19.07.11
Nú liggur framhaldið fyrir í Popppunkti sumarsins og við búnir að draga í 8-liða keppninni sem framundan er næstu fjóra laugardaga. Leikirnir eru svohljóðandi:

Hljómsveitin Ég - Valdimar
Todmobile - Vinir Sjonna
Jónas Sig - Skálmöld
Sinfó - Sóló (Eyfi, Pétur Ben, Orri Harðar)

Fer nú að þyngjast róðurinn og fólki að hlaupa kapp í kinnar.
---

Var fyrir norðan þar sem ég gerði þá snilld að fara í hvalaskoðunarferð með Dagbjarti. Það eru nú allir og langafi þeirra að bjóða upp á hvalaskoðun þessa dagana en við fórum með Arctic Sea Tours frá Dalvík, 7000 kall fyrir mig og 3500 kr fyrir Db. Við komumst í spikfeitt og sáum eina fjóra hnúfubaka í návígi. Einn hoppaði ítrekað upp í loftið eins og hann væri á launum hjá hvalaskoðuninni, rétt hjá bátnum, allur í hrúðuköllum og svaka hress. Svo sáum við þrjá í viðbót mara í kafi og blása úr holunum. Ég hef aldrei séð svona áður og þetta var satt að segja nokkuð magnað. Svo var sett út stöng og ég landaði tveimur risaýsum sem voru grillaðar þegar komið var í land einum 4 tímum síðar, því það var siglt til Hjalteyrar og þaðan til baka í leigubíl. Ég mæli eindregið með svona túr, gæti jafnvel hugsað mér að fara aftur.

Að sjálfssögðu fórum við nýju göngin til Siglufjarðar. Göng í tvennu lagi með Héðinsfjörð á milli, 7.1 km + 3.9 km og ókeypis. Svo er maður að fara 6 km í Hvalfirðinum og ennþá að borga fyrir það (nýlega var farið hækkað í þúsund kall, en maður er náttúrlega með 10 miða kort sem kostar 6.350 kr). Kannski er bara ok að þetta sé svona, aumingja landsbyggðin og svona? Ég sé fram á að Siglufjörður verði mun oftar í rúntinum en áður, vegna ganganna. Þetta er kaótískt uppbyggður bær með mikla fortíð gullæðis. Rauðka hefur verið að gera frábæra hluti þarna í uppbyggingunni, skærlitu húsin í miðbænum eru algjör snilld. Hvergi er tilvaldara að fá sér síldarhlaðborð í hádeginu en á Hannes Boy Café, það kostaði 1990 kall á mann. Allskonar síld á rúgbrauð plús massífur plokkari. Var leiddur um pleisið og sýndur töff tónleikastaður í bláa húsinu.

Eitt er slappt á Siglufirði. Það vantar alveg göngustíg eða gangstétt úr miðbænum í hið frábæra Síldarminjasafn. Maður var að tölta í malarkanti með blússandi tjaldvagnatrukka allt í kring og það var hálf skerí. Miðað við uppbyggingarkraftinn í bænum verður þessu væntanlega kippt í lag fljótlega. Síldarsafnið já. Mjög fínt að skoða þetta þótt ég hafi lítinn áhuga á síldarvinnslu. Gríðarlega metnaðarfullt og flott.


Nú í sumar hef ég gert vísindalegar athuganir á þeim þremur stöðum sem selja ís beint úr kúnum, eða "beint frá býli". Yfirburðarstaður í þessu er Holtsel í Eyjafirði. Þarna er góð aðstaða til ísáts og þarna er besti ísinn. Eins og ég hef margtuggið býr Holtsel til besta ís á Íslandi í heimi (Skyrís með íslenskum bláberjum), en þarna er allt fljótandi í himneskri íssælu annarri. Ekki skemmir fyrir að þau eru með ódýrasta ísinn af þessum þremur, 300 kr fyrir eina kúlu, 500 fyrir tvær og 700 fyrir þrjár. Kúlurnar eru stórar. Holtselsfólkið er höfðingjar heim að sækja og oftar en ekki fær maður smá túr. Einu sinni sáum við borgarpakkið beljurnar í fjósinu og núna fengum við að sjá nýja hænuunga af kyni íslensku landnámshænunnar.

Sért þú á Akureyri á annað borð er hneyksli ef þú gerir þér ekki ferð í Holtsel. Ísbærinn er 20 km inn Eyjafjörðinn og í sömu ferð væri ekki óvitlaust að kíkja á Smámunasafnið og hinn klassíska og æðislega Jólagarð. Ef þig vantar ekki akkúrat jólaskraut núna geturðu þó alltaf gusað í þig nokkrum Taffytown karamellum, sem þarna eru um öll gólf í fjölmörgum tegundum. Hinu megin við Eyjafjörðinn er svo Safnasafnið sem er helber snilld og möst sí.

Ís frá Holtsels Hnossi fæst líka í bænum, t.d. í Melabúðinni og Frú Laugu (sem selur stundum ís frá hinum beint frá býli ísgerðunum líka). Ég gef Holtseli óhikað 4 stjörnur af 4 mögulegum.

Á leiðinni til Búðardals eru Erpsstaðir og selja ísinn beint úr fjósinu. Þau eru líka með osta. Þau selja ísinn ekki í kúlum eins og hinar tvær heldur bara í plastboxum. Man ekki hvað lítið box kostaði en það var ekkert yfirgengilegt. Nokkrar tegundir en engin sem ég man eftir. Ísinn er gaddfreðinn í boxinu svo maður þarf að vanda sig að borða hann með lítilli plastskeið. Ágætur ís, en ekkert spes. Það er vel þess virði að heimsækja Erpsstaði, ekki síst til að ná sér í ost (fetaosturinn hjá þeim ku vera æðislegur). Erpsstaðir fá 3 stjörnur.

Eini beint frá býli ísstaðurinn við hringveginn er Jöklaís á Brunnhóli skammt frá Höfn. Þar er einnig ferðaþjónusta af öðru tagi og nýlega flutti ísbúðin sig í nýtt hús, sem er mun stærra en það gamla svo þetta hlýtur að ganga vel. Ég varð fyrir allnokkrum vonbrigðum því kúlurnar hjá þeim voru full litlar fyrir minn smekk (hljóta að nota barnaísskeið) og dýrar (400 kr fyrir eina, 700 fyrir tvær, 900 fyrir þrjár). Maður var eldsnöggur að klára tvær kúlur (sem voru nú svo sem ágætar á bragðið), en það verður ekki af því skafið að útsýnið út um gluggann beint á Fláajökul og beljurnar var fríkin osom. Afnot af kíki í kaupbæti. Sé maður á ferðinni þarna á auðvitað að stoppa til að fá sér ís, en ég gef Jöklaís tvær stjörnur og dregst þá frá hátt verð og dvergskeið.

13.07.11

‎8. þáttur sumarsins á laugardaginn: Amiina - Sinfó. Annað hvort liðið bætist við og dregst saman við eitthvað af þeim sjö sem komin eru áfram: Vinir Sjonna, Hljómsveitin Ég, Skálmöld, Todmobile, Sóló (Eyfi, Pétur Ben, Orri Harðar), Valdimar, Jónas Sig & Ritvélar framtíðarinnar...
---

Maður er enn í hvílíkum sumarleyfisgír að það hálfa væri líklega ágætt. Náði þó að skrölta í uppáhaldsbúðina, Kost í Kóp. Maður er kominn til Ameríku þar. Í kerfinu var einhver amerísk stöð sem brotin var upp með ræðum frá Barack Obama, Æ kidd jú not. Náði mér í nauðsynjar, til að mynda gul kirsuber sem litu betur út en þessi rauðu og voru góð. Sullenberger er nú að ná fullkomnun og er byrjaður að selja gos, m.a. A&W rótarbjór á algjöran slikk, 849 kall fyrir 12 dósir í kartoni, sem útlegst á 71 kr stk – þetta gerist ekki betra. Ég keypti líka dós af gosinu Big Red og hef gert skil á hinu átakanlega gos-bloggi. Áfram Sullenberger!
---
Nú koma nokkur glóandi heit ný íslensk lög:


Morðingjarnir - Blóð
Taparar síðasta PP mættir með glænýjan og svellandi köntrí smell um Gvend á Eyrinni/Minning um mann-legan sveitadurg sem gengur aftur og hefnir grimmilega svo blóðið sullast um sveitir. "Undir áhrifum" frá Brimkló og allir í góðu stuði. Fréttatilkynningin er svona: Hljómsveitin Morðingjarnir hafa látið lítið fyrir sér fara síðan þeir sendu frá sér jólalagið Jólafeitabolla við góðar undirtektir landsmanna. Þeir hafa þó verið að vinna að nýjum lögum sem mögulega kannski verða á nýrri plötu þegar fram líða stundir. Fyrsta lagið af þessari væntanlegri plötu heitir Blóð og er fyrirtaks spaghettíkántrívestra slagari í anda KK og Ennio Morricone. Lagið er tekið upp af Helga Sæmundi Kaldalón Guðmundssyni, liðsmanni Bróðir Svartúlfs, sem einnig leikur á munnhörpu. Smári Tarfur leikur svo á slædgítar og Ólafur Torfi leggur til bakraddir, en hann þykir víst djúpraddaðri en Barry White á góðum degi. Umslag smáskífunnar Blóð er svo hannað af Morðingjunum sjálfum.
Sé fólk í stuði fyrir enn frekari köntríndie-legum slögurum með hrylingsmyndalegum söguþræði detta mér í hug eðallögin Country Death Song með Violent Femmes og Psycho með Beasts of Bourbon.


Pétur Ben & Eberg - Over And Over
Gæðingarnir Pétur Ben og Eberg (sem óþarfi er að kynna) hafa sett í "eina feita", plötuna Numbers Game. Þar leika þeir laflausum hala og gera það sem þeim sýnist, sem er hressilegt indie rokk, eða hvað þú vilt kalla það. Virkilega lagrænt og flott, enda toppmenn á ferð.


Ofvitarnir - Kerouac
Paradísarborgarplötur (PBP) hafa gefið út plötuna Stephen Hawking/Steve Tyler með Ofvitunum. Þar er juðast stíft á gíturunum og má hlaða plötunni niður í heilu lagi á hlekk að ofan. Opnunarlag plötunnar fjallar líklega um Jack Kerouac, sem skrifaði "Á vegum úti" (í ísl. þýðingu Ólafs Gunnarssonar) í amfetamínrússi á nokkrum dögum á einn langar pappírs-renning sem hann tróð í ritvélina.

12.07.11
Menn eru standandi klossbit og slegnir lýsingarorðaflaumi yfir nýja verkefninu hjá Björk, Biophilia, og tala um stökkbreytingu í popptónlist (eða óendanlega framsækið verk, hér er verið að brjóta blað í tónlistarsögunni, það er alveg klárt,“ o.s.frv.) Víst er þetta spennandi (þótt leiðinlegt geti verið að jarma með þegar allir eru komnir í geðveikt yfirdrif í jarminu) og ekki hægt að segja annað en Björk sé sífellt á tánum og ekki í stuði fyrir eitthvað auðvelt hjakk eða dútl. Sé þessu snúið upp á kvikmyndabransann er Björk nú að gera einhverskonar David Attenborough þáttarröð í Imax (um eðli og tengsl náttúru og tónlistar (hafi ég náð þessu rétt (þetta er dáldið flókið, jú sí – ekkert svona „Ný plata sem minnir á Volta krossað með Medúllu))) á meðan flestir aðrir búa til rómantískar gamanmyndir eða spennumyndir eða annað innan rammgerðar flokkaskiptingar. Menn verða þó að hafa vaðið fyrir neðan sig og spyrja: Er þetta skemmtilegt? Nenni ég að hlusta á plötuna oftar en einu sinni á meðan ég gapi yfir ljósasjóinu? Miðað við fyrsta lagið sem lekur út, Crystaline, þá ætti það ekki að vera neitt vandamál – það er hið fínasta lag, en ég heyri reyndar ekki blað tónlistarsögunnar brotna við þetta eina lag, per se. Niðurstaðan er því: Skyldumæting á Hörpuna í okt! 

11.07.11

(Gömlu eftir gigg, mynd: Ægir Freyr Birgisson)
S. H. Draumur lék á Eistnaflugi á fimmtudaginn og átti vænan sprett við fornar rímur. Við Biggi vorum búnir að hanga hjá Steina á Egilsstöðum í heilan dag við æfingar og café latté þamb á einu besta kaffihúsi landsins, Café Valný á Egilsstöðum. Þar er café lattéið alveg frábært og hið goðsagnakennda túnfiskssalad á sínum stað:

Eftir að ég fékk þetta salad í fyrri æfinarhrynu í fyrra hef ég fengist við Café Valný túnfiskssalads-gerð í heimahúsum og vakið mikla lukku.

Café Valný túnfiskssalad:

1 dós af góðum túnfiski í olíu (ekkert aumingja Euroshopper rusl heldur betri tegund)
1 lítill rauðlaukur skorinn smátt
1 lítil dós maísbaunir
1/2 krukka af Feta osti (bláum frá MS)

Öllu hrært saman í skál. Borðað ofan á ristaðri beyglu með hvítlauks-sýrðum rjóma upp á grín. Þetta hljómar kannski ekkert svakalega spennandi er smakkast alveg rosalega vel engu að síður.
---
Margar háleitar hugmyndir voru uppi með þessa ferð fyrirfram og ég búinn að kaupa göngutjald og útivistarmat í rammgerðum poka. Við ætluðum fyrst að fara fjórir, vera á jeppa og ganga Víknaslóðir eftir giggið, tjalda í Loðmundarfirði og hvað eina. Allt fór þetta öðruvísi, við Biggi vorum bara tveir (+ Orri hundur), vorum á mínum bíl (sem kemst varla af malbiki) og svo var svo snjóþungt á þessum Víknaslóðum að okkur var eindregið varað við að labba einu sinni að stórundrinu Stóru Urð. Hin mikla útivist skrapp því saman í það eitt að gista eina nótt í Skaftafelli og ganga að Svarta fossi.


Í staðinn var dólað um firðina í þægindum bílsins og kíkt á meistara og þefað uppi café latte. Ég álpaðist í vitlausa átt úr úr Djúpavogi og keyrði þá fram á hús, Hvarf, þar sem allt er vaðandi í beinagrindum, steinum og útskornu timbri.  Reyndist þetta vera sölugallerí stórmeistarans Villa: Bones, Sticks and Stones gallery. Þetta er nú alveg náungi sem kallar á Út og suður spesíal um sig. Býr þarna og selur ferðamönnum bein, steina og útskorin listaverk.


Mig dauðlangaði að kaupa ýmislegt en Villi tekur náttúrlega ekki kort svo það bíður betri tíma. Glæsilegt aðdráttarafl við veginn!
---
Við höfðum komið hringveginn norðan megin. Stoppað á Akureyri þar sem ég keypti þrjár plötur sem mig vantaði í safnið á slikk í nýrri forngripabúð nálægt Brynjuís. Fröken Blómfríður heitir hún og kemur á harðri samkeppni við hina klassísku Frú í Hamborg í miðbænum. Þetta voru Lifun með Trúbrot, Drög að sjálfsmorði og fyrsta platan með Megasi (3ja pressan á vegum Demant útgáfunnar). Ástand sæmilegt, en maður fær þessar plötur ekki svo glatt, hvað þá á 2.500 kr stk.

Á suðurleið tékkuðum við næst á Horni en þar er ægifögur fjallasýn. Við fundum hvergi eyðibýlin sem eiga að vera þarna (skv Páli Ásgeiri og bók hans), en sáum ratsjárstöð Kanans (en þorðum ekki að skoða í návígi, enda bannskilti og myndavélar í gangi (að sögn)) og mikla víkingaþorpsleikmynd sem True North mun hafa reist árið 2009 (þorðum heldur ekki heldur að skoða það – enda bannskilti). Hin gríðarmetnaðarfulla leikmynd var reist vegna víkingamyndar Baltasars sem hefur ekki komið til framkvæmda ennþá svo ég viti.

Svo var tjaldað í gráum sudda í Skaftafelli og sofið. Meiningin var að dóla sér suður á laugardaginn en þá var hringvegurinn náttúrlega orðinn lokaður (takk þarna Múlakvísl fáviti) og allt klabbið tekið til baka norður fyrir á ný. Það var nú ekki eins skemmtilegt. Fengum að gista hjá Oddnýju systur á Akureyri og svo í bæinn, 2200 km að baki. Frá Akureyri bar þetta skilti helst til tíðinda:


02.07.11

Og þá er það næsti leikur (leikurinn í kvöld): Greifarnir - Valdimar - æsispenna á banaspjóti.
---
Var að koma úr smá ferðalagi til Ísafjarðar (í Sólskinshöllina). Að vanda var allt það besta fyrir vestan á sínum stað: Gamla bakaríið og hið klassíska gúmmilaði þar og hið ótrúlega æðislega hlaðborð í Tjöruhúsinu þaðan sem maður valt út úr gellaður á því. Ég hef aldrei borðað svona margar gellur áður. Nei, ég hef bara aldrei borðað gellur áður. Hvað þá tíu steiktar. Fiskisúpan unaðsleg og allar pönnur flóandi í himneskri sælu. 4.000 kjall á mann og ókeypis fyrir börn – ég þreytist ekki á að lýsa því yfir að Tjöruhúsið er besti veitingastaður landsins.

Hólmakaffi er ágætt kaffihús í Hólmavík. Kaffi latté-vélin var reyndar biluð.

Var á ættarmóti á Reykjanesi (sundlaugin þar er geðveik). Hér eru tveir góðir nemendur frá fyrri tíð:


Og einn til, nokkru síðar, sjálf Sleggjan:


Gerði einnig mjög gott stopp í Heydal þangað sem alltaf er gaman að koma enda veitingaþjónustan metnaðarfull og lókal. Talandi páfagaukurinn á sínum stað og við fengum að auki að handleika yrðlinga.

Sá Grænland frá Bolafjalli. Eða ég held það allavega.

Sá þrjá mjög hyrnda hrúta á förnum vegi í Skálavík. Mjög undarleg kvikindi. Kannski voru þetta kindur, en ekki hrútar. Ekki hægt að ætlast til að latté-lepjandi ræflar þekki muninn, a.m.k. ekki úr fjarlægð:


Fékk heimsins besta rabarbara-ís Chez Ylfa @ Bolungarvík. Það þurfti að bjarga verðmætum svo ég varð að éta 1 l.


Sá Transformers 3 (styrkt af ameríska hernum og bílaframleiðendum – hundleiðinleg mynd! Dagbjarti fannst hún hins vegar besta mynd sem hann hefur séð) á heimsfrumsýningu í Ísafjarðarbíói. Mjög gaman að fara í Ísafjarðarbíó, allir unglingarnir í stuði og eins og maður væri kominn í bíó fyrir svona 30 árum síðan. Vantaði bara að allir færu að reykja í salnum.

Amma Habbý er aftur flutt í skúrinn á Súðavík og farinn að gera góða hluti. Fékk fínan súkkulaði sjeik.


Simbahöllin á Þingeyri er unaðslega undursamleg. Þar fæst nú einnig kvöldmatur, fínn lambapottréttur í tagine (2.900 kr). Enn betra er þó kaffið (480 kr. latté) og belgíska vafflan með rabarbarasultu og rjóma (750 kr). Simbahöllin er algjört möst sí og vel þess virði að gera sér ferð þangað bara fyrir kaffið og vöffluna. Sundlaugin á Þingeyri er líka fín og þar fyrir utan er strangblakaðstaða. Talandi um sundlaugar: Sundhöllin á Ísafirði stendur vel fyrir sínu með góðri sauna, en ég fór ekkert sauna í Bolungarvík að þessu sinni.


Bankaði upp á hjá Sigurjóni Samúelssyni, 75 ára bónda á Hrafnabjörgum í Laugadal. Hann er einn mesti plötusafnari landsins, sérstaklega í 78 snúninga plötum (78snpl). Hefur safnað plötum í 60 ár. Hann tók mér gríðarlega vel og sýndi mér fjarsjóðinn. Hann segist eiga 7000 plötur, allar 78snpl útgáfur íslenskar, nema sjö. Hann á líka vax- eða lakkhólkaspilara (eða hvað sem þetta er kallað) – fyrirrennara 78snpl – og leyfði mér að heyra lag af einum hólki. Þetta var eins og rúllan innst í klósettpappírsrúllu, nema úr járni. (sjá: Phonograph cylinder á wiki). Það var undarlega gott sánd úr þessu en geymslurýmið á hverjum hólki mjög lítið svo þetta vék fyrir 78snpl.

Sigurjón hefur í nokkur ár safnað lögum af 78 snúninga plötunum sínum yfir á geisladiska og "gefið út". Hann tekur saman lög af 78 sn pl (þar voru yfirleitt bara 2 lög á hverri plötu) og flokkar artistana saman. Grefur upp myndir og skrifar texta um listamennina. Þetta er gríðarlega metnaðarfullt framtak hjá karlinum en svo er þetta ekki til nema í nokkrum eintökum – eða kannski bara einu sem er upp í hillu hjá honum sjálfum. Hann var með katólók-númer á úgáfunum – S.S.001 – og var kominn upp í S.S. 027. Ég var alltaf að suða í honum hvort ég gæti ekki keypt af honum diska en hann skellti skollaeyrum við því. Hann spilaði fyrir mig af diskunum sínum efni með liði eins og Sigurði Skagfield, Einari Markan, einhverjum dönskum harmóníkudúett sem gerði sér ferðir hingað á milli stríða og Bjarna Björnssyni, grínsöngvara sem var líka Hollywood-leikari og lék með Douglas Fairbanks. Ég þarf nú að kanna þetta betur. Íslenskir tónar gáfu út 2 litlar plötur með Bjarna árið 1964 og voru þá notaðar orginal 78snpl frá Sigurjóni. Bjarni mun svo hafa verið fyllibytta og lést 1942 eftir drykkjuslys.

Auk þess að vera safnari er Sigurjón dj og hefur plötusnúðast víða um land. Held hann verði m.a.s. á Ögurhátíð bráðlega. Mikill meistari hér á ferð. Ég ætla að reyna betur að fá eitthvað úr S.S. katalóknum því þetta stöff – þetta popp fyrir popp – ætti að heyrast meira.


(Sigurjón hlustar á disk. Brúni kassinn til hægri en hólkspilarinn, lokinu er svipt upp og þar fyrir innan er spilarinn. Ekkert digital rugl hér!)
---

HAM - Ingimar
Nýtt Ham lag, Ingimar, af plötunni væntanlegu Svik, harmur og dauði (væntanleg í enda ágúst). Eðal Hamlag, sem lofar góðu fyrir plötuna. Ham verða á Eistnaflugi maður.


Saktmóðígur - Nonni ninja
Saktmóðígur verða líka á Eistnalflugi maður, og S.H.Draumur (á undan Sólstöfum á fimmtudagskvöldið – gjöðveikt). (Fréttatilk): Saktmóðígur hefur gefið út 10 laga geislaplötu sem heitir Guð hann myndi gráta. Hljómsveitin sem stofnuð var árið 1991 hefur áður gefið út fimm titla á ýmsu formi; kasettu, tvær tíu tommu vínilplötur og tvær geislaplötur í fullri lengd, Ég á mér líf (1995) og Plata (1998). Auk þess hefur hljómsveitin gefið út lög á safnplötum. Útgefandi er Logsýra, en platan mun vera fáanleg á helstu sölustöðum tónlistar. Saktmóðigur mun leika á rokkhátíðinni Eistnaflug í byrjun júlí en formlegir útgáfutónleikar eru fyrirhugaðir síðar í sumar.
---
Að lokum: Væmin kerti kynna nýjustu framleiðslulínuna:


24.06.11

Næsti leikur annað kvöld: Sóló (Pétur Ben, Eyfi og Orri Harðar) á móti Spesíal (Hafdís Huld, Ellen og Hera Björk) --> Frrrrrábær þáttur!
---
Fann sprautunál á leikvelli í gær, eða næstum því: Nær fullan sígarettupakka (Winston bláan, hardtopp). Nú var margt í stöðunni. Láta hann bara liggja á rólunni og hætta á að börn rækjust á þennan viðbjóð. Hirða pakkann og "byrja" að reykja (samt hættulegt, það gæti hafa verið búið að setja auka ólyfjan í retturnar, t.d. striknín) eða henda í nálægt rusl. Sem og ég gerði. Svo ef einhverjum vantar sígarettur myndi ég drífa mig á rólóinn á milli Dunhaga og Tómasarhaga með hraði. Glaðningur bíður í ruslinu, en það þarf að grafa.
---

Skúli mennski - Ball
Poppstjarnan og pulsusalinn Skúli mennski er mættur með plötu nr. 2, Búgí. Hér er snarstefjað rokkabillístuð um Ball ball ball ball ball ball ball ball ball. Platan er uppfull af viðlíka stuði (að sögn). Um upptökur sáu Björn Heiðar Jónsson úr hljómsveitinni Múgsefjun og Halldór Gunnar Pálsson kórstjóri Fjallabræðra en hljóðblöndun og tónjöfnun var í höndum Sturlu Mío Þórissonar. Diskurinn fæst til að mynda á mjög hagstæðu verði í Kaffifélaginu, Skólavörðustíg, en þar fæst líka magnað kaffi eins og þú veist full vel.


Stjörnuryk - Hverjum getur þú treyst? Ásamt Sigga Breiðfjörð
Hér eru mættir einhverjir wandræðamenn að Westan með fyrstu westfirsku rappplötu sögunnar. Þetta skuggalega gengi windur sér í ýmsar buxur, mest svokallaðar kúkabuxur samt. Þeir rabba og rappa um ýmis brýn mál, og eru sem sprautunál á leikvelli. Bandið gefur sjálft út plötuna, sem er víst uppseld, en nýtt upplag er á leiðinni. Í fréttatilkynningu segir eftirfarandi: Stjörnuryk er hip-hop hljómsveit frá Vestfjörðum sem hefur haft aðsetur sitt á Ísafirði síðustu misseri. Hljómsveitin hefur gert garðinn frægan á hinni víðfrægu tónlistarhátíð Aldrei fór ég suður í tvígang síðustu ár. Hljómsveitin er skipuð fjórum galvöskum röppurum, þeim Geira, Ká eff bé, Gauti og Rattó. Þó svo að ekki hafi margar rappsveitir komið að vestan þá eru næg yrkisefnin þar, ekki bara kvótakerfið og úrelding frystihúsa heldur sumarið, almennar hugleiðingar um lífið fyrir vestan, sjálfstæði og tölvuleiki. Mikið er um gestagang á plötunni og má þá nefna þá bræður Erp og Eyjólf Eyvindarsyni (Blaz Roca og Sesar A ) sem eins og með meðlimi Stjörnuryks má rekja til Westfirzku mafíunnar. Einnig koma fram á plötunni þeir Ástþór Óðinn, Þóra Ingimars og Ramses og síðast en ekki síst MC Ísaksen sem er landskunnur sem einn yngsti rapparinn í bransanum.


Lockerbie - Snjóljón
Snjóljón? Hver andsk er það? Er það kannski Sæljón Jónsa í Sigur Rós nema bara ekki sæ heldur snjó? Hljómsveitin Lockerbie er á dramatísku rokklínunni og syngja á íslensku eins og menn. Eins og sést á myndinni hér að ofan frá Ljósmyndastofu Sigursveins eru þetta velgreiddir menn sem eiga vandaðar skyrtur og því til alls líklegir. Í fréttatilkynningu segir eftirfarandi: Strákarnir í Lockerbie hafa unnið að plötunni í eitt og hálft ár og lagt mikinn metnað í hana. Ævintýrið byrjaði þegar hljómsveitin var valin ein af sigursveitum Sumarkeppni Rásar2 og Sýrlands, síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, mikil umfjöllun hefur verið um hljómsveitina erlendis, bæði í virtum tónlistarbloggum á netinu og í fjölmiðlum, hljómsveitin var meðal annars valin sem hljómsveit vikunnar í kúltúrþættinum Breitband hjá Christian Grasse í Þýska Ríkisútvarpinu. Útgáfudagur plötunnar er 7. júlí 2011. Platan er 10 laga og ber heitið Ólgusjór. Record Records gefur út.


Smorri Helgason - River
Snorri Helgason er kominn með ég-hef-búið-í-fjallakofa-í-Kanada skegg og er reddí steddí gó með aðra sólóplötuna sína, Winter Sun. Í fréttatilkynningu stendur eftirfarandi: Platan mun koma út á Íslandi í lok júlí á vegum Kimi Records. Lagið er hugljúfur söngur um lífsins farvegi. Um upptökur sá Sindri Már Sigfússon (Seabear, Sin Fang). Við flutning lagsins nýtur Snorri góðrar aðstoðar Sigurlaugu Gísladóttur (Mr. Silla, Múm) sem sér um bakraddir, Guðmundar Óskars Guðmundssonar (Hjaltalín, Borko) sem sér um bassaleik og Sóleyjar Stefánsdóttur (Sóley, Seabear, Sin Fang) sem sér um píanóleik. Sjálfur sér Snorri um söng, gítarleik, áslátt og munnhörpuleik.

23.06.11
Það vantar alla eftirfylgni í fréttir hérna. Blaðamenn (nefni engin nöfn) eru svo á hrikalega tánum að fréttir snúast oftar en ekki um eitthvað sem einhver er að spá í að gera einhvern tímann. Til dæmis: Blaðamaður kemst að því Dj Oldskunk og tenórinn Kristmundur Hall hafi í hyggju að gera plötu saman. Þessu er slegið upp. Þegar svo platan kemur út eftir 6 mánuði fær það litla sem enga umfjöllun, enda "búið að fjalla um þetta".

Eða: Eitthvað nóboddí er boðaður á fund til að ræða möguleikann á að hann verði statisti fyrir einhvern í Hollywoodstórmynd sem verður kannski gerð einhvern tímann. Svo var kannski enginn fundur og engin mynd en við fréttum aldrei af því.

Þetta er slappt, enda vill maður frekar heyra um eitthvað sem er búið að gerast og var eitthvað merkilegt, en eitthvað sem gerist kannski seinna og er ekkert merkilegt.

Það var t.d. sagt frá því um daginn að einhver ætlaði að halda eftirpartí fyrir Eagles. Ægilega fínt eitthvað, var okkur sagt. Svo komu engar fleiri fréttir af þessu enda var þetta víst algjört rugl. Helst bar til tíðinda í svokallaða eftirpartíinu að eitthvað par ákvað að eðla sig fyrir framan gesti og einhver kona drapst í reykaðstöðunni. Lá hún þar í klukkutíma án þess að nokkur væri að spá í því. Að sjálfssögðu mætti enginn úr Eagles. Frásögn af þessu eftirpartíi hefði verið gott stöff, amk mun betra en fagurgali um það hversu partíið yrði flott áður en það var haldið.

Þetta sama kvöld sveimuðu víst Ernur um ganga Nordica í leit að góðu geimi. Höfðu þær ekki árangur sem erfiði. Mikil sala hefur eflaust verið á T-bolum á gigginu. Ég er a.m.k. búinn að sjá tvo stæðilega karlpunga í Eagles bolum upp á síðkastið.
---
NPR er National Public Radio í USA og alveg fantafín stöð og ekki síður netsíðan þeirra. Þar er oft hægt að stríma glænýjar plötur. Nú er ég til að mynda að hlusta á tribjútplötuna Rave on Buddy Holly þar sem lið eins og Palli Makk, Pattí Smith og The Black Keys riðlast undurblítt á lögum meistarans. Ekkert slor skal ég segja þér, þótt originalarnir séu nú alltaf bestir. NPR síðan er svo framsýn að hún er búin að gera bestu plötur ársins lista (só far) sem er hér.
---
Önnur verí næs músíksíða er náttúrlega Pitchfork. Ef þú vissir það ekki þá er hér hann Jói í Apparat í "spurt úr spjörunum".
---
Þetta er súperfrétt. Eþópískur veitingastaður á Flúðum! Nú hefur maður loksins eitthvað til Flúða að gera (fyrir utan að fá sér grænmeti, meina ég). Ég sé fyrir mér eðal bíltúr - Fyrst í kaffi og handverk í Sólheimum, þá í dýrin í Slakka og svo í eþópískt á Flúðum.
---

Ruddinn - Music Theory
Bertel Ólafsson, aka Ruddinn, er reddí með plötu, I need a vaction, þar sem Heiða syngur nánast öll lögin. Hér er tóndæmi. Bertel er dagfarsprúður maður og alveg sérlega indæll (segir í fréttatilkynningu) svo listamannsnafnið Ruddinn er nokkuð ólíkt hans ekta sjálfi en það bærist náttúrlega fól í öllum. Bertel hefur fengist við tölvuskotið hljóðgervlapopp í anda New Order, OMD og Pet Shop Boys með nettum áhrifum frá breskri nýbylgju á borð við Joy Division. Þetta lag mun vera einkennilegur óður til manna sem eru að vaxa upp úr djamm aldrinum og gráu hárin spretta fram. Það er Aron Arnarsson sem sér um hljóðvinnslu og tónjöfnun.

Heiða er svo náttúrlega með fleiri járn í eldinum því hin drullufína Hellvar plata Stop that noise er reddí og í fjöldaframleiðslu as ví spík. Og já: Hellvar (+ Nóra og Vigri) spilar á Faktorý annað kvöld).
---

Áríðandi:
Kristján Freyr Halldórsson (Prins Kristján) trommuleikari Prinspóló á afmæli í dag (48 ára) og í tilefni dagsins ætlar Prinspóló að setja á fót   Prinsaskóla þar sem meðal annars verður kennd listin að smjatta og ný tækni við að klippa neglur með tönnunum. Eftir skólasetninguna verða tónleikar þar sem Prinspóló og Sóley stíga á stokk. Athöfnin fer fram klukkan 17 í dag fimmtudag í almenningsgarðinum fyrir framan Kaffistofuna á Hverfisgötu 44 við hliðina á Kling & Bang og Útúrdúr. Jafnframt er þetta síðasti sýningardagur á Snúiðútúr sem Sóley Stefánsdóttir og Héðinn Finnson hafa sett upp í Kaffistofunni. Og síðast en ekki síst er bókverkaverslunin Útúrdúr með opnun á nýjum   verkum. Við ítrekum mikilvægi þess að setja í stöðumælinn en minnum jafnframt  á fjölbreyttar almenningssamgöngur ss svifbretti og handahlaup. Það eru allir velkomnir og við hlökkum til að sjá ykkur.
Samstarfsnefnd Prinspóló  
Heyrið 3xNiðrá strönd hér.

22.06.11

Það er nú meiri helvítis viðbjóðurinn sem er alltaf að koma upp varðandi börn og stofnanir þjóðfélagsins. Maður er dauðlifandis feginn að hafa alist upp og komist til manns án þess að verða fyrir sadisma í skóla, kynferðislegu ofbeldi, einelti – eða orðið áfengi, eiturlyfjum eða skipulögðum íþróttum að bráð. Það er eiginlega frekar að kennararnir hafi verið beyttir sadisma af krakkadjöflunum – ekki mér samt náttúrlega.

Í Kópavogsskóla frá 6-12 ára kenndi mér Anna Mjöll – aka Anna kennari (sjá mynd að ofan með strákunum í D-bekknum, líklega 11 eða 12 ára bekkur. Það voru nokkrar stelpur í bekknum en þær hafa líklega allar verið með skarlatssótt þennan dag). Þetta er samfellt glæsiskeið enda Anna besti kennari í heimi og allir í bekknum þægir sem ljós. Ég á ekkert nema fallegar minningar um tímann með Önnu, drekkandi djús á meðan hún las Bob Moran í drekkutímum eða þegar hún huggaði mig eftir að Vilmundur kýldi mig í andlitið, en það var nú bara af því að strákarnir voru búnir að ákveða að það ætti að vera "slagur". Löngu síðar sá ég Önnu á pósthúsinu í Kópavogi og hún hafði ekkert breyst. Ég kom ekki upp orði og gat ekki einu sinni spurt hvernig hún hefði það og hvort hún væri ennþá að kenna og eitthvað. Skammarleg frammistaði.

Í gaggó fóru allskonar vitleysingar að kenna okkur. Ég man þó bara sáralítið eftir þeim árum, enda eins og þau þrjú ár séu algjörlega þurrkuð úr minni mínu. Einn stærðfræðikennari hét (eða heitir) Ellert og var alltaf fremur óþolinmóður. Hann ætti það til að rjúka út með taktíkinni "ef þið þarna stelpur þegið ekki þá er ég farinn". Auðvitað var hann því alltaf rjúkandi út í kasti. Einu sinni sagði Böbbi "Dúfa" þegar hann rauk út "Komdu aftur, það er svo gaman þegar þú ferð" og varð sú setning fleyg. Annars voru flestir kennararnir í gaggó með viðurnefnið "Slef". Dóri Slef, Sigga Slef og svo framvegis. Ekki það að þau hafi slefað svona mikið heldur heyrðist slefhljóð í töfflunum þeirra með hrágúmmíbotnunum þegar þau gengu um gangana. Er þetta til marks um sadisma krakkadjöfla. Merkilegt í gaggó líka að það þótti allt í lagi að nemendurnir reyktu. Það var meira að segja reykingaraðstaða í einni álmunni þar sem ný fermdir krakkadjöflar strompreyktu í stækju. (Sjálfur "byrjaði" ég ekki að reykja fyrr en svona 10 árum síðar).

Í Menntó hélt sadismi nemenda áfram. Viðkvæmur frönskukennari rauk oftar en ekki grátandi út og svona allskonar. En sem sé, þetta er nú bara fyndið, enda á "hinn veginn" – Davíð má drepa Golíat og allir sáttir.
---
Nú er ég búinn að vera dálítið duglegur að lesa og gera allskonar sem ég get sett snyrtilega í undirflokka bloggsins. Til að spora þér sparin koma hér helstu niðurstöður:

Keypti Pussy í Kosti. Karlpungar geta ekki annað en kyppt með sér dós af Pussy, enda er þetta ágætt á bragðið og aðeins öðruvísi en þetta vanalega orkudrykkjasull. Nánar í GOS.

Bridesmaids er toppklassa grínmynd sem rúllar upp rusli eins og Hangover og öllum þessum fyrirsjáanlegu gilli gilli hlæ hlæ myndum. Jamm, myndin er fersk. Einlæg, nokkuð gáfuleg og helvíti fyndin. Það er m.a.s. atriði þarna sem minna á vintage John Waters. Fullt af leikurum að gera góða hluti, þá sérstaklega aðalleikkonan Kristen Wiig, sem skrifaði líka handritið. Vonandi gerir hún meira gott í framtíðinni. Leikstjórinn Paul Feig hefur aðallega unnið í sjónvarpi, t.d. leikstýrt amerískum The Office þáttum (sem eru oft mjög góðir).

Böðlast í gegnum Lömuðu kennslukonur Guðbergs. Kaflalaus bók (þ.e. hún er bara einn langur kafli) og mikið masað á Guðbergískan máta, helst um ríðingar á Ítalíu. Allt létt og hressandi. Fyrst ég kláraði bókina fær hún 3 stjörnur, enda klára ég ekki bækur fyrir minna. Ég hafði það upp úr lestrinum að mig dreymdi að ég væri að vinna sem nuddari á vafasamri heilsulind (í hvítum sloppi). Þangað kom Guðbergur og ég fékk það hlutverk að gefa honum vafasamt nudd. Ég vaknaði því miður áður en hitna fór í kolunum.

Las Konur Steinars Braga í sumarbústað. Byrjar svona nokkuð skynsamlega eins og bland af Eyes Wide Shut og þarna Húllembekk eða hvað hann heitir – fyrring nútímans bla bla. Hryllingsfirring. Nokkuð fínt. Svo fór þetta allt á myrkt og dulmagnað (og ljóðrænt?) flug og ef maður segir "ég skil þetta nú bara ekki" er maður fífl og því segir það enginn. Og alls ekki ég. Jæja, það var annað hvort það eða taka Hollywood á'etta og láta aðalsöguhetjuna Evu breytast í einhverja hryllingsmyndahetju eins og hún væri í Saw. Mér leiddist þó alls ekki yfir þessari bók og ætla að taka annan Steinar Braga með í næsta bústað. Er búinn að gera hagstæð "innkaup" í bókasafninu og er tilbúinn í meiri lestur með gott bland af nýlegum íslenskum skáldsögum, sem ég hef verið helvíti lélegur við að lesa – "Ekki gefið mér tíma". (Ekkert svo mikið nánar í MENNINGARAFURÐIR.)
---
Þeir örfáu sem misstu af stórkostlegum þætti okkar Felixar um íslensku stuðlögin geta hlustað á þáttinn hér. Þetta varð annars niðurstaðan, Topp 20, svo öllu sé haldið til haga:

1.    Sódóma - Sálin hans Jóns míns   
2.    Barfly - Jeff Who
3.    Partýbær - Ham   
4.    Luftgítar - Johnny Triumph & Sykurmolarnir
5.    Gaggó vest - Gunnar Þórðarson/Eiríkur Hauksson   
6.    Ég elska alla - Hljómar       
7.    Jón var kræfur karl og hraustur - Þursaflokkurinn   
8.    Fjöllin hafa vakað - Egó       
9.    Tætum og tryllum - Stuðmenn   
10.    Sísí - Grýlurnar       
11.    Þú komst við hjartað í mér - Hjaltalín
12.    Mýrdalssandur - GCD   
13.    Can't Walk Away - Herbert Guðmundsson   
14.    Húsið og ég (mér finnst rigningin góð) - Grafík   
15.    Stick 'Em Up - Quarashi       
16.    Útihátíð - Greifarnir   
17.    Rúdolf - Þeyr   
18.    Popplag í g-dúr - Stuðmenn   
19.    Betri tíð - Stuðmenn   
20.    Inní mér syngur vitleysingur - Sigur Rós
---

Steve Sampling - The Optimist
Þetta er titillag fjórðu sólóplötu Herra Sampling. Platan er sú fyrsta sem er í raun aðeins samin í dansvæddu umhverfi og bíður upp á allt frá electro, trip hop og dubstep. Platan mun verða til sölu á www.tomtomrecords.com en er seld hér núna: http://stevesampling.bandcamp.com/

17.06.11

Tóti trúður var að gera góða hluti á 17. júní. Var með mjög vírað sjó í Hljómskálagarði. Hér ekur hann í burtu eftir gigg. Þetta gæti þá alveg verið mynd úr hryllingsmyndinni Trúðurinn. Og kynningalínan væri: Trúðurinn. Þorir þú upp í?

17.06.11
Mæli með rúmlega 3ja tíma Stuðþætti, sem ég og Felix sjáum um á Rás 2 í dag. Spilum 50 mestu stuðlög íslensku þjóðarinnar, skv. niðurstöðum könnunar, og ræðum við marga af þeim sem eiga hlut að máli. Þetta gríðarlega stuðprógramm hefst á eftir 12:20 fréttum og stendur til kl. 16.


Svo er það Popppunktur annað kvöld. Nú er komið að Melchoir og Todmobile að keppa í æsilegum leik.


Vigri - Awakening
Vigri flokkurinn er að gera góða hluti á Pink Boats, fyrstu plötunni sinni. Þetta eru einhverjir strákar út í bæ að spila fína suðu, sem hljómar einhvers staðar á milli Sigur Rós, Coldplay og Fleet Foxes – eða er a.m.k. í likum fílingi. Hér er fyrsta lag plötunnar, en bandið gerði ægifínt gosöskufoksvideói (nú mun þessi síða birtast þeim fjölmörgu sem gúggla gosöskufoksvideó) í fyrra við lagið Sleep. Vigri er annars hér á Facebook og vonandi fær bandið þá athygli sem það á skilið fyrir þessa plötu.

10.06.11

Þá er það Popppunktur annað kvöld: Blússystkinin í Klassart á móti víkingametalmönnunum í Skálmöld. Argandi leikur þar sem barist verður á banaspjótum. Ekki missa af þessu!
---
Gerðum okkur svo glaðan dag í gær að það mætti halda að góðærið væri komið aftur. Lufsan er að útskrifast sem þroskaþjálfi svo við fórum í svokallaða Heimsreisu hjá Fiskfélaginu. Fyrir 8900 kr. á mann var borinn í okkur hver rétturinn á eftir öðrum með útskýringum og staðsetningu. Maður átti að "ferðast um heiminn" með bragðlaukunum. Þetta var ægilega gott og hverrar krónu virði. Fiskmeti og kjötmeti og grænmeti og englamauk í eftirmat. Maður valt út tveimur tímum síðar og bjóst við að fólk að berja tunnur tæki á móti manni fyrir utan fyrir að vera svona mikið svín og hugsa ekki nógu mikið um skuldir heimilana.

Fiskfélagið er töff staður og þjónustan næs. Túristar sem litu út eins og jarðvísindamenn meirihluti gesta. Ég þarf þó að minnast á að heimsreisan sem slík stóð ekki undir nafni því aðeins var boðið upp á evrópska rétti og einn amerískan (nautasteik með frönskum deluxe). Hvar voru fulltrúar afríku, asíu og eyjaálfu? Ég er ekkert að kvarta, mér datt þetta bara sísvona í hug.
---
Hólí mólí og mamma mía! Hleypur nú á snærið því framundan er rosa finnskur músíkpakki. Og sjá:

Finnsk tónlistarveisla á Bakkus
- Fonal Records heimsækir Ísland -

Fjórar finnskar hljómsveitir heimsækja Ísland í næstu viku og munu meðal annars halda tónleika á skemmtistaðnum Bakkus laugardaginn 18. júní. Engin aðgangseyrir er að tónleikunum og hefjast tónleikar um 22. Hljómsveitirnar Es, Islaja, Jarse og Lau Nau koma fram. Þær tengjast allar hinu mjög svo framsækna og virta hljómplötufyrirtæki Fonal Records frá Tampere í Finnlandi. Fonal Records er fremsta jaðarútgáfa Finnlands og þykir bjóða upp á það besta sem er að gerast í finnskri tónlistarsenu og hafa listamenn á mála hjá útgáfunni fengið mikla athygli á alþjóðavettvangi og má þar helst nefna Islaja, Paavuhaarju, TV-resistori, Es og Kemialliset Ystävät. Ákveðin samhljómur er meðal þeirra tónlistarmanna er gefa út á Fonal og má rekja hann til þjóðlagatónlistar, sækadelíu og tilraunakenndrar raftónlistar. Tónleikarnir eru liður í tónleikaferð félagsins um Norðurlöndin. Heimsókn Fonal Records til Íslands er styrkt af Kimi Records, Sendiráði Finnlands, Bakkus Bar og Nokia.


Es
Es er tónlistarlegt sjálf útgáfustjórans og eiganda Fonal, Sami Sänpäkkilä. Raftónlist Es er í senn tilraunakennd og poppuð og uppfull af allskyns skringilegheitum. http://samisanpakkila.com/

Islaja
Islaja er sólóverkefni tónlistarkonunnar Merja Kokkonen. Síðasta plata hennar, Keraaminen Pää, hefur fengið frábærar viðtökur um heim allan. Í kjölfar útgáfu hennar hefur hún komið fram á tónleikum með Animal Collective og Thurston Moore. Tónlist Islaja má reyna að flokka sem þjóðlagarafpopp undir sækadelískum áhrifum. http://islaja.com/

Jarse
Jarse er sólóverkefni Jari Suominen, en hann hefur getið sér gott orð með sveitum á borð við Shogun Kunitoki og Kiila. Tónlist Jarse er ekki ólík samstarfsmönnum hans hjá Fonal, þjóðlagaskotin raftónlist undir sækadelískum áhrifum. http://www.facebook.com/pages/Jarse/136216963083922


Lau Nau
Lau Nau er hliðarsjálf Lauru Naukkarinen. Lau Nau leikur þjóðlagaskotið skrýtipopp og er hljóðheimur hennar uppfullur af ólíklegum hljóðfærum og umhverfishljóðum. http://www.haamu.com/launau/

Hægt er að hlusta á músík með öllum þessum listamönnum á Soundcloud síðu Fonal.

08.06.11

Nú fer hver að verða síðastur að taka þátt í valinu á STUÐLAGI ÍSLENSKU ÞJÓÐARINNAR! Úrslit verða gerð heyrinkunn í sérstökum Stuðþætti á Rás 2, sem við Felix sjáum um þann 17. júní. Þar að auki ætlar Sena að gefa út sérstaka Stuðsafnplötu með helstu stuðlögum þjóðarinnar (eins og þau völdustu í könnuninni). Magnað megastuð.
---
Bolir eins og þeir sérhönnuðu hljómsveitarbolirnir sem ég er í í Popppunkti eru til sölu hjá tjé.is – Verða átta í allt, hver öðrum glæsilegri. Búinn að vera í Start bol og Einu sinni var bol.
---

Hef lokið við að lesa Svar við bréfi Helgu, sem er eftir Bergsvein Birgisson og fékk rifandi góðar móttökur í fyrra. Eðlilega, því þetta er rosa fín bók, eins konar nostal-SÍS-erótísk saga um graðan bóndadurg sem fellur þó allur ketill í eld þegar á hólminn er komið. Fyndin og sorgleg og allur pakkinn. Bergsveinn er allur í þessum gamla fílingi a la Land og synir. Hann stillir fortíðinni og hinu "sanna" sem fólk telur sig finna í púlinu í sveitum upp á móti hinu "falska" og "innantóma" sem gerilsneytt gutlið í borgum er. Eða þannig les ég hann allavega. Vinnan göfgar manninn og allt það – sem er svo sem ekki verri speki en hver önnur. Mæli eindregið með þessari bók og nú er ljóst að maður þarf að lesa hinar tvær bækurnar hans. Nú veit ég líka hvað "að sladda" þýðir!

Bergsveinn er bróðir hans Steina gítarleikara í S.H.Draumi, nokkru yngri. Hann var alltaf einn að spila fótbolta við sjálfan sig út í garði meðan við vorum að hlusta á Specials og Cure heima hjá þeim á Álfhólsveginum. Þeir bræður gerðu disk saman fyrir nokkrum árum, þar sem Bergsveinn saung og sá um slagverk en Steini spilaði á gítar. Þeir kölluðu verkefnið Sveinstein og diskinn Baðstofusaungva. Um að gera að fá tóndæmi:


Sveinstein - Hann elskaði hana
Vonandi verður ekki langt í næstu bók frá Bergsveini – hann verandi þetta fljúgandi á vængjum velgengninnar ætti forlagið að heimta bók í snatri – en bróðir hans Steini verður á Eistnaflugi eftir nokkrar vikur með hinni ekki smá guðdómlegu hljómsveit S.H.Draumi.
 
04.06.11

Fréttamennska á heimsmælikvarða í nýjasta S&H. Ég bý í húsi. Á Dunhaga! Blaðið hefur hér með svarað knýjandi spurningu sem landsmenn allir voru spyrja sig.

Ég keypti DV enda ekki á hverjum degi sem uppáhaldsrithöfundurinn er í jafn fáránlegu ég erfði milljarða-viðtali. Það er fátt skemmtilegra en Gubba-viðtöl og þetta er fínt. Annars er þetta víst allt saman della með þennan flugvöll eins og lesa má um hér.


Í Melabúðinni hafa nú þau undur og stórmerki gerst að byrjað er að selja þar ástralskan rótarbjór af Bundaberg tegund. Ástralskur rótarbjór er þó frábrugðin þeim ameríska að vera ekki eins sætur og bragðið er meira út í rammt malt. Ekki alveg málið, finnst mér, þótt það sé auðvitað stórfenglegt að geta keypt ástralskan rótarbjór í Melabúðinni.


Í Vesturbænum ber það einnig til belgsíðra tíðinda að Ísbúð Vesturbæjar hefur fengið blússandi samkeppni. Ísgerðin hefur opnað hjá JL húsinu, við hliðina á Subway. Ísgerðin er sömu gerðar og hinn ofurvinsæli Yoyo-ís á Nýbýlavegi – maður blandar ís og nammi eins og vitlaus sé og borgar eftir vigt, 159 kr/100 gr, sem mig minnir að sé 10 kr ódýrara en hjá Yoyo. Annars ætla víst Yo yo bráðum að opna útibú í Domus Medica svo maður er alls staðar umkringdur freistingum. Ísgerðin er mjög flott og ísinn góður, súkkulaðisósan er til að mynda alveg svínslega góð.

Vesturbærinn er svo alveg að farast af flóamörkuðum um helgina. Í dag er enn og aftur markaður á Eiðistorgi, en á morgun eru tveir markaðir: Einn á Túngötu  frá Hofsvallagötu að Bræðraborgarstíg, og hinn á Borgarstíg á milli Seljavegar, Framnesvegar og Holtsgötu. Brjálað að gera sem sé.
---

Hvanndalsbræður - Ferðalag
Henti í eitt stk. megasmell fyrir Hvanndalsbræður. Þetta er "ferðum innanlands 2011"-lagið í ár og verður vonandi spilað í hengla í sumar. Þá kemst ég aldeilis í feitt í desember 2012 og fæ tæplega 200.000 krónur frá Stef, ef ég þekki þá rétt. Lag og texti sem sé eftir mig og mikill og góður iðnaðarrokks-fílingur í bræðrunum.


Popppunktur nr. 2 í kvöld. Hljómsveitin Ég og Mezzoforte í æsilegum æsingarleik. Þetta er auðvitað sláandi góður þáttur og jaðrar við sturlun að missa af honum.

01.06.11

Áður en ég eignaðist fyrsta barnið var ég mjög áhugasamur og spenntur að sjá hvaða tilfinningar upplifunin myndi hafa í för með sér. Hvernig er þetta eiginlega? Ég hélt ég gæti lesið um það í bókum eða spurt einhvern að því. Það reyndist ekki hægt og allt kom þetta í ljós með tímanum. Hverjum manni er þetta persónuleg upplifun, en ég hef jafnan líkt þessu við að færast upp um borð í tölvuleik. Super Mario þá helst því það er einu leikurinn sem ég hef spilað, minnir mig. Ég komst reyndar aldrei lengra en í 3ja borð.

Maður nennir allavega ekki lengur að vera að gera það sama og maður gerði í gamla borðinu og fer að pæla í öðru. En svo langar manni seinna að gera eitthvað aftur úr gamla borðinu og þá verður það margfallt þakklátara þegar maður kemst til þess. Æi, eitthvað svona.

Ég var líka drullukvíðinn, ekki síst fyrir því að þurfa að fara að vesenast í bleyjum og kúk, enda aldrei fengist við slíkt áður. Mér datt það snjallræði að kaupa mér svona sundmanna Nike nefklemmu í apóteki. Það reyndust kjarakaup og ég var fær í flestan sjó með klemmuna. Klemman dugði á bæði börnin.

Körlum fannst klemman sniðug en konum fannst eins og ég væri að svíkjast undan með að vera ekki varnarlaus með nefið ofan í ilvolgum bleyjunum. Fussuðu og sveiuðu, sögðu mig kveif og töldu það líklega fullkomna móðurástina að geta lyktað úr bleyjunum án þess að blikna. Annað væri svik við hina heilögu móðurást.

Nú eru allir hættir að kúka í sig og nefklemman fjærri góðu gamni.
---

Hér má hlusta á samnefnda plötu með hafnfirsku hipparokkurunum í Spacevestite. Hið alþjóðlega stórfyrirtæki Ching Ching Bling Bling hefur gefið út fyrstu plötu Spacevestite og segir í tilkynningu:
hey öll
gaurinn sem er að mála baðherbergið mitt er í þessari hljómsveit!!!
http://www.myspace.com/spacevestite
og þeir tóku upp plötu fyrir 2 árum og hafa ekki enn gefið hana út
check it out. mega stöff. did i say mega? i meant MEGA!
P.

Síðan þessi póstur var ritaður linnti CCBB ekki látum fyrr en dreifingarsamningur náðist og hafnfirsku hipparokkararnir í Spacevestite bættust við skrautlega artistaflóru labelsins.
Platan sem ber nafn bandsins er nýmasteruð en hafði legið í geymslu í 2 ár vegna þess að hljómsveitarmeðlimir fór í sitthvora áttina eftir að upptökum lauk. Það voru Benzin bræður sem tóku upp.
Platan hendir manni umsvifalaust í tímavélina sem opnast einhversstaðar á ströndum Kalíforníu á sjöunda áratugnum og ekkert nema gott partí framundan.
http://chingchingblingbling.bandcamp.com/album/spacevestite

ps: Þessir strákar hafa verið að spila reglulega, aðallega á Dillon og þá oftar en ekki undir nafninu Mighty Good Times.

31.05.11

Í tilefni útgáfu bókarinnar Stuð stuð stuð – Rokk og popp á Íslandi 1950 – 2010 leitar Rás 2, í samvinnu við hinn virta og dáða rithöfund Dr. Gunna, að stuðlagi íslensku þjóðarinnar.
Landsmenn hafa valið 50 lög sem keppa um þessa eftirsóttu nafnbót og geta nú valið 5 stuðlög úr listanum sem er birtur hér. Lagið sem fær flest atkvæði hlýtur nafnbótina Stuðlag íslensku þjóðarinnar. Úrslitin verða svo tilkynnt í sérstökum stuðþætti í umsjón Dr. Gunna og Felixar Bergssonar á Rás 2, þjóðhátíðardaginn – 17.júní.
---
Jamms. Er sem sé búinn að skrifa hina hnausþykku bók og næstu mánuðir fara í að safna myndum í hana. Þetta verður gríðarlegt ferlíki, líklega um 500 bls og nokkur kíló af stuði. Stefnt er á svokallaða kaffiborðsbók, rosalega flotta og æðislega, og því nauðsynlegt að vandað sé til útlits og mynda. Það er fjallað um nánast allt popp og rokk frá 1950 til vorra daga í bókinni og því auglýsi ég hér með eftir myndum í hana. Ef þú átt flottar myndir sem passa af bandinu sem þú varst í eða pabbi þinn eða amma þín þá er bara að dæla þessu á mig í emaili. Myndir og plaggöt, plötuumslög og allskonar. Allt er vel þegið!
---

Lítið eitt - Tímarnir líða og breytast / Lítið eitt - Háar öldur
Þá er komið að framlagi Lítið eitt til Bob Dylan lagagerðar á íslensku. Fyrst taka þau titillagið af LP plötu Dylans,The Times They Are a-Changin', frá 1964. Íslenskan texta gerði Hörður Zóphoníasson. Svo er það "Háar öldur" af seinni plötunni (Til hvers 1975), íslenskan texta gerði Valur Óskarsson. Ég er ekki skárri í Dylan-fræðum en það að ég veit ekki hvaða lag þetta er. Dylan fræðingar mega segja mér það! --> Hva'! Þetta vita nú allir. When The Ship Comes In. Af sömu plötu, The Times They Are A-Changin'.

Lítið eitt – þau Berglind Bjarnadóttir, Jón Árni Þórisson, Gunnar Gunnarsson og Steinþór Einarsson – voru á fullu í íslensku þjóðlagabylgjunni eftir 1970 og komu út einni 7" EP auk þessara tveggja stóru. Söngkonan Berglind lést fyrir aldur fram árið 1986 og eftir því sem ég kemst næst hefur hljómsveitin ekki komið saman aftur eftir að þjóðlagastússinu lauk um miðjan 8. áratuginn.

30.05.11

Summer in the city eins og John Sebastian söng. Nóg að dúllast sé maður í stuði. Í Listasafni Íslands er sjö metra kónguló eftir einhverja ævagamla franska kerlingu, LB. Mjög gott. C is for Cookies er gott og hagstætt kaffihús á Óðinstorgi. Upprúllaðar sykurpönnukökur á 100 kr stk. – geri aðrir betur. Kolaportið classic. Harpan kemur ágætlega sterk inn. Sá KK og Þorleif á ganginum og Lay Low. Þau hafa verið að gera sándtékk fyrir Dylangiggið. Fólk er að segja að þetta kaffihús þarna (Munnharpan) sé eitthvað megaokur. Ég læt það nú vera. Latte á 400 kall. Mér dettur nú kannski ekki að fá mér smurt rúnnstykki á 550 kall, en latte á 400 er nú bara eins og gengur og gerist. Þarna er ný verslun 12 tóna, gasalega fín, en þess ber þó að geta að búðin á Skólavörðustíg er enn í fullum gangi. Kolabrautin á efstu hæð, gasalega fínn matsölustaður, segir fólk. Ég er á leiðinni.

Eftir að Björgólfur fór á hausinn er aftur farið að kosta inn á listasöfn. Ég borgaði til að mynda 800 kall fyrir frönsku risakóngulóna. Sýningarnar í Norræna húsinu eru eftir sem áður ókeypis vegna nordiske venner. Þar er eitthvað umhverfisgrín núna en í bókasafninu gerði ég gríðarlega góð kaup. Þar er boðið upp á norska geisladiska til sölu á 100 kr (íslenskar!) stykkið og gerði ég mér lítið fyrir og keypti norska músík fyrir 1600 kall. Ég þurfti að velja þetta eftir umslaginu því maður vissi ekkert hvað þetta er. Hér að neðan má sjá dýrðina. Nú eru eintómir norskir músíkdagar í bílnum mínum og er það spennandi. Það ert þó ljóst að það sama gerir músík merkilega á Íslandi og í Noregi. Ég hallast fremur að orginal stöffi, ekki norsku stöffi sem er sungið á ensku og á líklega, að mati þeirra sem á bakvið standa, að eiga séns inn á eitthvað ímyndað alþjóðlegt markaðssvæði. Sumt á þessu stöffi sem ég keypti á íslenskar hliðstæður, ágætis stöff en bara ekki orginal. En hey, hver er orginal? Meira um norska músík síðar, kannski.

Talandi um Norræna húsið. Fólk er að segja að þessi veitingastaður þar, Dill, sé bara alveg ótrúlega rosalegur. Maður þarf að fara að tékka á honum líka. Eins gott að ég fari að fá eitthvað afskrifað svo ég ráði við allan þennan munaðarlifnað sem framundan er.



28.05.11

Það var mikið! Fyrstu kirsuber sumarsins loksins komin í búðina. Öllu heldur í Hagkaup á 1695 kr. kílóið. Það kalla ég nú bara frekar vel sloppið. Hef séð þessi ber á hátt í 3000 kall kílóið í búðum hérna. 1695 kr/kg er samt svona 1000% dýrara en það sem gengur og gerist á þeim slóðum þar sem þessi æðislegu ber vaxa á trjánum. Þar fær maður svona á sirka 1 Evru kílóið og getur hakkað þetta í sig nakinn og þvalur á hótelherbergi í kílóavís. Mjög temmileg kirsuberjahökkun getur átt sér stað á þessu verði, en þó nokkur hökkun þó, enda eru þessi ber bara svo rosalega góð. Og sendingin í Hagkaup var fersk og berin stökk undir tönn. Það er náttúrlega bara svona að búa á afskrekktri eldfjallaeyju. Dót sem kostar lítið út í heimi kostar meira hér, en dót eins og skyr og harðfiskur og heita vatnið og rafmagnið kostar minna. Jú vin som og jú lús som, eins og sagt er, vilji maður hljóma kæruleysis- og gáfulega. Ég sé fram á enn frekari kirsuberjahökkun mjög bráðlega, nema Egill Helgason verði búinn að kaupa öll kirsuberin úr búðinni. Hann gengur nefnilega líka undir viðurnefninu Kirsuberjahakkarinn á sínum bæ.
---

Hefst þá POPPPPUNKTUR í kvöld á eftir veðrinu á Rúv. Endursýnt á eftir barnaefninu á sunnudagsmorgnum og sjáanlegt á netinu í nokkrar vikur. Þetta er í sjöunda skiptið sem við Felix rennum af stað í leit að poppfróðustu hljómsveit landsins. Sérlega mikið Eurovision-stuð verður í kvöld því Vinir Sjonna og Stjórnin ætla að berjast á banaspjótum. Við erum búnir að læna upp fyrstu umferð og velja öll 16 böndin í þætti sumarsins. Reyndar eru þetta ekki allt bönd því í fimmta leik fáum við sólólistafólk í tvö lið. Leikirnir verða sem hér segir:

1. Stjórnin - Vinir Sjonna
2. Hljómsveitin Ég - Mezzoforte
3. Klassart - Skálmöld
4. Melchior - Todmobile
5. Sóló-spesíal! (Ellen, Hera Björk, Hafdís Huld - Eyfi, Pétur Ben, Orri Harðar)
6. Greifarnir - Valdimar
7. Jónas Sig & Ritvélar framtíðarinnar - Morðingjarnir
8. Amiina - Sinfó (Eggert Pálsson, Hrafnkell Orri og Rúnar Óskarsson)
---

Ragnar Bjarnason - Svarið er erfitt
Kemur hér Raggi Bjarna af Tónaútgáfu-EP frá 1969 með sína fremur stirðbusalegu útgáfu af Blowin' in the Wind, sem Bobbi kom upphaflega með á Freewheelin' 1963. Þetta er náttúrlega eitt allra frægasta lagið hans Dylans og ekki ólíklegt að það séu til fleiri útgáfur af því á íslensku. Þennan texta gerði Hrafn Pálsson.

Stóra Dylan giggið er svo í Silfurbergi Hörpunnar í kvöld og helber vitleysa að missa af því.

27.05.11

(Úr skjalasafni Ríkisútvarpssins) – Nú er bara að finna Spak Spýjugjafa, Rósa Rottuskelfi, Spillta Spjaldskrá og Agga Aftanfrá.
---

Hjálmar - Í gegnum móðuna
Nýtt lag með Hjálmum! Suðurnesja-reggíið hefur síður en svo sungið sitt síðasta. Hér er það nýjasta af hellunni í Hljóðrita, eða eins og hljómsveitin segir sjálf: Hljómsveitin Hjálmar gefur út nýja plötu í haust en sveitin hefur dvalið við upptökur í Hljóðrita í Hafnarfirði undanfarna daga. Á plötunni mun kveða við nýjan tón sem fyrsta smáskífa plötunnar ber gott vitni um. Laginu má lýsa sem teknóskotnu reggí sem tekur snarpa u-beygju um sitt miðbik. Lag og texti er eftir Þorstein Einarsson.

 
Hannes Jón - Frænka eldfjalls og ísa
Heldur hér áfram dagskrárliðurinn Bob Dylan á íslensku. Hér hefur Talking World War III Blues af annarri plötunni The Freewheelin' Bob Dylan frá 1963 fengið íslenska meðhöndlun af Hannesi Jóni, tónlistarmanni á uppleið árið 1972 þegar fyrsta sólóplatan kom út hjá SG hljómplötum. Íslenska kvæðabálkinn gerði enginn annar en Hrafn Gunnlaugsson, ferskur á Matthildar-árunum. Þess má geta að strákarnir í Matthildi gáfu út litla plötu með Hannesi skömmu fyrir LP-ið þar sem hið dónalega lag Fækkaðu fötum var innanborðs. Lagið ásamt fleirum hafði Hannes flutt í hinum alræmda útvarpsþætti. Útgáfufyrirtæki Davíðs og félaga nefndist Ljúfan Ltd.
Svavar skrifaði læner nóts aftan á LP-plötuna, svo hljóðandi (tekið af íslensku wiki síðunni um plötuna): Hannes Jón Hannesson hefur leikið á gítar og sungið um alllangt skeið og er reyndar orðinn landskunnur fyrir. Fœrri vita, að hann hefur samið lög og ljóð siðustu árin, sem ,,líta dagsins ljós" í fyrsta sinn á þessari plötu. Þá eru hér og ljóð annarra, sem Hannes hefur gert lög við, svo sem Hudson Bay Steins Steinarr, auk þriggja ljóða eftir Hannes Björnsson föður Hannesar Jóns.
Efnisval allt á plötunni er fjölbreytt og frumlegt og fer vart á milli mála, að hlutur Hannesar Jóns á þessari plötu skýtur honum á augabragði í fremstu röð þeirra ungu manna, sem fást við tónlistarsförf af þessu tagi á Íslandi. Þau Snœbjörn Kristjánsson og Hrafnhildur Guðmundsdóttir (en hana má sjá á framhlið plötuumslagsins) aðstoða lítillega með söng. Hljóðfœraleikarar, sem koma við sögu eru Karl Sighvatsson, sem leikur á orgel og píanó (auk þess, sem hann lagði inn nokkrar góðar hugmyndir varðandi útsetningar", svo orð Hannesar Jóns séu notuð), Sigurjón Sighvatsson, sem leikur á bassa, Magnús Magnússon, sem leikur á trommur og Björn R. Einarsson, sem leikur á trombón í því kostulega lagi Jósefína. Hannes Jón leikur á gítar og fleiri strengjahljóðfæri auk munnhörpu og útsetningar gerði hann allar.

Hannes Jón - Hvatning
Hannes var í þjóðlagatríóinu Fiðrildi fyrir sólóið og gekk svo í Brimkló eftir sólóið. Tók þátt í fyrstu fimm árum sveitarinnar og var með á fyrstu tveimur plötunum. „Ég kom með kántrítónlistina í Brimkló," sagði hann í viðtali við Ásgeir Tómasson í DV 1992 þegar önnur sólóplatan hans, Kærleiksblóm, kom út. „Ég fór upphaflega í Ameríska bókasafnið og komst þar í spólur með bandarískri tónlist og þar var til dæmis að finna úrvals kántrí sem við æfðum og fluttum. Eitthvað af þeirri tónlist kom út á fyrstu plötu Brimklóar. Til dæmis lagið Stjúpi."
Samkvæmt þessum riþma – þ.e. að það líði 20 ár á milli platna – ætti þriðja sólóplata Hannesar að koma út á næsta ári, 2012. Hvatning er opnunarlag fyrstu plötunnar, grúví lag með bandi og fer Kalli Sighvats á kostum á Hammondinu. Lögin á plötunni eru annað hvort band að spila eða einmana kassagítar og rödd. Fín plata!

26.05.11
Ég er búinn að vera í akkorði við Popppunkts-tökur í einangraðasta kjallara landsins og ekki litið mikið upp. Held samt að aðalfréttin sé sú að krakkar séu mikið að sprauta sig og bændur að moka ösku út af þessu hundleiðinlega eldgosi sem er sem betur fer búið. Heyrði hægri sinnaðan gárunga halda því fram að eldgosið hafi hætt eftir að Ögmundur og Jóhanna fóru austur og höfðu lamandi áhrif á það. Svo er skæður faraldur í Mosfellsbæ sem lýsir sér í að brjáluð hundkvikindi bíta bréfbera. Bréfberarnir fara á spítala, hundarnir í atferlismeðferð, en krakkarnir halda bara áfram að sprauta sig, enda er víst svo ægilega unaðslegt að finna læknadópið renna um æðarnar og lítið um "úrræði" í kerfinu handa svona krökkum. Engar atferlismeðferðir í boði nema fyrir brjáluð hundkvikindi. Svo eru gamalmenni dofin af vanrækslu á elliheimilum sem má ekki nefna á nafn því þá fæst enginn til að vinna þar. Svona er Ísland í dag, eins og kerlingin sagði. Ofan á allar þessar svartnættisfréttir varð reyndar ekki heimsendir en Dylan varð sjötugur. Það meikaða nú ekki svo hroðalega mikið diff fyrir mig, en ég mæli með XTC - All along the Watchtower (læf - en var á fyrstu plötunni með þeim) og gullfallega upptöku af  Grýlurnar - Don't Think Twice (læf - ekki hef ég nú hugmynd um hvaðan þetta er - líklega frá útlöndum).

Já, Poppppunktur einmitt. Fyrsti þáttur af 7. skammti birtist í kassanum heima hjá þér á laugardagskvöldið. Þá verður ennþá Eurovisionstemmari því Vinir Sjonna og Stjórnin ætla að takast á í hörku leik. Ef þú missir af því verður þetta endursýnt á sunnudagsmorgun kl. 10:20 og verður eflaust líka á netinu hjá Rúv. Hef vitanlega búið til heimasíðu fyrir nýju seríuna.


KJARR - Beðið eftir sumrinu
Hljómsveitin Ampop virðist vera komin í langt frí og menn að gera annað. Jón Geir trommari er í Skálmöld, Birgir er á fullu í allskonar kvikmyndamúsík og nú er Kjartan farinn að gera út Kjarr og búinn að setja fyrsta lagið í umferð, þetta bráðskemmtilega lag, Beðið eftir sumrinu. Ég heyrði aðeins í honum.
KJARR er í raun prójekt sem ég hef unnið að undanfarin ár með hléum. Tók til að mynda upp grunnana fyrir plötuna, fyrir rúmu ári í Hljóðrita í Hafnarfirði. Nói og Arnar laufagosar voru þarna með mér á trommum og bassa en ég spilaði líka inn píanógrunna og stöku kassagítar og harmóníum í Hljóðrita. 
Hafði svo ekki tíma eða þrek til að halda áfram með plötuna síðasta vetur þar sem ég var í fullu starfi sem kennari og uppeldisfulltrúi.
Er hinsvegar skrimtandi á námslánum núna með konunni minni úti í Glasgow og hef náð að gera fullt fullt af óverdöbbi og layerum í þessu, eins og þeremín, mellótron sömpl, leikfangaorgel og "synthafret" sem ég hef verið að bæta í súpuna að undanförnu. Baldvin Ringsted (Bela) sem einnig er búsettur hérna í Glasgow hefur líka kíkt á mig í stúdíóið og skutlað inn nokkrum vel völdum gítarnótum (þó ekki í þessu lagi), en Kristjón Daðason kemur einnig til leiks á plötunni með tignarlegar lúðraþeytingar.
Ég er að koma saman grúppu með skosku og íslensku fólki til að spila þetta efni á einhverjum af tónleikastöðum borgarinnar, vonandi verður það allt komið á gott ról í lok sumars.
---

Geimsteinn - Heyrðu Herra Trúbador
Það er til þónokkuð af Bob Dylan kóverum á íslensku og tilvalið að smella þeim hér á síðuna í tilefni af stórafmælinu. Fyrst kemur fjölskyldufyrirtækið Geimsteinn – Rúnar, María og Þórir Baldursson – í miklu mid-seventís stuði. Þennan gamla smell tóku þau á íslensku (með Þorsteins Eggertssonar texta) á fyrstu plötu Geimsteins, sem kom út í des 1976. Hörku plata tekin upp af Þóri í NY og Munchen og allskonar erlendis rándýrt og grúví lið lagði sessjón af mörkum.

19.05.11

Það er allt í gangi! Hjól atvinnulífsins snúast nú á ógnarhraða því sumarskammturinn af Popppunkti er að fara að skella á. Við verðum með 16 urgandi hressar hljómsveitir/lið í sumar og þetta lítur allt saman helvíti æðislega út. Hér má sjá settið nokkrum klukkutímum áður en fyrsti þátturinn var tekinn upp. Dúndurstuðið byrjar laugardagskvöldið 28. maí og þá eigast við Vinir Sjonna og Stjórnin. Gjörveikt!
---

Fátt segir meira um endalausan mulning tanna tímans en neon-skilti sem er búið að taka niður og liggja eins og hráviði út í horni. Glæst fortíðin endar á haug. Jafnvel þótt það sé Jón Loftsson hf. Stundum hef ég séð í amerískum bíómyndum frá ruslahaug í Las Vegas þar sem öll gömlu skiltin liggja og ryðga. Þetta er gullfallegt, enda svo flott þegar reisn og óflýjanleg endalok koma saman í einum pakka. Hugsa sér það að eftir nokkrar aldir (eða fyrr!) verður Harpan bara ryðguð hrúga og svo ekki lengur til. En allavega. Ég fattaði ekki almennilega að leita að þessu neonskiltasafni þegar ég var í Las Vegas, heldur sá bara eitthvað túristaattraksjón á Freemount. Þarf að skoða þetta í næstu ferð til Vegas þegar ég verð búinn að koma mér upp smekk fyrir alkóhólisma og spilafíkn, enda lítið fyrir mann að gera þarna sé maður laus við það.
---

GusGus - Within You
Arabíska hrossið er áttunda plata GusGus og svona líka dúndrandi góð. Kemur út í næstu viku. Hér er annað lagið sem þau tóku við opnun Hörpu. Högni í Hjaltalín er hér með þeim. Ég var eitthvað að röfla hér um að tólin sem Gusarar stóðu við hefðu örugglega ekki búið til nein hljóð, en það er náttúrlega algjört rugl. Hlunkarnir sem litu út fyrir að vera IBM frá 1969 munu vera sérsmíðaðir þýskir modular syntar sem heita Doepfer. Myndbandsupptaka af GusGus að spila á Hörpuopnun er hér.
---
Hef þurft að fá mér ný forrit. Fyrst Google Chrome vafrann til að geta skoðað nýju heimasíðuna hjá Björk almennilega. Sé sko alls ekki eftir því, þessi vafri er algjör snilld. Pælingar Bjarkar með þetta Biophilia dæmi er hins vegar dálítið hefí. Ég skil ekkert í þessu og hef ekki heyrt neina tónlist sem tengist pródjéktinu. Svo þurfti ég að skoða treiler fyrir Tinna myndina (sem mér líst vel á - Djöfull fer ég í Lúxussalinn á hana) og þurfti að ná mér í Quick Time spilara, sem er ekkert gaman því ég þoli ekki Apple og allt sem það okurfyrirtæki stendur fyrir.
---
Ertu milljónamæringur? Eða sturlaður? Hér er allavega til sölu vatnsflaska á 2.600 dollara ef þú vilt endilega drekka dýrasta vatn í heimi.

15.05.11

Eins og við var að búast gáfu Íslendingar uppáhaldslaginu mínu í Eurovision 12 stig, hinu þrælstolna danska lagi (sönnunargöngin má sjá hér). Það lenti í fimmta sæti. Í fjórða sæti var sandlistakona frá Úkraínu. Ekki man ég eftir laginu sem fylgdi sandinum. Sænski sætiboj var númer 3, Dagbjarti til mikillar hrellingar. Hann vildi að það ynni. Ítalskur djass var nr. 2 - hvaða rugl var það? Vinna þessir Ítalir næstum því alltaf ef þeir leggjast svo lágt að taka þátt í keppninni? Fara þeir þá aftur í fýlu núna fyrst þeir unnu ekki?

Aserbaídsjan vann með sænsku Bylgjupoppi eftir Svíana Stefan Örn og Söndru Bjurman, sem líka sömdu lagið fyrir Aserbaídsjan í fyrra. Keppnin að ári fer því líklega fram í höfuðborginni Baku sem er við Kaspíahaf, skv. landakortinu mínu. Þar virðist nú vera mikið olíugóðæri og fríkuð háhýsi og byggingarkranar út um alla borg. Þetta er mjög langt í burtuistan og mjög framandi land. Ég held ég neyðist til að fara að semja skothelt sigurlag því það væri ekkert smá exótískt að komast til Aserbaídsjan í boði skattgreiðanda.

Vinir Sjonna stóðu sig vel og urðu í 20. sæti með 61 stig. Einu sæti neðar en Hera Björk í fyrra, en fengu reyndar 21 stigum meira. Það sýnir bara hversu dreifð atkvæðin voru. Er einhver skýring komin á því afhverju Ísland fékk 12 stig frá Ungverjalandi? Mjög furðulegt.

Líkur þá Euro-tímabilinu í ár og maður þarf aldrei aftur að sjá hina útúrtjúnuðu írsku tvíbura eða hina væmnu og leiðinlegu Lenu. Hverfa þau og allt hitt liðið nú inn í Eurosvarthol og koma ekki út fyrr en í fyrsta lagi að ári.

14.05.11

Ein uppáhaldsfréttin mín í há-góðærinu var af píparanum á Selfossi sem keypti sér einhvern rosa flottan bíl á 40 milljónir. Harpan er dálítið eins og þessi rosa flotti bíll og við, skattgreiðendur þ.e.a.s., eins og píparinn. Nema hann er auðvitað löngu búinn að losa sig við bílinn en við sitjum uppi með Hörpuna.

Vonandi er ég bara að rugla hérna og húsið mun svoleiðis skotganga upp og aldrei verða baggi á þjóðinni. Eldborg verður stöppuð árið um kring og gríðarlegt líf í húsinu. Til hamingju með Titanic, eins og stóð á blaði eins mótmælandans, verður þá algjört píp í ljósi sögunnar, en ekki skot í mark.

En allavega. Ég fór í Hörpuna í fyrsta skipti í gær. Því miður ekki í pressaða Fræbbbla-bolnum því það var svo helvíti kalt. Hörpuferlíkið er ekkert minna ferlíki að innan. Fyrsta hugsunin var að þetta væri eins og risastór flugvöllur í útlöndum. Búðirnir og barinn á neðstu hæðinni vekja upp þessa flugvallartengingu. Við vorum á vinstri-væng á 4. hæð (af 5) og ég mæli ekki með þessum sætum. Þetta var dálítið eins og að vera í opnum strætó upp á fjallstoppi. Ég var satt að segja að drepast úr lofthræðslu allan tímann. Alltaf að hugsa um það að ég þyrfti ekki að sturlast nema í 5 sekúndur til að kasta mér niður. Ég fæ mér miða á neðstu hæð næst þegar ég fer, sem verður vonandi sem fyrst því þetta er auðvitað draumur í dós – þegar maður getur hætt að hugsa um baggann á komandi kynslóðum. Sándið svoleiðis glymjandi fínt, heyrðist mér, maður er náttúrlega orðinn hálf heyrnarlaus og ekki dómbær.Tók þó eftir því að þegar maður klappaði þá heyrði maður hæst í eigin klappi en hitt klappið var svona eins og úr fókus á bakvið. Spes.

En það var gott útsýni. Sá niður á Steingrím og Jóhönnu á neðsta vængnum hægra megin. Geir Haarde og Ólafur Stephensen voru á fremsta bekk. Björgólfur gamli gjaldþrot og frú á öðrum bekk. Fór á klósettið og beint í flasið á Jóni Gnarr og Ólafi Elíassyni. Svona er nú svokölluð elíta pissandi og kúkandi eins og ekkert sé sjálfssagðara. Salernin eru bæ ðe vei ekkert sérstaklega flott, en nokkuð hefur verið lagt í hljómburð þar líka. Eða það vildi Kriss Rokk meina eftir að hann heyrði mann taka fúgu nr. 2 við hliðina á sér.

Fleira fínt fólk var þarna. Bragi í Bókinni og Birna Þórðar, Kiddi rokk og frú, Haukur á Græna hattinum og frú, Magni og frú, Þórir Baldursson og frú og ekki síst Raggi Bjarna og frú, sem voru í okkar röð. Katrín Jakobsdóttir bauð upp á þrjár dvergsnittur og hálft hvítvínsglas í hléinu. Þá gat maður tékkað á Silfurbergi, sem mér sýnist að muni helst hýsa rokkið og poppið í framtíðinni, enda ekki nema á færi brjáluðustu athafnaskálda að leigja Eldborg á 1.8 milljón, eða hvað það kostar. Silfurberg er hinn fínast rokksalur fyrir standandi gesti og alveg fínheitalaus.

Giggið var náttúrlega mis skemmtilegt. Mér fannst aðeins vanta upp á að íslenski popparfurinn fengi að heyrast, en Dikta tóku þó Trúbrot til að sýna lit. Ég klökknaði þegar Sigrún Eðvaldsdóttir fiðlaði Til eru fræ í miðjum klíðum í einhverju þunglamalegu stykki. Mér fannst það hápunktur kvöldsins því þá fór ég að hugsa um Hauk Morthens og arfinn. GusGus voru helvíti flott. Strákarnir með tvo IBM síðan 1969 að þykjast gera eitthvað á þá, Urður töff og Högni og Daníel þarna eins og tveir Sverrir Guðjónssynir í frontinum svaka skæs. Á maður einhvern tímann aftur eftir að sjá Geir Haarde horfa á GusGus? Rokk Diktu var ekki að hljóma sannfærandi eftir allt gúmmilaðið á undan, eins og það væri eitthvað fokk öpp í gangi sándlega séð. Trommurnar eins og pappakassi og vesen með hljóðnema. Gordjöss var þokkalega gordjöss en það hefði alveg mátt splæsa í eins og tvær glimmerbombur.

Harpa er svo opin alla helgina. Maður kíkir þá kannski aftur til að taka þetta inn. Ég held maður þurfi smá tíma til að venjast húsinu því það er dálítið yfirþyrmandi í fyrstu umferð. Þéttur rokkpakki í Silfurbergi í kvöld, ef einhver getur slitið sig frá Eurovision, eða svo hljóðandi:

19:30 Hurðir opna inn í sal
20:00 Apparat Organ Quartet
20:30 Mammút
21:00 Agent Fresco
21:30 Valdimar
22:00 Hjaltalín
22:30 Jónas Sigurðsson og ritvélar framtíðarinnar
23:00 Lights on the Highway
23:30 HAM
00:00 Endir

Ókeypis inn.
---
SUMARHREINSUN KIMI RECORDS í Kolaportinu um helgina. Koma svo! Þetta kaupir sig ekki sjálft.

13.05.11
Eurovision = írsku tvíburarnir... argggh! Gott að Hvanndalsbræður frá Moldavíu komust áfram og ég er viss um að danska lagið fær fullt af stigum frá Íslandi.
Harpa = Ég er búinn að pressa Fræbbbla-bolinn fyrir kvöldið.
Bakið = Eitthvað farið að kvarta. Ég sit svo mikið við tölvuna á hvínandi deadlænum.
EISTNAFLUG = S. H. DRAUMUR á fimmtudagskvöldið 7. júlí. Massíf rokkhelgi. Á ekki að smella sér?
Kistuber = Hver eru kirsuberin? Ég er ekki búinn að sjá eitt einasta kirsuber í búðunum hérna en samt er seasonið í fúll svíng.


Guðjón Rúdolf - Geðveikar kerlingar
Hvar er hvar er hvar er húfan mín? Það er von að þú spyrjir. Mér barst funheit frétt af Guðjóni:
Föstud 13. maí (Í DAG) verður gefin út hljómplatan Guðjón Rúdolf - Regnbogi. Platan er samvinnuverkefni þeirra Guðjóns Rudolfs Guðmundssonar og Þorkels Atlasonar. Áður hafa þeir gefið út plöturnar Minimanu (2003) og Þjóðsöng (2005). Þrennir tónleikar verða haldnir í tilefni útgáfunnar, á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði 13. maí , Hafnarhúsi 14.maí, og á Bar46, Hverfisgötu 46. Allir tónleikarnir hefjast kl. 21.00
Hljómsveitin Dularfulla Stjarnan leikur á tónleikunum en hana skipa auk Guðjóns og Þorkels: Júlíus Ólafsson, Árni Kristjánsson, Eiríkur Stephensen, Björn Erlingsson og Bjarni Friðrik Jóhannesson. Glöggir unnendur dægurlista ættu að þekkja þar fyrrum meðlimi  Silfurtóna, Sæborgar, Júpíters og Djassveitar Jóns Möllers svo eitthvað sé nefnt.
Mikið grín og gleðimál!

11.05.11
Hinn svokallaði sérfræðingur í Eurovision var látinn tjá sig í DV um hin óvæntu en gleðilegu úrslit í gærkvöldi. Maður hefði náttúrlega aldrei búist við þessu, en var þá kannski ekki alveg að taka inn dómnefndina sem mér skilst að sé með 50/50 vægi á móti símakosningu. Þetta er fínt. Nú verður bara partí á fimmtudaginn og líka á laugardaginn og algjört euro bara alla vikuna. Ljómandi fínn fíflagangur og rugl. Annars er ég náttúrlega enginn Eurovision-fræðingur. Reynir Þór Eggertsson er Eurovision-fræðingur!
---
Hin ástsæla listakona Leoncie er sem kunnugt er væntanleg aftur á klakann til að auðga vort andlausa menningarlíf. Á Myspace síðu sinni ber hún Íslendingum vel söguna svona til leggja grunn að glæstri endurkomu sinni. There are super whores in Iceland. Sick Demented Oversexed, drugged out Whales. Yes! Iceland Is A Very Corrupt Country especially when One has experienced all this. Skilaboð listakonunar eru  hér.
---
Krakkar eru mjög uppteknir af aldri. Ég og börnin vorum að tala um aldur.
Elísabet: Ég er að verða fjögurra ára. Það er mjög mikið.
Dagbjartur: Nei, það er mjög lítið. Næstum því smábarn.
Elísabet: Nau-hauts.
Dagbjartur: Víst. Hundrað ára er mjög mikið.
Ég: Það var einn 91 árs kall að giftast konu sem er 41 árs.
Dagbjartur: Nú, er hann svona sætur?
Ég. Nei, hann er rosalega ríkur.
Dagbjartur: Er það koppasalinn?

Mér finnst mjög krúttlegt að sjá Önnu Mjöll fyrir mér giftast honum Valda koppasala!
---
Helvítis bankarnir eru aftur farnir að láta eins og þeim sé annt um þig. Væmnar auglýsingar sem eiga að höfða til góðra tilfinninga farnar að leka frá þeim á ný. Því er tímabært að birta sparnaðarráð Sigga Pönk, sem hann setti saman fyrir einhvern fjölmiðil fyrir nokkrum árum:

1. Átta sig á því að bankanum er sama um einstaklinga.
2. Skilja að markmið ríkisins og stofnana þess eru fyrst og fremst að viðhalda sjálfum sér og að rekstur stórfyrirtækja miðast við að auka hagnað eigenda þeirra.

3. Læra að þegar upp er staðið eru peningar ekkert annað en litríkir pappírsmiðar og tölur á hörðu drifi í bankatölvum. Það eru hvergi til nein bankahólf með milljörðum peningaseðla. Út frá því læra smám saman að hætta að skipuleggja líf sitt út frá peningum.
4. Læra og skilja að vinnutími er líftími umbreyttur í peninga.Vinnutími er glataður líftími.


10.05.11

Það munar ekki um sprengifréttirnar. Anna Mjöll gengin út með afa gamla, Leonice flytur heim, og síðast en ekki síst verður heimsendir 21. maí. Þetta tengist örugglega. Þannig að þú hefur 11 daga til að gó nöts með vísakortið. Heimsendaliðið er alveg viss í sinni sök og hefur verið að auglýsa með flenniauglýsingum í blöðunum hérna að maður eigi að hlusta á Family Radio. Ástæða heimsendans er náttúrlega sú að Guð er alveg brjálaður út af þessum hommum öllum, eins og má lesa hér í hávísindalegri grein eftir einhvern fábjána. Ég held ég hafi heyrt í talsmanni heimsenda hjá strákunum í Harmageddon um daginn. Hún sagði – með mikilli yfirvegun og sannfæringakrafti náttúrlega – að Guð þyldi engar málamiðlanir. Annað hvort værirðu með honum í liði eða ekki. Eintóm hamingja bíður þeirra trúuðu sem fljúga upp í stuðið, en hræðileg mál bíða þeirra trúlausu sem verða eftir í logum vítis á jörðinni. Þitt er valið!

Já einmitt. Hvað ætlar þetta lið svo að segja 22. maí þegar hommarnir verða ennþá að hommast og Guð búinn að svíkja það um hið fullkomna stuð? Byrja að babbla um næsta heimsenda á næstu dagsetningu? Það er náttúrlega ekki í lagi með þetta lið.
---

Ég hef haldið dálítið upp á hana Heiðrúnu Önnu eftir að hún ökklabraut mig með fjarkrafti á gamlárskvöld 95/96. Ég hef líklega verið að skrifa eitthvað nastí um Cigarette og hún því eðlilega gripið til sinna ráða. Heiðrún var í góðu viðtali í Fbl um daginn og kemur þar fram að hún fæst aðallega við lagasmíðar nú um stundir. Hún hefur verið í tveimur böndum á Englandstímabili sínu og látum nú heyra:


Gloss - New York Boy
Heiðrún söng með Gloss í kringum aldamótin. Bandið kom frá Liverpool og músíkin enskt popp með sænskar vísanir í Cardigans. Eitt albúm hjá Nude (Suede var stærsti fiskurinn í því búri) og nokkrar smáskífur. Gloss hætti um svipað leiti og Nude fór á hausinn 2002. Aðdáendasíða Gloss.


Cicaca - The Things You Say
Nokkru síðar, eða 2006, kom út platan Cicada með samnefndri Lundúnar-sveit, eða öllu heldur verkefni tveggja náunga sem höfðu fengist við pródöksjón og remix á rafkantinum áður en Heiðrún Anna kom til sögunnar. Þeir hafa haldið áfram en Heiðrún var bara með á fyrstu plötunni. Músíkin meira dansraf en stutt í poppið. Af þessu tvennu finnst mér nú Gloss meira spennandi. Cicada á Myspace.
---
Fyrri undan í Eurovision í kvöld. Vinir Sjonna eru nr. 14 en annars er það helsta hið þjóðlega norska dægurlag Haba Haba, sixtís ikea-soul frá Serbíu og mjóróma Finni. Það er mun meira stuð í þessu á fimmtudaginn.
    
08.05.11

Magnús & Jóhann - Seinna meir
Fór á þá félaga Magnús og Jóhann með hljómsveit í gærkvöldi í Austurbæ. Það var stórfínt. Maður var samt alveg að lognast út af á tímibili því þeir eru með svo mikið af súperballöðum. Alveg þess virði að harka af sér í gegnum ballöðustaflanna fyrir reffilegar útgáfur af Jörðin sem ég ann og Yackety-yack. Svo fékk maður stórskemmtilegt röfl á milli laga í kaupbæti. Tilefnið var þessi 40 laga pakki sem var að koma út af tilefni 40 ára bransaafmælis. Þar eru bæði orginal upptökur og nýjar af lögum sem aðrir en Magnús og Jóhann fluttu. Til dæmis Seinna meir eftir Jóhann sem Start flutti upphaflega. Svo eru tvö glæný lög sem voru sérstaklega samin fyrir þennan djúsí pakka.


Start - Stína fína
Talandi um Start. Efnið þeirra var að koma út á cd í fyrsta skipti að ég held. Stóra platan, smáskífan og 3 aukalög. Seinna meir var upphaflega gefið út á smáskífu 1981 og þar var Stína fína á b-hliðinni. Lagið er eftir Jón Ólafsson bassaleikara og textinn eftir Eirík Hauksson, sem syngur það. Fín endurútgáfa hjá strákunum að undanskyldu einu atriði: Á orginal LPinu var mynd af rótaranum og andlega leiðtoganum Billa Start aftan á umslaginu, en Billa er hvergi að finna á cd umslaginu. Billi sjálfur var á svæðinu á tónleikunum í gær og hafði orð á því að hann sé sko aldeilis ekki ánægður með þetta, að vera strokaður svona út úr rokksögunni. Hér er því Billi og myndin sem gleymdist:


---
Villi naglbítur fékk mig til að keppa í spurningakeppninni Nei hættu nú alveg. Þetta er á dagskrá á Rás 2 á eftir kl. 15. Dúndur þáttur!
---
Horfði á enn aðra súper heimildarmynd. Þessi heitir Wrecking Crew og er um stúdíó sessjón gengið sem spilaði inn á eiginlega allar vinsælustu plöturnar í LA á gullaldar-árunum. Sonur gítarleikarans Tommy Tedesco gerir myndina, sem er verulega fín.

07.05.11

Rás 2 leitar nú að Stuðlagi íslensku þjóðarinnar. Þetta eru samantekin ráð vegna bókarinnar Stuð stuð stuð, sem ég hamast nú við að klára. Í gær hitti ég bæði Pál Óskar og Kidda í Hjálmum og rakti úr þeim poppgarnirnar. Græddi þær sprengifréttir að Palli kemur loksins með nýtt lag í spilun síðsumars og Hjálmar verða með nýja plötu á árinu. Bókin verður svona 5 kíló æ kidd jú not! Sá dömmí í gær og þetta verður algjört monster. Djöfulsins lúxus.

Ég verð í þættinum hjá Bergsson og Blöndal um kl. 10 á eftir að kynna mér niðurstöður þeirra. Þau voru að búa til topp 10 lista með hlustendum sínum yfir bestu stuðlögin og verður spennandi að sjá hvað kemur í ljós.
---

Síðasti Alla leið er í kvöld og er það lang besti þátturinn. Skástu lögin heyrast í kvöld, t.d. danska lagið og svo er hún Lena sem vann í fyrra eitthvað að reyna að vera hipp og kúl. Svo erum við líka fyndnust í kvöld, loksins hætt að vera feimin við myndavélararnar.

En ég verð að horfa á það í fyrramálið því ég er að fara á Magnús og Jóhann í Austurbæ.

05.05.11

Fastlega má búast við neikvæðri umræðu um Hörpuna næstu árin. Að þetta sé höll elítunnar sem þrautpínd alþýðin skuli greiða fyrir með góðu eða illu. Auðvitað er þetta hús fáránlega stórt miðað við stærð þjóðarinnar, enda farið af stað með það þegar sumir voru sturlaðir af öllum yfirdrættinum sem þeir höfðu til umráða. Húsið var hálfnað í byggingu þegar raunveruleikinn tók við og sjúklegt ofmatið krassaði eins og martröð í helvíti. Hvað átti þá að gera? Jafna ferlíkið, sem var vel komið í gang, við jörðu? Láta það standa hálfbyggt um ókomna tíð til að minna okkur á það hvað "við" vorum vitlaus?

Ekki veit ég hvað var réttast að gera. Láta það kannski bara standa þarna og molna niður fyrir augunum á okkur, eða byggja það smátt og smátt. Hallgrímskirkja var byggð á mörgum áratugum og kirkjan hans Gaudis er ennþá í byggingu, meira en öld eftir að byrjað var að byggja hana. Kannski hefði átt að gera það sama við Hörpuna. Það var hins vegar ekki gert og ríki og borg ákáðu að drífa þetta bara upp. Og núna var sem sé fyrsta giggið í gær og strax er byrjað að kvarta. Hvar var nýgilda músíkin, spyr Bubbi. Þetta er bara fyrir elítuna og klassíska pakkið. Afhverju var þetta ekki sýnt í beinni?, spyr Eiður. Og svo framvegis.

Gert er gert. Þýðir ekkert að röfla um það. Harpan er risin. Nú er bara að massa þetta hús eins og mf. Sjálfur er ég búinn að kaupa miða upp í rjáfri á Elvis Costello í nóvember. Sem tónlistarfíkilinn væri fáránlegt að halda áfram að vera í fýlu út í þetta hús. Það býður upp á óteljandi möguleika. Vonandi verður hægt að reka það í plús, eða a.m.k. á núlli.

Næstu daga verða allskonar forsýningar í húsinu á vegum Sinfó, en sjálft aðalopnunargiggið verður 13. maí. Allt í beinni á Rúv. Dikta og GusGus í bland við allskonar.

Alla þá (þar næstu) helgi verður Harpan opin almenningi (ókeypis) og líf í hverjum sal. Til dæmis munu Ham spila laugardagskvöldið 14. maí, strax á eftir Eurovision.

Harpan er hús þjóðarinnar. Hvort sem henni líkar betur eða verr. Til hamingju!

Þá er bara að hætta þessu væli og opna Bauhaus. Árangur áfram, ekkert stopp!

02.05.11

Er að lesa bók Stefáns Jökulssonar um Hallbjörgu Bjarnadóttur (1915 - 1997), útg. 1989. Þar segir m.a. frá því þegar Hallbjörg var í New York og hitti Ed Sullivan á hóteli fyrir atbeina sameiginlegs kunningja. Hallbjörg ætlaði að sýna Ed listir sínar upp á að komast að í hans heimsfræga sjónvarpsþætti. Hallbjörg sest við píanóið og ætlar að syngja Old Man River eins og Paul Robeson.
"Kemur ekki til mála. Hann er kommi!" gólar Ed.
Gott og vel, þá tek ég franskt lag eins og Jósefína Baker myndi syngja það, segir Hallbjörg.
"Baker! Hún er bolsi! Kemur ekki til mála," gólar Ed, strunsar út og möguleikar Hallbjargar á að komast að í þættinum eru farnir veg allrar veraldar. Hún veltir því fyrir sér hvað hefði gerst ef hún hefði valið önnur lög til að syngja fyrir fúlmennið Ed Sullivan, en hjá þessum karlfauski slógu Bítlarnir í gegn í Ameríku nokkru síðar.

Hallbjörg var að mestu "kóver-artisti" en samdi líka lög. Hún samdi m.a. lagið Vorið er komið eftir ljóði Jóns Thoroddsens, sem er nú alltaf jafn frábært lag. Það vakti náttúrlega úlfúð og var bannað þegar það kom út fyrst á 78 snúninga 1955 vegna þess að það mátti ekki djassa með virðuleg ljóð eins og þetta. Hér er Hallbjörg að syngja lagið hjá Hemma Gunn 1990.
---

Ég hef ákveðið að lýsa Jón Gerald Sullenberger blessaðan. Hitti hann í gær í hinni frábærlega æðislegu búð Kosti (þar líður manni alltaf eins og maður sé í útlöndum, Ameríku þá helst). Jón var að raða í hillur á sunnudegi eins og vintage Jóhannes í Bónus og sagði að fyrsta rótarbjórs-sendingin sem kemur í búðina sé nú um borð í Reykjafossi á leiðinni frá Norfolk. Hann mundi reyndar ekki hvers konar rótarbjór þetta er. Því miður er þó babb komið í bátinn, bókstaflega, því Reykjafoss fékk á sig högg á leiðinni og tvísýnt er um það hvort og þá hvenær skipið og rótarbjórinn komi. Þegar/ef rótarbjórinn kemur loksins mun ég setja Jón í dýrlingatölu, að því tilskyldu náttúrlega að þetta sé almennilegur rótarbjór en ekki bara eitthvað bónusdrasl. Ú á Jón Ásgeir! Áfram Jón Gerald og Jónína!

Blogg: Apríl 2011