Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir flest voðalegu litli máli, til lengri tíma litið. Það sem allir eru að æsa sig yfir í dag verður grafið og gleymt á morgun og fólk man ekkert afhverju það var svona æst og spennt.
Merkilegustu skóför í heimi
Um sumarið 1969 hugsaði heimurinn til dæmis um lítið
annað en tunglferðir. Fyrir jólin 1968 hafði Apollo
8 náð myndum af jörðinni utan úr geimnum og
fólk hafði fengið það framan í sig að
jörðin er bara örsmátt sandkorn á endalausri
strönd alheimsins. Fólk fann því áþreifanlega
fyrir smæð sinni á síðum blaðanna og sú
uppgötvun fékk það til að íhuga málin
um hríð. Vikum saman starði almenningur á tunglið,
þessa upplýstu eyðimörk á himninum, og fannst
sem mannkynið myndi vinna mikið afrek með því
að tveir Kanar gengu þarna í sandinum. Svo gerðist
það í beinni (nema tveim vikum síðar í
íslenska sjónvarpinu): Kanarnir lentu, Neil fór með
frasann sinn, karlarnir hoppuðu eitthvað, tóku myndir og
flugu til baka. Smám saman dofnaði minningin um afrekið
þótt fleiru færu upp; fátækt fólk
hélt bara áfram að drepa annað fátækt
fólk í stríðum hinna ríku og áhrifamiklu,
og ekkert breyttist heldur versnaði ástand heimsins sífellt.
Almennt séð virðist sem aldrei hafi allt verið að
fara hraðar til andskotans en einmitt núna. Og það
þrátt fyrir að mannkynið hafi gengið á
tunglinu. Nú hefur auðvitað engin áhuga á
hinu óspenndi tungli. Þar er ekkert að hafa og ekkert
að sjá nema skóför af Neil og félögum,
sem ku verða þarna næstu eitthvað þúsund
árin nema loftsteinar skemmi. Skóför. Það
var þá eitthvað til að æsa sig yfir.
Margboðaður heimsendir
Ég var alinn upp “í skugga kalda stríðsins”,
eins og vinsælt er að segja. Líkt og í dag í
Bandaríkjunum – þar sem “varnarstigið” skiptir í
sífellu um lit til að halda fólki hræddu – var
stöðug ógn af kjarnorkusprengjum. Sovétríkin
voru næstum því alltaf að fara að sprengja okkur
í tætlur. “Herstöð er skotmark”, jörmuðu
menn og Utangarðsmenn myndgerðu atburðinn fyrir okkur á
framhlið plötunnar Geislavirkir. Börn og fullorðnir lifðu
í sífelldum ótta. Þeir klikkuðustu komu
sér upp neðanjarðarsprengjuskýlum með dósamat.
Einna mestum andlegum usla olli myndin The Day After Tomorrow með Jason
Robards. Fólk eyddi ótrúlegum tíma í
að spá í þetta allt saman, heilu skógarnir
voru felldir til að prenta á vangaveltur um yfirvofandi tortímingu,
en svo féll múrinn bara eins og hendi væri veifað
og nú er engin hræddur við kjarnorkusprengjur. Fólk
hættir bráðum að skilja af hverju við létum
þetta ganga yfir okkur, líkt og menn skilja ekki afhverju
Nasistar gátu espað alla upp í slátrunina miklu.
Eftir ekki svo mörg ár skilur enginn afhverju það
þurfti að drepa alla þessa Múslíma í
Írak, líkt og nú skilur engin hvað var í
gangi með að drepa alla þessa Víetnama.
Í stað kjarnorkuógnar höfum við í
dag hangandi yfir okkur hefnigjarna náttúru, sem ef spár
ganga eftir mun hefna sín á sóðaskapnum í
okkur og drepa flest kvikt með ofsalegum hamförum eftir þetta
2 til 200 ár. Myndin The Day After með Dennis Quaid sýndi
okkur þetta svart á hvítu fyrir skömmu.
Eftir 20 ár kemur svo kannski myndin The Day með Macaulay
Culkin sem sýnir nýjasta hræðsluvaldinn tortíma
heimininum á stórbrotinn hátt. Ég veit ekki
hvað verður í tísku að hræða og fá
fólk til að æsa sig yfir þá, en það
verður örugglega eitthvað.
Ekkert jafnaðargeð
Allskonar mál og efni til að æsa okkur upp skella
á með stuttu millibili, enda í eðli fjölmiðla
að halda æsingsástandinu uppi. Það er líka
í eðli mannskepnunnar að vera æst og með sífelldar
áhyggjur. Maður gleymir auðvitað alltaf öllu um
leið og lærir aldrei af reynslunni. Áhyggjurnar af Vísareikningnum
skipta nefnilega engu máli einu ári síðar og maður
hefur ekki hugmynd um það í dag afhverju maður var
að rífast við konuna og sitjandi í ískaldri
þögn fyrir framan sjónvarpið í gær.
Samt heldur maður áfram að hafa áhyggjur og rífast
um ekki neitt.
Auðvitað væri viturlegast og taka öllu með jafnaðargeði
og láta ekkert fara í taugarnar á sér, vera
spakur á gáfulegan hátt, eins og síðskeggjaður
vitringur í tunnu eða heiladauður bjáni. Yppa öxlum
spekingslega yfir því hvort Kerry eða Bush vinni og segja
eitthvað spekingslegt og órætt eins og kannski, “Tja,
sólin kemur nú upp hvernig sem fer”.
Yeah right. Jafnaðargeðið fer fyrir lítið um
leið og maður er komin út í umferðina að
byrjaður að djöflast og andskotans, hugsandi fólki
á bílum sem flækjast fyrir þegjandi þörfina.
“Burt þarna helvítis karl helvíti,” hugsar maður
og berst við löngunina að flauta fruntalega á gamlan
karl með hatt á ryðguðum skrjóð.