13.03.08
OECD segir það sem allir vissu, en samt grenjar fjármálaráðherrann um að víst sé allt ógisslega gott á Íslandi og allir með ógisslega há laun, vei... Bráðum kemur svo Hannes Hólmsteinn og fer að segja það sama að víst sé allt ógisslega gott á Íslandi og allir með svo ógisslega há laun, vei... og svo verður bætt við: oj þessi Stefán þarna sem er alltaf að röfla, hann er með síffilis. Það verður malað og malað þangað til staðreyndirnar detta úr fókus. Þá er takmarkinu náð.
---
Hinn hreini sannleikur, þessi sem OECD hefur bent á (lesið t.d. í góðu bloggi hér), er að meðalstætt fjölskyldufólk hefur það skítt á Íslandi. Kjör okkar hafa versnað undanfarin ár þökk sé stefnu Sjálfsstæðisflokksins og hækjum hans. Það er bara þannig, hvað sem þessir frjálshyggjudrjólar reyna að þæfa málið. Ef þú ert í vafa líttu þá á launaseðilinn, matarreikninginn, bensínverðið, lánin þín. Allt kemur út á eitt. Hér er vont að búa. Skíttpíning og okur út í eitt og þetta versnar bara. Ísland er að verða óbyggilegt. 
---
Kannski er bara kominn tími til að loka sjoppunni og flytja til Kanarí.

12.03.08
Ég er ekki frá því að það sé gúrkutíð. Biggi í Maus segir Bubba svamp, Bubbi segir Bigga falskan og leitast við að leiðrétta sögufalsanir um sig. Allir fjölmiðlar eru fullir af þessu, forsíður og vesen. Sjálfur komst ég í þrjú viðtöl fyrir þá stórfrétt að ég hafi lagt í 4 lítra af rótarbjór, á Xinu, í 24 stundum og á Vísi.
---
En allavega, Bubbi já. Ekkert nema gott um það að segja að karlinn sé lifandi og tjái sig. Væl og ekki væl. Eru ekki allir vælandi kerlingar inn við beinið? Bubbi vælir undan væli annarra sem væla þegar Bubba vælir og þannig koll af kolli. Sér í lagi væla svo hinar vælandi kerlingar sem fara að væla ef einhver kallar vælandi kerlingu vældandi kerlingu. Helvítis væl, sem sagt. Til að fagna nývöknuðum blogg-Bubba er tilhlýðilegt að birta hér þessa fínu mynd af karli og kó í Kópavogsbíói 1980. Myndin tók Biggi Baldurs sem tók líka hina frægu mynd af Bubba með fokkjúfingurinn sem birtist fyrst í Eru ekki allir í stuði, svo á bol frá Nonna í Dead og má sjá í Fbl í dag. Þetta voru fyrstu tónleikarnir sem ég spilaði á í lífinu og 3ju tónleikar Utangarðsmanna. Eins og sést hefur rithmaparið frá Raufarhöfn ekki enn komið sér í töffaraleg rokkföt en allir hinir eru með þetta á hreinu. Danni er með þennan forláta Airline gítar og ég man ekki betur en Mikki hafi stútað Telecaster á þessum tónleikum (kannski sóun því það voru bara svona 150-200 manns í salnum sem göptu). Þetta voru rosalegir töffarar sem maður var satt að segja skíthræddur við. Á æfingu fyrr um daginn bað Bubbi mig um að rétta sér kókflösku til að drepa í rettu í. Fyrir mig, 14 ára rauðhausinn, var þetta líklega hápunktur dagsins. Það eða þegar ég sá Fræbbblana komu sér í gírinn þarna baksviðs. Valli hellti úr lítilli kókflösku yfir hausinn á sér til að ná upp pönkstemmingu. Samt var maður ekkert hræddur við þá, nema kannski Steinþór heitinn, því þeir voru svo alþýðlegir og spjölluðu við upphitunarpollana.

---
Til að trylla enn frekar Bubbaaðdáendur kemur hér undrasjaldgæft lag frá árinu 1983. Bubbi í gjálífisrússi vafrar inn á æfingu hjá Oxzmá og saman djamma þeir lag inn á spólu sem endar á snældu Oxzmá, Biblía fyrir blinda. Mér skilst að Bubbi hafi ekkert verið of hrifinn af því að þetta kæmi út en svo hafa menn væntanlega sæst á að það væri okei því Steinar þyrfti ekkert að vita af þessu fyrst þetta kom bara á 200 stykkjum á spólu (helmingurinn af því var svo hvort eð er auður og nafn Bubba kom ekki fyrir á umslaginu eða neitt). Enda er þetta lag ekkert til að skammast sín fyrir. Glimrandi rokktuddi, Skari skrípó alveg að fara yfir um á saxanum og allir í djollí örlí eitís fílingi:

Oxzmá & Bubbi Morthens – Me & my baby
---

Kimi Records er að fara yfir um í stuðinu. Gefur út tvær plötur á morgun. Celebrating life með Borko er önnur.
Kvöld. Í smábæ. Einhvers staðar á Austurlandi. Björn
Kristjánsson er á vappi þegar ókunnugur maður vindur
sér upp a honum. Og kýlir hann í magann.
Daginn eftir er Björn kominn með lag inn á tölvuna sem
fjallar akkúrat um þetta: að vera kýldur í magann. Ekki
mest heillandi efni í popplag, en með laginu
„Spoonstabber“ sýnir Björn, eða Borko eins og hann
kallar sig, að hann er ekki þekktur fyrir að feta
óhefðbundnu slóðirnar. (úr fréttatilkynningu)
Sprengir Borko krúttboxið? Hver veit!

Borko - Spoonstabber
---

Áfram Ísland! með Morðingjunum er hin útgáfa Kima á morgun. Miklu þéttari pakki en fyrsta platan þeirra og eiginlega bara þrusugóður trítilóður partíhlúnkur. Slatti af Dead Kennedys og Fræbbblalegu pönkstöffi og meira að segja kóver af Bölvun fylgi þeim sem gamla pönkbandið mitt F/8 flutti árið 1980-81. Eðall.
Þríeykið Morðingjarnir fylgja Í götunni minni eftir
með reffilegustu pönkplötu ársins.14 grípandi lög
prýða fyrstu útgáfu þeirra hjá Kimi records, og er
óhætt að segja að Áfram Ísland! hefur alla burði
til að verða klassík. Krafturinn í Morðingjunum er
engu líkur og platan hljómar drulluvel. Slobbí
skítapönki sem Atli, Haukur og Helgi standa fyrir
hefur aldrei verið jafnaðlaðandi. (úr fréttatilkynningu).

Morðingjarnir - Svona

11.03.08

John Fogerty (annar frá vinstri) aðalkarlinn úr Creedence Clearwater Revival leikur í Laugardalshöll í lok maí ásamt bandi sínu. Hann spilar sólóstöff og klassíkana með CCR. Það er eitthvað karlmannlegasta rokk sögunnar sem hefur haft mikil áhrif á eistnadeild rokksins enda þarf (helst þrjú) eistu og myndarlega barta til að skilja snilldina til fullnustu. Ógeðslega töff músik sem sagt. Og karlmannleg. Ég átti auðvitað allar plötur CCR á vinýl (Grammið fór að flytja þetta inn á 9. áratugnum og mér fannst ekki annað við hæfi að eiga settið komplett). Seldi reyndar síðar. Ási bróðir er líka gamall aðdáandi svo ég mæti með honum. Snilld! Hér eru sýnishorn + áríðandi ábreiður.

Creedence Clearwater Revival - Fortunate son
Creedence Clearwater Revival - Bad moon rising
Creedence Clearwater Revival - Run through the jungle
The Gun Club - Run through the jungle (ábreiða frá 1981)
Creedence Clearwater Revival - It came out of the sky
The Scientists - It came out of the sky (ábreiða frá 1984)
Creedence Clearwater Revival - I heard it through the grapevine (áður með Marvin Gaye)
---

Framleiðsla er hafin á Dr. Gunna rótarbjór. Fyrsta upplag 4 l. Þetta er í gerjun til föstudags. Annað hvort verður þetta ódrekkandi viðbjóður eða algjör snilld. 
---
Þar sem ég púlaði á krosstreilernum datt mér í hug að það væri sniðugt að biðja Gylfa Ægisson um að mála Bítlana og Tinna saman á mynd.

09.03.08
Hér er grimmilegasti vinsældarlisti sögunnar. Mest notuðu lögin í "stríðinu gegn hryðjuverkum".
---

Maður er viðbúinn gengdarlausu okri á barnabíói. Já já, seldu mér bara miðann á 50 kall meira en venjulega af því myndin er sýnd digital (eins og ég hafi varið að biðja um það). Mér varð þó illilega bilt við í okurtauginni þegar ég í sakleysi mínu keypti svokallað stórt glas af slushie, eða hvað þetta heitir, muldi klakinn með eitursætu djúsi blönduðu saman við. Þetta var glas á stærð við minnsta sjeik í ísbúð og hráefnið (klaki og djússletta) hefur kostað svona 4 krónur topps. Og hvað þurfti ég að borga mikið? 390 kall! Auðvitað átti ég að setja upp svip og neita að taka þátt í rippoffinu, en nei nei, drengurinn búinn að sjá auglýsinguna á bíótjaldinu og ég búinn að lofa honum svona í hléi. Sem betur fer fannst honum þetta gott svo ég get huggað mig við eitthvað. Myndin, Underdog, var annars allt í lagi og honum fannst hún góð.

08.03.08
Þrumandi þróttmikil og þroskandi Þórbergsveisla fer fram um helgina í Hátíðasal Háskóla Íslands. Dagskráin er hér. Við Heiða (eða Tvö á palli) spilum kl. 14:45 á sunnudaginn 4 ný lög við ljóð karlsins sem hefði orðið 120 um helgina ef læknavísindin væru ekki svona mikið rusl. 
---
Tónleikasamstarf okkar Heiðu heldur svo áfram um páskana þangað sem við höfum verið pöntuð með prógramm. Á föstudaginn langa leikum við blandað efni á fjölskylduskemmtun í skíðabrekkunni ásamt Elvari og Kristjáni Frey. Ætli megi ekki kalla það Ununar-kombakk því Lag unga fólksins verður þar væntanlega leikið af okkur í fyrsta skipti síðan 1999. Svo verðum við á Aldrei fór ég suður með Abbababb! barnaprógramm á laugardaginn.
---
Hér er smá mp3-gúmmilaði í dós. Steinþór Helgi var eitthvað að dásama These new puritans í blaðinu í gær svo ég athugaði málið, plötuna Beat Pyramid. Þetta er band frá Southend-on-sea, en þaðan var einmitt enskur útgefandi S.H.Draums, Simon Lakeland, hjá Lakeland Records,  nútímalega póstpönkað og nokkuð hressandi. Trommarinn og gítar/söngvarinn eru tvíburar og stelpan spilar á synta. 

These new puritans - Swords of Truth

Er Eurovision að hitna á kúlmælinum? Frakkar eru að reyna allavega og senda Sébastien Tellier með ljómandi gott tölvupopp af nýjustu plötu sinni, Sexuality. Gaurinn er dásamaður heima fyrir og slefandi svalur náttúrlega með þessi sólgleraugu. Plötuna gerði hann með öðrum Daft punkaranum og þetta er fín plata hjá honum þótt Divine (lagið sem fer í Euro) sé reyndar eina svona lauflétta popplagið á henni. 

Sébastien Tellier - Divine

The Better Beatles er gott nafn á bandi, sérstaklega ef þetta er band sem sérhæfir sig í dauðyflislegum bítlakóverum. Hér sameinast tvö af músikáhugamálum mínum, Bítlarnir og örlí 80s póstpönk. The Better Beatles voru frá Omaha, Nebraska, og höfðu held ég aldrei heyrt í Residents eða Flying Lizards þegar þeir byrjuðu að pönkdauðyflast á bítladótinu. Út kom sjötomma og LP platan Mercy beat (1981). Glæsilegt stöff!

The Better Beatles - Penny Lane
---

Hin magnaða Taugadeild, hljómsveit sem hætti fyrir Rokk í Rvk en hefði átt að vera þar, hefur opnað sér bás á alnetinu. Þarna má slafra í sig ep-plötunni frá 1981 + 5 óútgefnum lögum, lesa greinar og fleira á leiðinni sýnist mér. Svaka fínt!
---
M. Best varar við Tabasco, nýjum mextexstað í miðbænum. Sjálfur hélt ég veislu heima hjá mér með aðföngum frá Sushibarnum á Laugarvegi. Hvílík eðalfæða! Bragðlaukar mínar eru enn slefandi yfir avókadóvafða reyktu álrúllunum. Mmmm. Lang besti sushi staður landsins!!!
---
Ég fór í bíó. No country for old men - fullt hús! Það er samt alltaf eitthvað sem böggar mann í bíó. Nú skemmdi hléið algjörlega upplifunina (jafnvel meira en vanalega því þetta er svo mikil stemmingsmynd og kannski er manni meira sama um hléið á verri myndum) og yfir treilerum í byrjun sýningar, sem mér finnst nú oftast gaman að sjá, var spiluð kynning á nýjustu plötu Einars Ágústs. Hálf glatað að horfa á treilerinn af nýju Scorsese-myndinni um Stones en heyra bara eitthvað gullfallegt popplag með meistara Einari Ágúst. Óþolandi klúður alltaf á bíósýningum. Maður fer varla án þess að eitthvað klúðrist, myndin sé hálf uppi og hálf niðri í margar mínútur, úr fókus, talið detti af eða fávitar mali allan tímann fyrir aftan mann. Jæja, fokk it, samt alltaf gaman í bíó!
---
Sama kvöld vakti ég til 00:30 og glápti á Tintin et moi. Mjög skemmtileg heimildarmynd um þennan meistara sem þjáðist af ýmsu, meðal annars minnimáttarkennd. Kom fram í myndinni að hann taldi Franquin, höfund Svals og Vals, mun betri listamann en hann sjálfan. Þarna sáust líka abstraktmyndir Hergés sem ég hef leitað af myndum af árum saman. Ef ég drattast einhvern tímann í Tinnasafnið í Belgíu verður heimildarmyndin vonandi til á dvd.
---
Júlli kenndur við Silfurtóna er erindreki Strummercamp á Íslandi. Hann skrifar: Ég er að reyna að plögga þessu frábæra festivali fyrir félaga mína ytra. Að þessu sinni verður það haldið í Macclesfield (heimabæ Ian Curtis) dagana 23-25 maí. Eins og þú kannski veist þá er þetta hátíð til að heiðra minningu meistara Joe Strummer. Þegar eru komnir 3 í ferð frá Íslandi en auðvitað er pláss fyrir miklu fleiri. Þetta er ekki ein af stóru tónlistarhátíðunum en stemmningin þarna er geysilega vinaleg (svoldið eins og ættarmót) og mikið lagt upp úr að svína ekki á fólki með háu verðlagi. Lænöppið ber að þessu sinni mjög mikinn keim af ska-pönki og er ákaflega dansvænt. Ekki hefur nema brot af böndunum verið kynnt til sögu en þetta lofar feikilega góðu. Helstu bönd sem kynnt hafa verið eru dansfíflin unaðslegu í DREADZONE, The bEAT (sem áttu einmitt frábæra tónleika á fyrsta strömmerkampi og virðast bara batna með árunum), pönkrappararnir í Sonic Boom Six og hið eldheita band The King Blues sem þykir frábært á tónleikum og skartar frontmanni á úkúlellu. Af öðrum áhugaverðum má nefna Cropdusters sem er stórskemmtilegt hlöðuballa-folk-pönkband sem fór aftur á kreik síðasta sumar en gerði annars allt vitlaust á tónlistarhátíðum á níunda áratugnum, Random Hand sem er nettbrjálað skametalpönkband, stelpurnar í The Mentalists sem slógu í gegn á síðasta Kampi, nýbylgjuindígítarrokkarana í White Light Parade og fleira og fleira og fleira. Ekki má heldur gleyma heimamönnunum í Transmission sem gera allt til að endurskapa tónleikastemmningu Joy Division. Þá verður leiksýningin Meeting Joe Strummer sem hefur rúllað í Bretalandi sýnd á hátíðinni. Þá vitiði það!
---
"Bubbi kastaði upp" segir Eyjan á forsíðu. Hvað, er hann byrjaður aftur í dópinu? Eyjan verður að passa sig. Bubbi getur auðveldlega fengið 700.000 kall færi hann í mál. Vilji maður eitthvað fíflast í Bubba er mun ódýrara að berja hann bara með pönnu í skallann aftan frá. Kostar varla meira en 150.000 miðað við nýlega dóma, nema gjaldskráin sé hærri á frægt fólk en varnarlausar nóboddíkonur?

05.03.08
Bráðung krakkagrey tefla nú í Reykjavík, ellefu ára guttar nýlausir við bangsana. Enginn minnist á barnaþrælkun í þessu sambandi enda er íslenska mottóið að það sé svo agalega mikil dáð að móka yfir taflmönnum til þess eins að gera sig geðveikan. Þá er nú bílskúrinn og gítarinn uppbyggilegra form afþreyingar fyrir börn. Ég fylli húsið af blóðugum tölvuleikjum ef börnin mín sýna einhverja tilburði til að kynnast mannskemmandi geðveikisveröld skákarinnar. Bönnum skák! Eða viltu að barnið þitt verði Bobby Fischer 2?
---
Nei nei, ég segi nú bara svona. Skáknördar þurfa ekki að fjölmenna við hús mitt með kyndla og heykvíslar. Ekki frekar en tölvuleikjanördar sem urðu gasalega fúlir yfir því sem ég skrifaði um Game tíví og tölvuleiki í Fbl á laugardaginn. Eitthvað um ofbeldisrúnkfantasíur fyrir unglinga á villigötum sem hefðu ekkert betra að gera. Þetta þótti fullorðnum tölvuleikjarspilurum hræðilegt diss á innihaldsríka og mannbætandi iðju þeirra með stýripinnanna.
---
Annars er vor í lofti. Það er ekki slæmt. Jafnvel þótt það verði heimsendir eftir 20 ár skv. áræðanlegum heimildum.

04.03.08
Laugardagskvöldið 8. mars ætla nokkrir gamlir pönkarar, meðlimir úr Fræbbblunum, Snillingunum, Taugadeildinni, Tappa Tíkarrass, Q4U, Das Kapital, Oxsmá, Mogo Homo o.s.frv. að rifja upp pönkárin 1976-1978 á Grand Rokk.
Flutt verða 40 lög, sem hljómsveitir eins og Clash, Sex Pistols, Stiff Little Fingers, Ramones, Stranglers, Jam, Public Image Limited, Buzzcocks, Damned, Undertones, Elvis Costello, Blondie, Television, Crass og Sham 69 spiluðu upphaflega.
Fjörið byrjar kl. 22.00 og stendur langt fram eftir nóttu. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir, ókeypis inn.
---


Ekki er úr vegi að blasta í tilefni Pönks 2008 laginu My favourite 36 punk rock songs með hinum hressa Jason Forrest af plötu hans Shamelessly Exciting frá 2006. Eins og nafnið bendir til er verk Jasons unnið upp úr 36 uppáhalds pönklögunum hans. Meganördar geta reynt að greina í sundur hvaða lög þetta eru og mega endilega setja rannsóknarniðurstöður sínar í Gbók. Verðlaunahafi fær ferð til tunglsins aðra leið í boði Mæðrastyrksnefndar.

Jason Forrest - My favourite 36 punk rock songs

Ég hef reynt að fylgjast með Jasoni síðan ég heyrði þessi góðu plötu hans (þetta er reyndar eina svona pönklagið er restin er engu að síður fín). Nýjasta frá honum er 4-laga plata (Panther tracks vol. 1) sem hann gefur út undir alteregonafninu Dj Donna Summer (Dr Donna Summer væri betra). Sú plata er eingöngu til þess að fá fólk til að dansa, að hans sögn. Heyrum lag:

Dj Donna Summer - Rock rock rock

02.03.08
Tinni og ég á miðvikudaginn á Rúv. Maður verður límdur.
---
Nú er búnaðarþing og þar verður eflaust helsta niðurstaðan sú að hækka þurfi allt til að endar nái saman. Í tilefni af þinginu birti ég OKUR-dæmi frá sjálfum mér:

9 sveppir á 359 kr í Nóatúni okurbúllu (Hefði keypt þá í Krónunni en þar voru þeir ekki til, ekki frekar en kóríander. Það er reyndar eins og að ætla að finna hinn heilaga kaleik að finna kóríander á sunnudegi). En sem sé, það mun vera 40 kr hver sveppur. Fjörutíu kall fyrir einn svepp! Þetta er ekki okur. Þetta er geðsturlun! Og á bara eftir að versna. Enn á ný spyr maður sig: Til hvers í andskotanum er maður að hanga hérna á þessu fáránlega skeri? Og ég leiði ekki einu sinni hugann að því hverslags misnotkun á sjálfum sér maður kallar yfir sig til að eiga þak yfir höfuðið. En uss, þetta er ekki rétta hugarfarið. Það er bannað að segja svona. Maður er bara með væl. Svo, húrra, 40 kall fyrir einn svepp? Bring it on, bændamoðerfokkers. Sveppinn á áttatíu kall fyrir árslok! (extra extra: Þetta munu hafa verið hollenskir sveppir svo það þýðir ekkert að klína þessu á blessuðu íslensku bændurna.) (Ath lesanda: Mig langaði bara að benda þér á varðandi sveppina, að auðvitað eiga bændur eða hin heimska íslenska landbúnaðarstefna stóran þátt í þessu okurverði. Lagður er ofurskattur á innflutta sveppi, til að vernda eina íslenska sveppaframleiðandann. Þessi staða er stórfurðulega og mjög ólýðræðisleg, því ég er nokk viss um að yfir 90% af íslensku þjóðinni er á móti þessu. Stóra spurningin er því; hvert er lýðræðið fokið?) (Hmmm... er ekki bara lýðræðið fokkað?, svo ég taki smá Hallgrím Helgarson á þetta.)
---
Síðasta Snældan í dag. En svo má hlusta á netinu hvenær sem er.
---
Eitt blogg sem vantar illþyrmilega á blogg.gattina er blogg Bobbýs í Breiðholti. Því verður hann oft utangátta hjá manni sem er svona skilyrtur. (ath lesanda: Þetta er ekki alveg rétt hjá þér. Hann er nú þegar á BloggGáttinni, en þar sem hann skrifar ekki undir fullu nafni, þá birtist bloggið hans ekki á aðalsíðu BloggGáttarinnar, heldur hér: http://blogg.gattin.net/nafnlausir/ Þú getur hins vegar búið til þinn eigin lista á BloggGáttinni og valið þau blogg sem þú vilt fylgjast með. Þar getur þú sett Bobby í Breiðholti á þinn lista ásamt öðrum.)

Tvennt sá ég hjá honum sem er eins og bloggað út úr mínu lyklaborði. Blogg frá 10. feb um auglýsingar Kjarnafæðis.

Ég legg mig sérstaklega fram við að kaupa ekki vörur fyrirtækisins til að mótmæla hinum bjánalegu auglýsingum. Ég þoldi ekki tannskemmda gaurinn sem keypti smörrebröd og þessir ninja pizzugerðarmenn eru ekki að selja mér neitt heldur. Gleymdi mér þó um daginn og fékk mér lifrapylsu frá þeim sem var besta lifrapylsa sem ég hef smakkað á Íslandi enda með minnstu fitukleprunum. Kannski maður ætti að líta fram hjá vættrassherferðunum? Í gestabókinni skrifar D-Unit um að hún versli ekki heldur við Remax og Brimborg af sömu ástæðu - lélegum auglýsingaherferðum. Ég hef löngum haft andstyggð á Öööörugganstaðtilaðveraáááá.... og Remaxsölumenn eru Herbalifesölumenn dagsins í dag. Og ekki er servösinn góður. Það kom kona frá þeim til að verðmeta íbúðina okkar fyrir 5-6 vikum og ætlaði að hafa samband daginn eftir. Ekki múkk enn. Þessu til viðbótar er ég neikvæður í garð American Style sem hafa pínt mann árum saman með lélegum auglýsingum, nú síðast þessu bíll að fljúga í loftinu dæmi. Ég hef heldur aldrei fengið almennilegan mat hjá þeim, þetta ætti frekar að heita Staðarskáli Style.
---
Hinn glaði penni á BreiðholtsBobby rekur einnig lífsreynslusögur sínar af útvarpshlustun 31 jan og ég tek undir hvert orð. Ég hef einmitt verið að spá í það hverslags rassverklag er á Síðdegisútvarpi Bylgjunnar. Maður heyrir einmitt músasmellina þegar karlarnir leita að einhverju til að mala um. Lesið! Þess má svo geta að sami náungi (hef aldrei hitt hann) er líka með mp3-blogg og það er besta og iðnasta íslenska mp3-bloggið í dag, ekki spurning.
---
Astrópía leið hjá vitum mínum í gær. Ég hélt þetta væri einhver snilld en þá var þetta bara Pappírs-Pési 2. Hafnarfjörður er engu að síður frábært pleis!

01.03.08
Í gestabók var bent á viðtal við stofnanda The Syn, Stephen Nardelli, þar sem hann ræðir meðal annars um Gunnar Jökul. Geysilega athyglisvert stöff.
---

Höfðingjarnir hjá Vestfiski hafa algjörlega farið hamförum í að bæta fyrir það tilfinningatjón sem ég varð fyrir vegna lélegs harðfiskpoka frá þeim og lýst er hér að neðan. Þeir sendu mér kassa fullan af eðal harðfiski og það sem mér sýnist vera helstu afurðir þeirra. Ég get staðfest að um algjört óhapp var að ræða með téðan poka og að Vestfiskur framleiðir aðeins eðalvöru. Þeir sendu mér stóran poka af ýsu, eins og þann sem ég keypti, nema innihalds þessa er slefandi unaðslegt. Einnig kom steinbítur í sömu stóru stærðinni og er um að ræða hvílíkt hnossgæti að bragðlaukarnir fóru til himna, skruppu í jurtameðferð og sána, og snéru til baka í silkislopp. Vestfiskur sendu líka minni stærðir, "Harðfiskur þín vegna" með sniðugum teiknimyndafiski framan á sem minnir á það þegar Homer Simpsons fann sjálfan sig á japönskum þvottaefnakassa og síðan hið landsfræga Sýslumannskonfekt, bitafiskur sem toppar annan bitafisk á Íslandi. Sem sé, nóg af harðfiski heima hjá mér næstu vikur og gaman til þess að vita hvílíka vigt í dægurmálaumræðunni þessi síða er talin hafa.
---
Íslendingum er ekki vel við væluskjóður, hvað þá væluskjóður sem fara með hvaða smáskít sem er fyrir dómstóla. Það er ameríska leiðin og hún er fyrirlitin á Íslandi. Tja, allavega til þessa. Kannski erum við að breytast í land vælandi slúbberta (svo ég vitni í Jónas). Leiðinleg þróun.
---
Það er skrítið að vera ekki upp í sjónvarpi í kvöld að fylgja eftir einhverju lagi. Og bara engin Laugardagslög í kassanum! Tómlegt. Eða ekki. Frelsandi kannski frekar. Ég skilaði að mér þremur lögum eins og samið var um. Ísinn, frábæru popplagi sem hinn (þá) dularfulla Mengella samdi textann við á Humarhátíð. Heiða söng en lagið hvarf algjörlega. Ég er enn að vona að önnur hvor ísgerðin kaupi lagið til að plögga sig með í sumar. Svo kom Drepum tímann, sem var líka frábært lag. Ég fékk tækifæri til að vinna það með Óskari Páli Sveinssyni, sem er gríðarlega góður í svona poppdóti. Ég fékk Siggu úr Hjaltalín og Kalla úr Baggalúti til að syngja það. Þau gerðu það dúndurvel en enn á ný hvarf lagið eins og dropi í hafið. Við vorum reyndar einstaklega óheppin með að þjóðin uppgötvaði húmorinn í Barða Jóhannssyni einmitt sama kvöld og við fluttum lagið. Þegar hér var komið við sögu var ég orðinn nokkuð örvæntingafullur. Ég var tvisvar búinn að detta út eins og einhver poppaumingi. Ég var tilbúinn með þriðja lagið, Prinsessan mín, og búinn að tala við Buff um að flytja það. Þeir voru orðnir heitir. En með sigri Ho ho ho sá ég að þjóðin vildi gott flipp og ekkert rugl, svo ég ákvað að spýta í flipplófana og hringdi í Óttarr Proppé. Við hittumst heima hjá honum, við tveir, Finni og Franz. Ég var með rokkkaflana tilbúna, Franz kom með hljómaganginn í ballöðu-viðlaginu, Finni byrjaði að syngja melódíuna, "Hvar ertu nú?" var með frá byrjun. Svo slípaðist þetta til á æfingum og í stúdíóinu. Textann sauð Óttarr saman á staðnum. Lagið og textinn og öll innkoma er því skipt hnífjafnt í sjö hluta á milli mín og Spockanna sex, enda er þetta hreinræktað samstarfsverkefni. Svo gekk plottið auðvitað upp, hinn litli gáfaði hluti þjóðarinnar kolféll fyrir töfrum Spocks, og við enduðum með brons og urðum gífurlega glaðir með það.
---

Hér eru nokkur Eurovision-demó sem ég legg fram í nafni sannleikans (og sjálfhverfunnar). Ég að syngja þessi lög og þetta tekið upp með mínum óslípaða standard. Þarna er líka orginal útgáfan af Ég og heilinn minn, sem var fyrsta skref mitt í Eurovision pottinn. Þarna er líka demó af laginu sem Buff átti að spila, Prinsessan mín. Þeir notuðu þetta ekki á plötunni sinni væntanlegu (sem er ótrúlega óskiljanlegt) svo kannski gef ég þetta út í alvöru upptöku einhvern tímann þegar/ef ég geri aðra sólóplötu. 

Dr. Gunni - Heilinn (demó)
Dr. Gunni - Ísinn (demó)
Dr. Gunni - Drepum tímann (demó)
Dr. Gunni - Prinsessan mín (demó)

29.02.08
Mikið er ég feginn að vera ekki "Þvagleggsmaðurinn".
---
- Við erum að spá í að vera á Ísafirði um páskana.
- Ha, Borgarnes?
Þetta er dæmi um samskipti mín og mömmu minnar. Foreldrar mínir eru orðnir ævagamlir og eru enn eina ferðina á Kanarí um þessar mundir. Þess vegna er ekki úr vegi að skella hér lagi með El Guincho, eina tónlistarmanninum sem ég þekki frá Kanarí, en hann ku vera að gera allt geðsjúkt þessa dagana á mp3-blogginu. Lesið meira í Fréttablaðinu í dag, auk þess að lesa allt um fataskáp Óttarrs Proppé og þau stórtíðindi að Brian Eno sé á leið til landsins!!!


El Guincho - Fata Morgana (af fyrstu plötunni hans Algranza)
Brian Eno - Baby's on fire (af Here Come the Warm Jets frá 1974)
---
Kæru landsmenn, þið sem eydduð 1.159.839 krónum í að kjósa Spock í þriðja sætið – ég þakka ykkur af alhug.
---
Annars er hlaupársdagur og það ætti að gefa öllum frí.

28.02.08
Ertu þá búin að ná botninum í sjálfskynningunni? spurði Lufsan, ekkert sérlega ánægð. Hún vill meina að ég hafi ekki varað hana við þessum nektarmyndum af mér í Séð og heyrt. Hún hafði séð forsíðuna í auglýsingu í Fréttablaðinu. Uh, já já, ætli það ekki bara, reyndi ég að tafsa og útskýrði fyrir henni að ég hafði nú bara látið mig hafaða af því ég vorkenndi Eiríki Jónssyni svona mikið þegar hann hringdi. Ég meina, hann greyið reynandi viku eftir viku að ljúga því að þessari örþjóð að það séu einhverjar stjörnur hérna. Eins og þegar hann hringdi í Grím viku eftir skilnaðinn, spyrjandi ískalt eins og ekkert sé sjálfssagðara í lífinu: Er allt í lagi heima hjá þér? Hvers konar skítadjobb er nú þetta? Það er eitthvað svo sorglegt hlutskipti að vera ritstjóri Séð og heyrt. Og ef ég get hjálpað fólki í þessari vandræðalegu stöðu þá er það nú það minnsta að ég hátti mig.
---
Í hitti ég heimsfrægan mann, Tomi Petteri Putaansuu.

27.02.08
Pungrokksveitin Mjöög hefur tekið Helvítis gráðugu fífl af Að gefnu tilefni. Hlusta má á mæspeisinu.
---
Ég skrifaði um hræðilegan leka í æfingarhúsnæðum. Hjá Kimono sluppu þó menningarverðmæti, Ludwig 59 trommusett Gunnars Jökuls slapp við vatnsflauminn. Þetta er lán í óláni. 

Hér er skársta myndin sem ég fann af Gunnari með settið. Hér er svo Flowerman með The Syn, en öll lögin 4 sem ég hef heyrt með Syn eru snilld, eins og allt annað sixtís (og seventís) dót sem GJ trommaði á. 

The Syn - Flowerman

Líklega er hér lamið á það trommusett sem bjargaðist úr ofnabömmer Jóa Fel.

24.02.08
Jááááááá!!! Brons er nú aldeilis betra en ekkert! Það var fagnað fram undir morgun enda leið okkur eins og sigurvegurum kvöldsins. Hver hefur sungið á serbnesku með gula gúmmíhanska á höndunum og náð svona langt áður? Enginn! Ég samfagna með Friðriki og Regínu, blessuðu fólkinu langaði til að vinna meira en öllum hinum til samans, og það var gjörsamlega nauðsynlegt að gefa þeim breik. Ég tek ofan fyrir Mercedes Club. Þau toppuðu bara alltof snemma. Grínið var orðið frekar þreytt og ekki skánaði það með þessu ofbeldisfulla megaplöggi sem fældi nú bara frá ef eitthvað er. Þú treður þér ekki svona upp á þjóðina. Það var eitthvað ljóðrænt við þessi úrslit og ég er ekki frá því að þjóðarsálin speglist tandurhrein í þeim. Dáldið hallærislegt samt þetta tómu tunnu dæmi hjá sigurvegaranum enda muldruðu tröllinn eitt og annað miður fallegt á leiðinni út af sviðinu. 
---
Hugmyndin var að fjarstýra gula hanskanum inn á sviðið í miðjum sigurflutningnum, en því miður gugnuðum við á því. Ef Spock hefði unnið voru komnar gríðarlegar hugmyndir að búningum fyrir Belgrad. Ein var uppblásinn gúmmífálki sem hefði sprottið upp á handarbaki Óttars og svo var verið að tala um dverga og risavaxna gula hrefnu. Evrópa missir af því öllu...
---
Það var verið að gantast með það að með þessu framhaldi ætti ég að vinna árið 2010 (Varð fjórði í fyrra, þriðji í ár), en ég held að þetta sé orðið ágætt af Eurovisionþátttöku minni í bili. Maður ætti kannski að fara að gera eitthvað að viti, ha? Enn meira viti, meina ég.
---
Í kvöld um kl. 21 leik ég og syng með Bigga og Grími á NASA á undan Hayseed Dixie og Baggalúti. Platan Að gefnu tilefni verður leikin í heild sinni í fyrsta skipti og kannski það síðasta (ræðst af þróun borgarmála) og einnig mætir leynigestur og syngur leynilag. Helvíti æðislegt sem sé. 

23.02.08

Þá, góðir hálsar, er komið að því. Hvaða ár er? 2008 ekki satt? Í hvaða númer á þá að hringja? Nú, auðvitað

900-2008
---
Gestadómarahlutverkið hjá Bubba var ljúft og löðurmannlegt og Bubbi bað mig um að segja að það hafi ekki verið neitt sellát. Það eru allavega 3 helvíti góðir barkar þarna, en lagavalið mætti auðvitað vera miklu betra. Það þyrfti helst að sérvelja eitthvað gott stöff oní liðið, ekki bara leyfa klisjunum að vaða uppi endalaust. Það var hörkupúl að hafa eitthvað til málanna að leggja þegar Bubbi á hásætinu og Villi og Bjössi voru búnir að úttala sig, ég meina, hvað getur maður sagt um frekar lélegan söng á einhverju frekar lélegu Sálar lagi þegar allir hinir eru búnir að segja nákvæmlega það? Maður yrði alveg búinn áðí að standa í þessu vikum saman og þar með segi ég dómgæslustörfum mínum í karókí lokið í bili. En um leið og einhverjum dettur í hug að búa til sjónvarpskeppni þar sem fólk flytur eigin frumsamin lög skal ég glaður taka að mér dómarastörf á ný.
---
Annars fannst mér gaman hversu ódipló dómararnir voru. Sjálfur er ég alltof góður gæi til að þrældissa krakkagrey. Ég mótmæli því svo harðlega sem Bubbi sagði um tottun hinnar eitilmögnuðu Shady Owens (sem er með fáum söngkonum sem lætur mig fá bona fide gæsahúð með söng sínum) og að Án þín sé ömurlegt lag? Djöfulsins rugl. Þar að auki er Sekur með Start ágætis stuðrokk og þrungið nostalgískri áru, en reyndar "Hakk og handjárnið"? Hvað er það?
---
Neytendamál:
Harðfiskframleiðendur leggja mikið á sig til að koma vel út hér á síðunni. Maður frá Vestfiski sem ég stólpadissaði hér að neðan hafði samband og bað mig um að senda sér númerið aftan á pokanum. Málið er nú í vinnslu og fær eflaust jákvæð sögulok enda trúi ég því ekki að harðfiskmenn í Hnífsdal séu með skítinn upp á bak nema í algjörum undantekningartilfellum. Ég trúi hreinlega ekki öðru en allur harðfiskur á Íslandi sé æðislegur! Harðfiskmafían í Hafnarfirði sendi mér svo bragðgóð sýnishorn og þetta bréf:

Kann ég harðfiskgerðarmönnum bestu þakkir og bendi öðrum framleiðslugreinum á að gott plögg á þessari síðu jafnast á við heilsíðuauglýsingu í víðlesnum dagblöðum. Mega humar-, nautakjöts- og sushi-framleiðendur sérstaklega taka þetta til sín og jafnframt hóteleigendur á landsbyggðinni og ferðaskrifsstofur. Svo ekki sé talað um Ford Mustang umboðið.
---
Dvergtuddinn bíður upp á ukulele-gripasöngbók. Á bls. 16 er Ástfangi með Bless.
---
Ég vaknaði upp með ægilega löngun til að hlusta á ELO. Fyrir töfra nútímans var ég kominn með tvöfaldan best of pakka í tölvuna korteri síðar.

20.02.08

Snælda online. Síða í vinnslu.
---
Stærsta plötusafn í alheimi er til sölu. Tékk itt.

18.02.08

---
Þetta var svokallað myndablogg.
---
Annars eru víst Leoncie og Ingólfur Guðbrandsson byrjuð saman og búa hér.

17.02.08
Snælda í dag kl. 14 á Rás 2!
---
Vinsældir Baracks Obama eru ekkert skrýtnar en ef einhver er að leita að ástæðunum eru þær tvær helstar: Will Smith og Denzel Washington. Hversu oft eru þeir búnir að bjarga heiminum? Ég sá annars að aumingja ræfillinn hann Jay Leno er ennþá að ruglast á Óbama og Ósama og það sem verra er þá hlær hann ennþá jafn mikið. Hversu innilega sorglegur er sá náungi? Það hefði nú verið betra hjá Skjánum að leyfa honum bara að liggja í salti, sýna framsýni og taka frekar Conan O'Brien inn í staðinn. Ég veit ekki betur en Conan eigi að taka við hinum þreytta Leno hvort sem er á næsta ári.
---
Næsta helgi verður gríðarlega hefí með stórviðburðum á öllum kvöldum: 1.Ég á að vera gestadómari í Bandinu hans Bubba á föstudaginn. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en of seint, þar eð, eftir að ég var búinn að segja já, að það er andstætt yfirlýsingum mínum að taka þátt í svona karókídæmi. Ekki endilega að mér finnist þetta eitthvað fyrir neðan mína virðingu heldur af því að það eru endalaust einhverjir framhaldsskólar að hringja og biðja mig um að dæma í söngkeppnunum þeirra og ég segi alltaf að ég dæmi ekki í karókíkeppnum en ef málið snúist um frumsamda tónlist þá komi ég. En svo kem ég skríðandi þegar Bubb-co hringir eins og eitthvað slefandi sellát. Jæja, of seint að spá í því. Ég er bara slefandi sellát, þá vitum við það. 2. Smáralind og lokakvöld Eurovision með Dr. Spock á laugardagskvöldið. Undirbúningur stendur yfir. 3. Spila á Nasa á undan Baggalúti og Hayseed Dixie á sunnudagskvöldið. Þrátt fyrir yfirlýsingar um annað mun ég mæta á svæðið og taka nokkur mót- og meðmælalög með þeim Bigga Baldurs og Grími Atlasyni sem leika með á trommur og bassa. Maður er ekki vanur svona útstáelsi og fjarveru trekk í trekk. Helginni hefur því verið gefið nafnið Bubbeurodixie-helgin 08.
---
Tónleikahaldarar: Viljið þér fylla Höllina prófið að tala við AC/DC hópinn.
---

Platan Crazy Rhythms með New Jersey-sveitinni The Feelies er mögnuð snilld. Platan kom út árið 1980 hjá enska Stiff merkinu og er á algjörri skjön við annað sem Stiff gaf út. Hér samkrullast innfeidandi krautrokkaðir sífellutaktar, þjóðlagalegir tandurhreinir gítarar (teknir upp beint í mixerinn til að fá ofur klín sánd), nördainnísigtuðsöngur og skemmtilegar melódíur. Um hina mögnuðu plötu má lesa meira hér, hér og hér. Ég var svo ánægður með hana að ég keypti allar plötur Feelies og plötur með sædprójektunum The Trypes og Wung yu. Ekkert af þessu komst með tærnar að hælum Crazy Rhythms. 

af Crazy Rhythms:
The Feelies - Loveless love
The Feelies - Forces at work
The Feelies - Crazy rhythms

af Only life (1988)
The Feelies - It's only life

Þess má geta að ég hef kannski tekið fatastíl sveitarmeðlima full mikið inn á mig, a.m.k. er ég oft skammaður heima fyrir að gyrða buxurnar full langt upp á brjóstkassann. 

16.02.08
Ég læðist oft upp á háaloft til að hnýsast í gömul blöð. Þessar ljóðlínur meistara Þorsteins Eggertssonar hafa löngum verið mér hugleiknar því sem barn hékk ég löngum stundum yfir gömlum dagblöðum, bæði upp á háalofti heima hjá mér og í fúkkakjallara ömmu og afa á Akureyri. Því er dásamlega æðislegt að geta aftur tekið til við þessa iðju með hjálp snilldarinnar Tímarit.is. Hið nýja lúkk síðunnar er þaðan. Ég var ekki nógu ánægður með teiknimyndamörgæsina Chilly Willy sem var hérna í bakgrunni í smá tíma áður og sem betur fer fékk ég mér aldrei tattoo með Chilly Willy eins og ég var að spá í í kringum 1990 þegar það var ennþá þokkalega kúl að vera með tattú.
---
Dýpri skilning á Dóragena-dissi Bubba las ég á heimasíður Henrýs Birgis
Bubbi ritaði: 
15. febrúar 2008 kl. 7.01
Nei ekki hörundssár en er ekki MIllinafnið DNA smá húmor og kanski dálítið föst stunga
geta menn ekki R—-ð sér yfir þessu eins og Dóri seigir sjálfur.

Magnað annars að Bubbi sé kominn af fullum krafti á internetið. Nú vantar bara Megas sem nikkið "Magnús" dissandi mann og annan. Jafnvel gætu "Ásbjörn" og "Magnús" farið í netbíff á einhverjum spjallþræði.
---
Í Noregi segja ráðherrar af sér fyrir að ráða vini sína í vinnu. Á Íslandi... öö, fara ráðherrabörn í meinyrðamál við sjónvarpið og heimta 3.5 millur.
---
Bag of Joys var stuðband. Megnið af útgefnu efni sveitarinnar má dæla inn frítt af neti, t.d. hér hjá Magga Strump og hér hjá Unnari sem var í bandinu. Mæli með þessu, t.d. laginu "Dizzy" af Vermand litlu plötunni. Mjög gott intró frá Rikkrokki.
---
Hér má nú kaupa lögin í Laugardagslögunum, þar á meðal 3 eftir mig. Nokkuð fyndið að lögin í 12 laga pottinum kosta 149 en hin lúserlögin kosta 99.
---
Neytendamál:


Kjörís bíður upp á samkeppni við Ben og Jerrys í ísdollubransanum. Eru með fjórar tegundir af ís blönduðum ýmsum nammitegundum frá Nóa Síríus. Ég lét til leiðast og smakkaði Trompís. Niðurstaða: Alveg la la, en á ekki séns í Ben og Jerrys. XX


Harðfiskur er rándýr munaðarvara. Maður hefur ekki efni á að gera mistök í innkaupum á harðfiski. Ég gerði hrapaleg mistök og keypti hálft kíló af Vestfiskur harðfiski. Þetta er daunilt bragðvont rusl sem smakkast eins og eitthvað til að gefa hundum. Glerharðir hálfhráir bitar og ég sé hreinlega ekki fram á að ég geti klárað þennan poka. Svakalegt að þurfa að henda svona munaðarvöru. Flottar umbúðir, svo ég segi nú eitthvað jákvætt. Ég ætla rétt að vona að um mistök í gæðaeftirliti sé að ræða hjá Vestfiski og að þeir geti gert betur en þetta. O

15.02.08
Ég get ekki betur séð en að sá sem gerði myndbandið við GGV hafi tekið það út aftur vegna vælsins í mér. Það voru rúmlega 3000 manns búnir að skoða það er ég gáði síðast. Hér er svo enn eitt viðtalið.
---
Allir, bæði sjallar, kommar og kratar, eru yfir sig hamingjusamir með verðlaunatillöguna í Vatnsmýrarskipulagskeppninni. Þetta er hreinlega unaðsleg framtíðarsýn. Aldrei hefur önnur eins himnesk snilld komið fram. Aðal trompið virðist vera að það verður önnur tjörn í miðbænum, "Nýja tjörnin". Nú veit ég ekki alveg hvað er svona æðislegt við að fá nýja tjörn nokkuð hundruð metrum frá gömlu tjörninni. Er hún ekki alveg nóg með sínum glorsoltnu skítamávum, brauðsósa öndum, drullu og rottugangi? Hvað er svona geðveikt við það að fá nýja tjörn? Ég bara næ þessu ekki. Gæti einhver spurt Hönnu Birnu hvað er unnið með því að fá aðra tjörn í miðbæinn.
---
Vefmyndavélar eru örugglega stórsniðugt fyrirbæri, en ég hef reyndar aldrei mikið nennt að hanga yfir slíku. Það er allt fullt af svona. Nú er Eyjan komin með vefmyndavél á Bankastræti. Hér er listi yfir aðrar innanlands.

13.02.08
Þegar maður heldur að Bubbi sé alveg kominn á kaf í kokteilboð góðborgaranna gerir hann eitthvað magnað eins og þetta rasista gigg. Þess vegna fílar maður Bubba, af því hann er svo hrikalega fjölbreyttur og sannur í margfeldni sinni. Spegill þjóðarinnar! Nú er ný glæsileg Bubbasíða komin upp þar sem m.a. er boðið upp á spjallborð. Mér sýnist sjálfur kóngurinn taka þátt í umræðunni um sjálfan sig sem nikkið Ásbjörn. Skiljanlega er Bubbi frekar fúll út í þá sem dissað hafa þáttinn hans opinberlega og skýtur glerhörðum skotum til baka hér. Mér finnst samt leiðinlegt að Bárði, umsjónarmaður síðunnar, finnist vinnustaður minn vera "einhver aumast snepill fréttamennskunnar..."
---
Meira af poppurum í vígahug: Hér eru þeir Einar Ágúst, Guðmundur í Sú Ellen og fleiri meistarar að ræða gæði útvarpsstöðva. Nokkrar laglegar eiturpillur ganga þar milli manna.
---
Ég sem hélt að Obama væri von heimsins en þá skrifar Jónas: Barack Obama er skósveinn hinna ofsaríku, sem borga kosningaslagi. Þeir dá hann mest allra, því að þeir vita, að hann mun gæta vel hagsmuna þeirra. Hann er fullur af innantómu orðskrúði, sem fer vel í kjósendur. Sem sé: Það er engin von samkvæmt Jónasi og best að fara bara og slafra í sig á Fiskmarkaðnum, sem Jónas hrósar þessi ósköp í dag. 
---

Poetrix - Rónaljóð
Dúndurplata Poetrix, Fyrir lengra komna, kemur út á morgun. Ég tók viðtal við þennan efnilega strák í blaðinu í dag. Hann hefur marga fjöruna sopið - kannski allan Breiðafjörðinn - en lenti á löppunum. Platan er helvíti fín, textabók og alles og meira að segja smá ritgerð um innihald hvers lags. Rosafínn og útúrspikaður pakki sem sé. Hér er eitt af mörgum fínum lögum plötunnar, Rónaljóð, sem ógæfumaðurinn Reynir kokkur tekur þátt í.

12.02.08
Fyrst ég fæ líklega ekki Ford Mustang fyrr en í fyrsta lagi um fimmtugt þá er næsta skref í gráum fiðringi að fá sér La-Z-boy stól. Verst að Lufsan er algjörlega mótfallin slíku, finnst þetta allt svo ljótt og vill ekki sjá svona ferlíka í stofunni sinni. Ég sagðist ætla að búa til undirskriftarlistann Leyfðu manninum þínum að kaupa La-Z-boy en hún segist ekkert slá af þótt það skrifuðu þúsund manns. Þá er bara að halda áfram að suða...
---
Einhver apaköttur hefur búið til algjörlega metnaðarlaust myndband við GGV. Ég lýsi algjöru frati á það rusl og innihald þess. Afhverju er verið að draga þessa góðu borgarstarfsmenn inn í málið á svona viðbjóðslegan hátt? Ef höfundur myndbandsins er að lesa þetta skipa ég honum að fjarlægja þetta tafarlaust af veraldarvefnum annars finn ég hann og mæti með Ómar Valdimarsson og nokkra lögfræðinga heim til hans. Þetta er víst komið á Jútjúb og Eyjuna og fólk út í bæ er farið að skamma mig alveg bandvitlaust út af þessu forljóta rusli: 

Ég vona að þú hafir ekki samið og sungið þetta því þá hef ég misst þónokkuð álit á þér. Það er margt gott sem þú hefur gert og þá sérstaklega með okursíðuna en svona hlutir eru hreinlega ljótir.

Ef þetta er ekki eftir þig þá myndi ég leiðrétta þetta strax áður en kellingarnar á Barnalandi éta þig lifnaid.

Kv.
H....
---
og Neeeiiiiiii!!!! Barnaland er komið í málið. Nú er eins gott að pakka bara niður strax og flytja til Ulan Bator...

11.02.08
Þrátt fyrir vísbendingar um annað virðist Að gefni tilefni ætla að lafa hér inni eitthvað enn. Sem betur fer kannski. Öllum að óvörum var dómur í þriðja minnst lesna dagblaði landsins í dag.

(Þess má geta að birting þessarar gagnrýni er homage á Leoncie.)
---

Natóþotan hefur gert lokkandi ábreiðu af Handrukkurum lýðræðisins. Koma svo, gera fleiri kóverlög af mótmælaruslinu!
---
"Jón Viðar Jónsson" poppfræðinnar er vinur minn Steinn Skaptason (farðu þangað fyrir magnaða poppsagnfræði). Hann hefur nokkrar athugasemdir v/ fyrsta þáttar Snældu. Það er ljúft að koma þeim á framfæri hér:

Ég neyðist til þess að benda þér á nokkur mistök í umfjöllun
í þessu annars ágæta þætti.

1. :-(
Vantaði alveg að nefna safnbíla kassetturnar
Úrval 73 og Úrval 74 frá SG hljómplötum (eða var það ÁÁ Records),
æ - ó, man ekki alveg hvor gaf út. Man samt alltaf umslögin/slífin og flytjendur á þeim.
Finnst bæði að það megi nefna þær og þurfi að bætast við í næstu þáttum.
Vegna þess að þetta eru allra fyrstu bíla og safn kassetturnar á íslandi.
Kassettur komu almennt á markaðinn á Íslandi á árunum 1972 / 73 !
Á árunum 1974 - 1976 voru 8 rása kassettur einnig gefnar út til notkunar í bílum !
Þá voru venjulegar kassettur orðin almennings eign einsog þú réttilega fjallaðir um.

(og síðar): Það var SG hljómplötur sem að þessu stóð. Mér datt þetta í hug sem algjört safnsældumöst fyrst þú minnist á safnsnældur í bíla í upphafi þáttarins með áður útgefið efni af plötum gefið út af Steinari og SG hljómplötum minnir mig að þú hafir nefnt líka. Það er að segja áður en þú fórst út í jaðardótið sem þátturinn rúllaði með og gekk út á. Ég er að tala um fyrstu eina og hálfa mínútu af þættinuim sem rúllaði og þá hefði verið flott að bæta þessu við. Jæja, nú er ég hættur að tuða meira um þetta.

2. :-( 
Umbúðir utan um Vísnavina kassetturnar voru unnar og prentaðar 
hjá Prentverki Skapta Ólafssonar í Holtagerði 15 í Kópavogi,
þannig að það er ekki rétt að liðið hjá Vísnavinum hafi handgert eða unnið þessar umbúðir,
aðeins hannað þær. Ekki var um föndur per eintak að ræða,
heldur stöðluð vinnubrögð. Þannig að rétt skal vera rétt.

Ég ætti að vita það vel, vegna þess að við pabbi vorum að þessu út í skúr,
settum þær, prentuðum þær og brutum + pökkuðu og afgreiddum svo til Gísla Helga
sem kom svo og sótti upplagið, þáði kaffi og spjall hjá mömmu.

3. :-I
Staðurinn sem Kókóið lék tvívegis fyrir neðan Hornið hét Djúpið.

10.02.08
Obama er eitthvað nýtt. Háleitar hugsjónir og einhver drifkraftur og sýn sem auðvelt er að kaupa. Svo verður þetta kannski sama sullið og alltaf ef hann verður forseti (ef hann verður ekki skotinn áður) en það má vona einsog fífl. Hillary er kannski skárra en pungfýldur McCain-skarfur en hún er ekkert nýtt. Bara miðaldra kerling í forstjórapilsi sem við erum búin að hafa árum saman í íslenskum stjórnmálum. Hér vita allir að enginn munur er á kerlingu eða karli í pilsi eða buxum.
---
Dagbjartur um bumbuleikara í Ho ho ho: Afhverju er þessi maður með stór brjóst eins og þú mamma?
---
Það er síðasti séns að hlaða niður Að gefnu tilefni. Ég tek þetta úr umferð þegar GGV hættir.

09.02.08

Í þættinum á morgun verður fjallað um fyrirbærið kassetta, spólur Vísnavina, hina mögnuðu súrrealísku popphljómsveit Fan Houtens kókó sem gaf út tvær æðislegar spólur Musique Elementaire og Það brakar í Hr. K og við heyrum í Bubba, Hjördísi Bergsdóttur, Ónýta gallerýinu (Sigurjón Kjartansson í unglingaflippi á Ísafirði), Hinu afleita þríhjóli, Ást, Slagverk, Jóa á hakanum og Vonbrigði. Mega stuð!
---
Í rannsóknum mínum rakst ég á heimasíðu Jóa á hakanum. Þetta var flippband úr MH mitt á milli The Residents og Melchoir. Á heimasíðunni má sjá þátt sem bandið gerði hjá Jóni Gústafssyni í Rokkarnir geta ekki þagnað. Þess má geta að ég rakst á söngvarann "Rúnka Busa" í Þórsmörk í sumar þar sem hann var á ferðalagi á gömlu jeppa með eiginkonu sinni. 

08.02.08

Hot Chip - Hold on
Vampire Weekend - A-punk
Robyn - Be mine

Hey rólegur á veðrinu, veðurgvöð. Er þetta nú ekki orðið ágætt núna? En smá mússekk þá á meðan við bíðum af okkur storminn og slabbið sem kemur svo. Heiti bitinn kom með nýja plötu, Made in the dark, og mér hefur dável reynst að hafa hana í eyrunum. Fáum sýnishorn. Vampíruhelgi er örlí-talandi höfuð plús appelsínudjús og það seinasta í hva, ertu ekki að fylgjast með-deildinni. Ágætt nördagleraugnapeysuekkert föss á gítarnum indípopp og jafnvel meira en það. A-punk er gullfallegt ekki síst fyrir barrokkflauturnar. Hvað er þetta blokkflauta? Eða teip-hljómborðið sem Bítlarnir notuðu á Strawberry fields en ég  man ekki hvað heitir og nenni ekki að gúggla en einhver má hvísla að mér í gestabók? Robba litla er svo sænsk poppfluga sem hefur flögrað um eldhús innihaldsleysisins í nokkur ár. Hana má jafnvel sjá labba innan um skærlita kassa á popptíví. Ég er að fíla þetta allt. (ps: Stúlkan með grísina fannst við myndaleit að "Robyn". Náttúrlega mun flottari mynd en af þessu hvíthærða poppkvenndi.)
---
Spurningin er bara hverjum er þetta Reidrasl um að kenna? Þarf ekki að reka einhvern? Og jafnvel setja í gapastokk? Eða er bara nóg að menn grenji smá í sjónvarpinu?

05.02.08
Hér að ofan er auglýsing fyrir klukkutímalangan þátt, Snælda, sem hefst á sunnudaginn á Rás 2 kl. 14. Þetta verða alls fjórir þættir og rekja þetta mesta öndergránd af öllu öndergrándi, íslenskum útgáfum á kassettum. Glæsilegt hjá Rás 2 að bjóða upp á þetta á præmtæm, þættirnir eru fullir af suði, snarki, geðveikt tilraunakenndri tónlist og öðrum skemmtilegheitum – voða lítið Bylgjanstæl. Þessi saga hefur aldrei verið sögð áður svo um mikið brautriðjendastarf er að ræða. Í fyrsta þættinum heyrist m.a. í fyrsta útgefna Bubba Morthens í heimi og snilldarbandinu Fan Houtens Kókó.

03.02.08
Það er nebblega það: Hvar ert nú? bara komið í úrslit. Smáralindin og læti 23. feb. Jess beibí! Ég þakka þeim sem studdu.
---
Ég get ekki kvartað yfir viðtökum á EP-plötunni Að gefnu tlefni. Hún hefur verið hlaðin niður hátt í 1400 sinnum á viku og selst í 29 eintökum. Þar sjáiði það. Cd er deyjandi dæmi. Fyrirmynd plötunnar er auðvitað 7" EP-platan Þjóðhátíðarljóð 1974 með Böðvari Guðmundssyni og Kristni Sigmundssyni. Hún var til í plötuskápnum heima og ég spilaði þetta slatta áður en pönkið kom. Skemmtilegast var auðvitað að heyra orðið "alþýðupíka", en einnig er gaman hvernig Böðvar syngur "ammrrríski" og gaman er að frumbernskulegri hljóðgerflanotkuninni. Gott stöff! Mér sýndist Böðvar ekkert svo spenntur að tala um þessa fortíð sína þegar ég sá hann um daginn í Kiljunni og ég held þetta sé ekkert á leiðinni á disk í bráð. Því langar mig til að bjóða upp á plötuna hér fyrir áhugafólk um kalt stríð og horfna hugsjónabaráttu.

Hlið A. Lofsöngur / Þessvegna er þjóðin mín sæl

Hlið B. Kanakokkteillinn / Vel varið land hf. / Varðbergssöngur---
En aftur til nútímans. Ekkert kommarugl hér. Bara flott föt á karla.
---
Þeir eru hressir á Djúpavogi og líst vel á sundlaugagagnrýnina. Það er vonandi að einhver endurnýjun eigi sér stað bráðlega á sund/fjöll síðunni – a.m.k. þegar vorar.
---
Í gegnum aðdáendaklúbb Hellvars rakst ég á þessa síðu þar sem má m.a. lesa afar jákvæða umsögn um Stóra hvell.


Hent að mörgu gaman