Ég og silfurskotturnar erum ánægð í myrkrinu

Við álítum okkur greindustu dýr sem uppi hafa verið. Við erum kóróna sköpunarverksins, eigum að baki glæsilega sögu, fundum upp flugvélina og frunsumeðalið, máluðum Mónu Lísu og sömdum síðasta fjármálafrumvarp og bókina Pikkupplínur með Kalla Lú. En þótt við séum fullkomnasta og besta dýrategund í heimi trúir fjöldi manns á það að eitthvað sé “æðra” en við. Einhver dularfullur “æðri máttur”, sem er sívinnandi í því að ákveða örlög okkar á bakvið tjöldin – “á himnum” – haldandi fullkomna dagbók yfir það sem við gerum og hugsum og þegar við deyjum fáum við sko aldeilis að finna fyrir því hafi við verið vond.

Kemst ekki í klúbbinn
Ég öfunda fólk sem trúir á þennan æðri mátt, þetta dularfulla orkubúnt Guð og fólk sér stundum fyrir sér sem hvítskeggjaðan karl í hvítum kufli, ekki ósvipað og Helgi Hós í spítalaslopp. Trúaða fólkið er eins og í einhverjum guðdómlegum leyniklúbbi, en leynir því sko aldeilis ekki hvað það hefur það gott og er fullkomlega sátt eftir að það fann sannleikann. Og ekki nóg með að það sé ánægt, það er líka endalaust að nudda manni upp úr því að vera ekki í klúbbnum: “Þeir sem trúa ekki reika um í myrkrinu og eru siðlaus hálfmenni sem munu fara til helvítis og pínast í eldi,” segja hinir trúuðu og mér finnst eins og að þeir séu alltaf að tala beint til mín. “Við aftur á móti erum alveg seif, ekki nóg með að okkur líður miklu betur en þér núna, heldur verðum við líka í frábærum málum í næsta lífi.”
Mér finnst þetta skítt. Ég vildi að ég væri nógu gáfaður til að trúa blint eins og hinir trúuðu. Trúa bara að það sem einhverjir karlar skrifuðu fyrir fleiri hundruð og jafnvel þúsund árum í Miðausturlöndum eigi allt saman við rök að styðjast og sé jafn heilagur sannleikur nú og þá. Að hinir órannsakanlegu vegir Guðs séu einmitt málið og lausn á öllum spurningum lífsins. Að allt annað en lifandi trú á Guð og son hans Jesús sé myrkur og eymd.

Jafn vitlaus og silfurskotta
Vegna heimsku minnir hef ég aldrei komist í kallfæri við æðri máttarvöld. Ég hef aldrei náð það langt í lífinu að komast á botninn og þar að leiðandi hefur Jesús ekki nennt að birtast mér í infrarauðum bjarma. Ég er það vitlaus að mér finnst það fáránleg tilhugsun að biðja bænir og mér finnast útskýringar Biblíunnar á heiminum lítið annað en bjánalegt bull þeirra fornaldakarla sem skrifuðu bókina.
Ég er þó auðvitað ekkert að þykjast hafa svörin á reiðum höndum, enda skildi ég ekki baun í bala þegar ég reyndi að lesa Sögu tímans eftir Stephen Hawking. Ég hef því siglt í gegnum skerjagarð stóru spurningana með því að vera sannfærður um að ég, sem eintak af þessari dýrategund, sé hreinlega ekki með nógu stórann heila til að skilja öll leyndarmál heimsins. Til nánari útskýringar á þessari kenningu minni hef ég stillt mér upp við hliðina á silfurskottunum sem stundum birtast í baðkerinu hjá mér. Silfurskotturnar skilja ekki tölvuna mína og gætu ekki skrifað kjallaragrein í DV sama hvað þær reyndu. Kjallarahöfundur sem væri silfurskotta myndi þó örugglega ná miklum vinsældum. Ég er álíka takmarkaður og pöddurnar, skil ekki alheiminn og mun aldrei geta útskýrt hann sama hvað ég reyni. Ég hef semsagt þennan vara á yfirburðum dýrategundarinnar sem ég tilheyri og yppi nautheimskur öxlum yfir nýjustu ljósmyndunum frá Hubble. Með því að tileinka mér þessa “ég er of heimskt dýr til að skilja alheiminn”-kenningu og sætta mig við hana, er ég sífellt nokkuð ánægður og hef aldrei fundið fyrir þessum ægilega tómleika sem trúað fólk er alltaf að klína upp á hina trúlausu. Hvað þá að það haldi fyrir mér vöku hvort hommar og lesbíur megi gifta sig í kirkju eða ekki.

Trúarofstækir siðleysingjar
En þótt ég sé vitlaus get ég séð að þeir sem telja sig þá trúuðustu af öllum, og vinna jafnvel kosningar út á það, eru lítið annað en skelfilegir vargar sem fara ekki eftir neinu af því sem þeir þykjast hafa að leiðarljósi í lífinu. Ég hef séð nógu margar kristilegar bíómyndir í sjónvarpinu á stórhátíðum til að fatta nokkurn veginn hvað sonur Guðs var að spá. Eða kallast það nokkuð að bjóða hinn vangann að slátra smábörnum í fjarlægum löndum?