Nú er Iceland Airwaves skollin á og allir sem rokkvettlingi geta valdið ættu að flykkjast á tónleika. Út um allan bæ eru æsandi gigg með framsæknum erlendum listamönnum og íslenskum snillingum, sem augu og eyru útlendinga beinast að, enda er það löngu orðin viðurkennd staðreynd meðal tónlistaráhugafólks að íslensk tónlist sé fersk og spennandi. En þetta var ekki alltaf svona. Langt í frá.
Í iðrum kúlsins
Fyrir ekki svo löngu var íslensk tónlist nefnilega
álíka hallærisleg og slavneskt polka í augum
umheimsins. Hljómar, sem Thor’s Hammer, reyndu á ná
útlendum eyrum, en þótt rokkið þeirra væri
æsandi, gerðist ekkert fyrr en löngu seinna þegar
endurútgáfurnar sýndu fram á snilldina. Pelican
glímdu við sveitta ístrubelgi sem vildu “make you a star”,
en ekkert gerðist. Hér liðu mörg ár í
röð án þess að erlend bönd kæmu til
að spila og þegar einhver kom loksins lá við öngþveiti.
Austurstræti fylltist t.d. af fólki þegar skoski popparinn
B.A. Robertson áritaði plötur í Karnabæ. Karlgreyið
hafði aldrei séð annað eins og yljar sér örugglega
ennþá við tilhugsunina og smjörþefinn af frægðinni.
Smátt og smátt sönnuðu menn sig í augum
heimsins. Þursaflokkurinn gerði það gott í Hollandi
með séríslenska loparokkinu sínu og Mezzoforte
komust í 17. sæti smáskífulistans í Englandi
1983. Þá um sumarið átti ég leið framhjá
diskóteki á Leicester Square og heyrði tóna “Garden
Party” líða út í nóttina. Ég fylltist
af sjaldgæfu stolti fyrir hönd þjóðarinnar
og var næstum rokinn á næsta Breta til að segja
honum að strákarnir í hljómsveitin væru
landar mínir.
Næsta skref var það stærsta: Sykurmolarnir slógu
í gegn og seldu milljónir platna. Þetta fólk
sem maður hafði drukkið við hliðina á á
Kaffi Gesti var bara allt í einu komið framan á útlend
stórblöð. Þetta var einstakt og það hefur
ekki verið horfið frá þessari þróun síðan.
Allir vita hvernig fór: Í dag nennir maður varla að
líta við þegar útlendar stjörnur verða
á vegi manns og maður hefur ekki undan að fara á
tónleika með útlendri snilld. Íslensk tónlist
hefur fyrir löngu sannað sig og dvelur nú í iðrum
kúlsins. Við verðum varla hallærisleg aftur í
bráð.
Rokk fyrir sendiherrann
Sem betur fer hafa Ríki eða Bær lítið komið
nálægt þessari þróun. Ísland væri
örugglega ekki kúl ef það hefði verið markmið
áralangs plotts stjórnvalda. Á sínum tíma
fóru Sykurmolarnir betlandi milli stofnana þegar þeim
bauðst til að hita upp fyrir U2 en fengu hvergi krónu, en
nú er þetta aðeins skárra. Flugleiðir og Borgin
styðja t.d. raunsarlega við Airwaves. Allt ríkisstyrkt lista-
og tónlistarhavarí er upp til hópa misheppnað
og varla annað en afsökun fyrir íslenskt stofnanafólk
að fá dagpeninga til að fara á fyllirí. Sjáiði
bara nýlegt dæmi: íshlunkinn í París
og delluna í kringum það. Í hvaða Óralandi
býr fólk sem heldur að svona peningasóun hafi
eitthvað að segja? Ekki fyrir löngu sigldi einhver ofurhugi
í kjölfar Leifs Eiríkssonar á heimasmíðugu
fleygi og þegar hann náði á leiðarenda var
haldin “menningarhátíð” á höfninni í
New York. Á svipuðum tíma bullaði Ólafur Ragnar
eitthvað um að Disney ætti að gera teiknimynd um Lucky
Leif. Nokkur íslensk bönd voru send út á vegum
ríkisins til að spila á höfninni og giggið var
auglýst á heilsíðu í New York Times. Svo
spiluðu útfluttu böndin fyrir íslenska sendiherrann
og konuna hans og einhverja stofnanafauska sem höfðu flogið
út með rokkurunum á Saga Class. Það hefði
alveg eins verið hægt að henda peningunum sem fór
í þetta rugl út úr þotunni á leiðinni
út, það hefði komið á sama stað niður
“kynningarlega” séð.
Þroskahefur á betl-fundi
Þótt skömm sé frá að segja er ég
sammála frjálshyggjutuðurunum í þessu: Listin
á að fá að þróast að mestu án
styrkja og sníkja. Þetta segi ég kannski bara af því
ég hef nokkrum sinnum sótt um einhverja styrki en aldrei
fengið krónu. Man að ég fór með tveim
öðrum á fund með félagsmálaráðherranum
Árna Magnússyni, sem þá var aðstoðar-eitthvað
í Iðnaðarráðuneytinu. Árni hefur örugglega
haldið að ég væri þroskaheftur því
ég sat glottandi út í horni allan fundinn og sagði
ekki orð. Ég datt eiginlega út og fór í
aðra “vídd”, því með mér voru menn sem
kunnu að bulla sannfærandi í því augnamiði
að kreista aur út úr Ríkinu. Þótt
þeir bulluðu vítt og breytt um þörfina fyrir
að íslenska ríkið styrkti Unun til heimsfrægðar
fengum við ekki krónu.
Auðvitað hefði það komið sér vel að
fá borgaðar ferðir og kannski smá dagpeninga þegar
við hörkuðum á þröskuldi meiksins með
Visa og yfirdráttinn í botni. Þá væri
ég kannski ekki ennþá að borga niður skuldasúpuna.
En á móti kemur að það er meira kúl
eftir á að geta sagst hafa gert hlutina upp á eigin spýtur,
en ekki fyrir almannafé eins og hver annar þurfalingur. Grey
mennirnir sem skammta úr sjóðunum hafa hvort sem er nóg
með kennarana, öryrkjana og sjúklingana. Og svo auðvitað
sjálfa sig.