – tæki þátt í “ungliðastarfi” eins og sagt er. Ég mun sjá eftir því glappaskoti alla æfi. Núna verð ég því að koma mér inn í flokk á útsmoginn hátt, láta þar til mín taka, leggja mig fram og smjúga svo á þing og á sætu eftirlaunin.
Það leggur beinast við að Sjálfsstæðisflokkurinn sé efstur á óskalistanum enda það sem bolurinn vill. Á tímabili fór ég alltaf í gönguferð með son minn í barnavagni eftir Ægisíðunni og svo framhjá húsi Davíðs Oddssonar. Ég sá fyrir mér að Davíð væri kannski eitthvað að sýsla í garðinum, sæi mig koma, segði: “Ég fílaði Popppunkt alveg í tætlur”, biði mér inn í kaffi og svo okkur hjónunum seinna í mat og þaðan yrði skítauðvelt að klifra á toppinn verandi í liði Foringjans. Ég fór þarna framhjá viku eftir viku en aldrei var líf í húsinu. Loksins einn laugardaginn þegar við feðgarnir nálguðumst húsið sá ég Forsætisráðherrann þáverandi á slopp á lóðinni. Ég svitnaði og tók að nötra eins og ég væri við það að missa sveindóminn. Nú væri komið að því. Salir Valhallar væru við það að ljúkast upp fyrir mér. Ég nálgaðist og hjartað hamaðist. Ég sá að Davíð var í hálfgerðum trésmíðasloppi og var að henda einhverju í tvo flækingsketti sem þvældust við fætur hans. Við feðgar nálguðust, ég kófsveittur og rauður af spenningi en sonurinn sá kettina og fór að babbla. Þá leit Foringinn upp, sá okkur og flýtti sér inn. Hurðin skelltist í lás á akkúrat á sömu sekúndu og við gengum framhjá. Draumurinn um góð eftirlaun var að engu orðinn.

Einn af smákrökkunum
Framsóknarflokkurinn er flokkur sem engin kýs en er samt allt í stjórn. Og verður örugglega áfram í stjórn með Sjálfsstæðisflokknum það sem eftir er, allavega miðað við það að þessir flokkar voru kosnir aftur nokkrum dögum eftir að þeir tóku ákvörðun sem 84% þjóðarinnar er á móti skv. Gallup. Hvernig geta svona flokkar annað en verið við völd?
Í Framsókn er haugur af smákrökkum og þessir smákrakkar fá að vera að þingi og allt. Varla orðin þrítug en samt búin að tryggja sér súper eftirlaun. Ég gæti nú alveg verið á þingi eins og þessi Dagný og Birkir og hvað þetta heitir, þessir krakkar sem líta út eins og þau séu nú þegar komin á eftirlaun. Ég get alveg verið þjóðlegur í tauinu á tyllidögum, svikið allt sem ég stóð einhvern tímann fyrir og sleikt mér upp við rétta aðila í flokknum. Pís of keik. Allt fyrir eftirlaunin. Maður ætti kannski að byrja að mæta í Hvítasunnuguðþjónustur og sjá til hvað það skilar manni? Hvort ekki sé hægt að lauma sér inn þeim meginn.

Aðrir kostir slæmir
Miðað við það lið sem er í Frjálslyndum hlýt ég að eiga séns þar, en samt glætan að ég nenni að kynna mér kvótakerfið. Vinstri grænir, æ ég veit það ekki. Er ekki til einum of mikils mælst að maður komi sér upp sannfæringu sem bolurinn mun aldrei kyngja, bara til þess að fá feit eftirlaun? Held það. Þá er bara Samfylkingin eftir og mér líst ágætlega á þann flokk þótt hann sé svo sem fullur af jafn gömlu og glötuðu liði og aðrir flokkar. “Ungu” þingmennirnir þar eru svona það skásta af þessu liði sem er á aldur við mig niðrá Austurvelli. Nú væri t.d. upplagt að taka sénsinn á annað hvort Ingibjörgu eða Össuri, hella sér út í “málefnavinnu” fyrir annað hvort og eiga svo 50/50 séns á að verða launaður greiðinn með þingsæti. Þetta er eins og eitthvað “allt eða ekkert“ kasínó í Las Vegas. Ef ég væri í liði Össurar og hann tapaði gæti ég kysst eftirlaunasælgætið bless. Og öfugt. Hjúkkitt maður. Þetta er einum of mikið stress.

X-G
Lausnin á þessu öllu saman er auðvitað minn eigin flokkur. Flokkurinn minn, X-G. Ég hlýt að geta rumpað upp einhverju rugli til að fá nógu mörg atkvæði til að komast á þing. Já já, ég mun lækka skattana, koma léttvíni í sjoppurnar og eitthvað svona sem gengur endalaust í fólk. Skreyti mig með flottum kosningafrösum eins og “Allir glaðir og ríkir árið 2010!” eða “Fólk í fyrirrúmi”. Á bakvið býr svo auðvitað ekkert nema einlæg sjálfshyggja því daginn eftir að ég kemst á þing mun ég samþykkja lög um góða kauphækkun og feitustu eftirlaunin á landinu. Verð svo áhyggjulaus sextugur krókódíll með siginn pung einhversstaðar í útlöndum á tvöföldu kaupi og gæti ekki verið meira sama. Eureka!