17.08.11
Íslendingum hættir til að gleyma því hvað Björk er mikil alþjóðleg
stjarna. Eða kannski vitum við það en nennum ekki endalaust að velta
okkur upp úr því. Þess vegna hefur Fréttablaðið sagt okkur frá því að
The Charlies hafi nýverið troðið upp á sama sviði og Lady Gaga spilaði
á árið 2008 (sjálfur pissaði ég einu sinni í klósett sem Sting pissaði
í árið 1996), en hefur ekki haft fyrir því að segja okkur frá því að
bandaríska netsíðan Stereogum hefur sett ókeypis Bjarkar tribjút plötu á netið
þar sem allskonar indie-lið eins og Xiu Xiu og Liars taka plötuna
Post frá A-Ö. Björk treður þar í fótspor R.E.M. og Radiohead hjá
vefsíðunni.
---
Charlie Brooker er mikill meistari og þættirnar hans How TV Ruined your
Life eru mikil snilld. Ef þú ert ennþá eitthvað að pæla í þessum
óeirðum í UK þá skrifaði hann pistil um málið á Guardian.
---
Blaz Roca efnir til remix keppni í samvinnu við Prikið. Allt um málið og akapella Blaz hér.
15.08.11
Hér er einhver besta mynd sem ég hef séð af Jón Bjarnasyni,
aðalráðherra lýðveldisins. Eða öllu heldur eina myndin sem ég hef séð
af honum þar sem hann lítur ekki út eins og Prúðuleikaraútgáfan af
Georgi Bjarnfreðarsyni. Þetta er hann og frúin í góðum gír in ðe sixtís
og kemur myndin úr Heima er bezt frá því í september 1988. Í því
tölublaði var langt viðtal við Jón sem þá var skólastjóri á Hólum.
Þetta er glæsilegt ungt fólk og leiðinlegt að Jón hafi orðið að því sem
hann er í dag: Lamandi afturhald og andstæðingur neytenda og
fjölbreytni. Eða það les ég alla vega sums staðar.
Afturhaldið og einhæfnin er nú samt ekki meira en það að á föstudaginn
komst ég í spikfeitt í Síðumúlanum og keypti gúmmilaði beint frá
Tyrklandi eða þar um kring. Að Síðumúla 17 hefur opnað verslunum Tyrkneskurbazar Reykjavík
með allskonar fönkí stöffi beint frá svörtustu útlöndum. Þarna má fá
tyrkneskt álegg á svipuðu verði og hér, tyrkneska gríska jóghúrt og
fetaost, geitaost og ég veit ekki hvað og hvað. Ég er náttúrlega ekki
sjóaður í tyrknesku gúmmilaði en fékk mjög góða og lipra aðstoð og
upplýsingagjöf hjá afgreiðlukonunni. Fór út með þrjá hluti (í þessari
ferð) en fer aftur því það er víst á leiðinni svo kallað sweet meat
tyrkneskt nammi (sem er spennandi og gott) og halumi ostur, sem fólk
steikir og er alveg kreisí góður. Keypti þetta núna:
Baklava eftirrétt, döðlur frá Túnis og undarlegan eggaldin-mat í dós.
Allt ossa gott og spes en náttúrlega ekki beint gefið (ekkert okur
samt). Það verður náttúrlega að hafa það – það er ekkert hlaupið að því
að flytja inn ódýran mat með okurtollana hans Jóns bítlatöffara
hangandi yfir sér – en þessi búð er frábært dæmi um þá bráðnauðsynlegu
fjölbreytni sem á að ríkja á skerinu. Ég man alveg eftir 1980 og er
ekkert svo spenntur í að detta aftur í það tímabil. Meiri fjölbreytni
og allt vaðandi í allskonar menningarstraumum = Ísland ok.
14.08.11
(Ekki lesa næstu sex línur ef þú sást ekki Popppunkt í gær)
Ú la la... Nú er heldur betur farið að hitna í kolunum því það eru bara
fjögur lið eftir í Popppunkti og þau er öll ógeðslega sterk og væru
hvert og eitt vel að sigrinum komin. Næstu 2 leikir verða því vonandi
hrikalega spennandi:
20. ág: Skálmöld - Sóló
27. ág: Hljómsveitin Ég - Todmobile
3. sept: Spes aukaleikur (nánar síðar)
10. sept: ÚRSLITALEIKUR SJÖUNDU SERÍU POPPPUNKTS!!!
---
Göngu og útivistafélagið Blómey tók loks við sér í gær og þrammaði á sjálfa Heklu (hér
er Hekla læf í boði Öryggismálanefndar Rúv). Hekla er hæsta fjall sem
ég hef gengið á (1491 m skv. bókum en 1540 m skv. gps tækjum) og
frægasta fjall Íslands – "Björk" fjallanna (Snæfellsjökull væri þá
Sigur Rós). Hekla er hrikaleg ásýndum og því kom það gleðilega á óvart
hversu létt var að ganga á hana. Undirlag var sirka eins og á
Helgafelli í Hafnafirði og fílingur álíka. Ég myndi segja að það að
labba á Heklu væri svona sirka þrisvar sinnum jafn erfitt og að labba á
Helgafell, ss ekki mikið mál. Við mættum úfnu nýlega runnu hrauni en
tókst að mestu að sveigja fyrir það.
Vorum 150 mínútur upp á topp
(keyrðum eins langt og jeppinn komst), en efst var reyndar lítið útsýni
– þokuslæða yfir fjallinu. Það var hins vegar heitt undir löppunum á
okkur á toppnum. Allt svæðið er hrikalega flott og sem konfektkassi
landslags. Hittum slatta af fólki á leiðinni, aðallega Frakka.
Eftir þessa snilld hélt snilldin áfram í Landmannalaugum þar sem við
fórum í heitu laugina. Þar var allt vaðandi af útlendingum og allir í
brjáluðu stuði í semi núdista fílingi. Á leiðinni heim ætluðum við að
tékka á Minilik,
sem er nýopnað eþiópiskt veitingahús á Flúðum en vorum of seint á ferð.
Þar er opið á milli 14 - 20 en við vorum þarna um hálf 10. Eina sem
bauðst svona seint var hinn víðfrægi Pylsuvagn á Selfossi þar sem við gúffuðum í okkur hamborgara "með öllu", sem var frábær.
Ég held að þessi Hamborgari "með öllu" eigi ættir að rekja til
Keflavíkur þar sem svona er selt í lúgusjoppunum. Þetta er sum sé
hamborgi í hamborgarabrauði með því sama og er í pylsu með öllu + súrar
gúrkur og rauðkál. Hljómar kannski ekki vel en smakkast þess betur.
Frábærlega æðislegur dagur!
12.08.11
Næsti leikur í Popppunkti annað kvöld er æsispennandi keppni Sinfó
og Sóló-liðsins með Pétri Ben, Eyfa og Orra Harðar. Þar kemur í ljós
hvort liðið fer áfram og í 4-liða úrslitin, en þangað eru komin lið
Skálmaldar, Todmobile og Hljómsveitarinnar Ég. Við drögum þessi lið svo
saman í lok þáttarins á morgun og sjáum hvaða lið keppa í 4-liða
úrslitunum. Þetta er að verða geðveikt spennandi því það eru bara mjög
sterk lið eftir í keppninni.
---http://www.this.is/drgunni/insol.html
Fræbbblarnir eru komnir í startholur með nýja plötu, Putttinn. Nýtt lag komið "í spilun". Lesið um þetta hjá Valla.
---
Ég velti því fyrir mér hvenær neysluvélin byrjar að auglýsa sig með
ensku óeirðunum. Nema það sé kannski byrjað strax? Gæti verið
símafyrirtæki eða tískulína, jafnvel bjór. Eitthvað svona sexí
unglingar í eldhafi og einhver sniðugur texti með – Burning down the
house with Vodafone eða eitthvað. Samt kannski ekki.
Það sem helst virðist hafa komið "út úr" þessu uppþoti er bruni
plötulagers indiebransans. Það er ansi óhuggulegt mál og alls óvíst að
mörg þessara fyrirtækja lifi þetta af. Meira um málið hjá Guardian hér.
---
Meistari INSOL gaf út fjóra nýjar plötur í desember í fyrra. Ég hef
lengi ætlað að fjalla um þær og geri það loksins núna. Betra seint en
aldrei, eins og sagt er. Þetta er allt pjúra Insol en helsta breytingin
er sú að nú er ekki mynd af listamanninum framan á umslaginu heldur
tölvugrafík. Þetta finnst mér nú satt að segja frekar vond þróun.
Ég minni svo að INSOL síðan mín er hér.
Hér koma plöturnar fjórar með tóndæmum:
Insol - Ég er laus undan losta og synd
11. Ég er laus undan losta og synd
Útgáfudagur 5. desember 2010. Útgefandi Framtíð.
Söngur, gítar, munnharpa: Insol. Hljóðritað í Stelpu frá janúar til
martz 1999. Hér er Insol á trúarlegum nótum og ber efnið þannig á borð
að hlustandinn veit aldrei hvort hann sé að játa trú sína eða að gera
grín á henni. Inniheldur 14 lög, þ.á.m. lagið Veitztu hverjir eru
eigendur
þessa mannkyns? sem er 37:48 mínútur.
Insol - Fleiri femínsta útá vígvöllinn
12. Ein hjúskaparlög fyrir alla
Útgáfudagur 8. desember 2010. Útgefandi Framtíð.
Söngur, gítar, hljómborð: Insol. Hljóðritað í Stelpu frá 9. janúar 2008
til 21. júlí 2008. Enn ein "skemmtaraplata" frá Insol. Að þessu sinni
veltir hann fyrir sér jafnrétti kynjanna (sem hann hefur nú svo sem
gert áður). 14 lög.
Insol - Grillarar út um allt
13. Kristur kemur
Útgáfudagur 12. des 2010. Útefandi Framtíð.
Söngur, gítar, munnharpa: Insol. Hljóðritað í Stelpu júlí 2001.
Trúarsöngvar a la Insol. Líkist plötunni Ég er laus undan losta og
synd, nema hér er mikið sungið um "Grillarann", sem var áður
víðsfjærri. Einnig koma húðflúr við sögu. 14 lög.
Insol - Ísland fyrir útlendinga (Vókalpopp)
14. Ísland fyrir útlendinga
Útgáfudagur 15. des 2010. Útefandi Framtíð.
Söngur, hljómborð: Insol. Hljóðritað í Stelpu í janúar júlíloka 2010.
Nýjasta efni Insol til þessa er á þessari hressilegu plötu. Meistarinn
svissar á milli stíla og tekur fram í sviga um hvað er að ræða í hverju
lagi (vókalpopp, reif, þungarokk o.s.frv.). Kynþáttamál eru
umfjöllunarefn textana og ljóst hvert Insol vill stefna í lögum eins og
Ísland verði alveg svart og titillaginu. 12 lög, þ.á.m. lengsta lag
Insols á plötu til þessa, Mennirnir urðu allir svartir (38:23).
---
Þar sem ég var nú einu sinni orðinn stjórnarformaður Strætó er mér ljúft að birta eftirfarandi:
Hittumst á Hlemmi
Hópur leikmanna sem kallar sig URBAN UTD. mun lífga upp á Hlemmsvæðið
næstu tvo laugardaga með tilraunainnsetningum og viðburðum á svæðinu.
Þjónustuaðilar við Hlemm munu taka vel á móti gestum og gangandi.
HITTUMST Á HLEMMI – LAUGARDAGINN 13. ÁGÚST
11:00 –
16:00
URBAN UTD. með innsetningu á torginu og í biðskýlinu við Hlemm
14:00 –
16:00
Snorri Ásmundarson með gjörninginn: VIÐ ERUM
13:00 –
16:00
STRÆTÓ sýnir gamlan strætisvagn og kynnir sögu hans
13:00 –
16:00
HREYFILL / BÆJARLEIÐIR sýnir gamlan Hudson ´47
13:00-15:00
Torfi á HÁRHORNINU setur út rakarastólinn og býður upp á rakstur
14:00 – 16:00
Myndlistamennirnir PÁLL HAUKUR og KOLBEINN HUGI verða með innsetningar
í biðskýlinu við Hlemm
11:00 – 16:00
Tape-listamennirnir APEAR COLLECTIVE verða með innsetningu á
Hlemmsvæðinu.
11:00 – 16:00 YGGDRASILL verður með lífrænan markað í Biðskýlinu við Hlemm
12:00 – 15:00 Töskurbasar hjá STÍGAMÓTUM
11:00 – 16:00 KAFFIKLÚBBUR FLÓKA kennir okkur að meta gott kaffi
13:00 – 16:00 RAUÐI KROSSINN mætir með FRÚ RAGNHEIÐI og skyndihjálparhópinn sinn.
Sjá nánar á: www.facebook.com/urbanutd
11.08.11
Rakst á Diddú á Þjóðminjasafninu. Hún var að fá sér kaffi eins og
ég. Spurðu hana vitanlega um kombakk Spilverksins. Þau voru byrjuð að
auglýsa gigg í Hörpunni sem átti að vera núna í september en svo var
það blásið af. Hún segir að þetta sé allt að koma hjá þeim núna – "Það
blæddi úr puttunum á strákunum af því það er svo langt síðan þeir hafa
spilað."
Planið var ekki bara að spila heldur líka að gefa út nýja plötu með fyrsta nýja
Spilverks-efninu síðan 1979. Ég varaði Diddú við að vera nú ekki að
rústa arfleifðinni og koma með eitthvað rusl á gamalsaldri eftir að
hafa gefið út sex frábærar plötur á 8. áratugnum.
"Við erum meðvituð um þetta og ætlum að vera alveg 170% örugg með að þetta sé
gott," sagði hún. "Strákarnir eru með mörg frábær ný lög og þetta er
allt unnið í samvinnu eins og í gamla daga. Þetta verður gott."
Og hvenær kemur þetta svo, heldurðu - fyrir jól?
"Tja, kannski. Ég lofa engu," sagði Diddú.
Spilverks-spennan er ærandi!
---
(Mynd: Vörulager indiebransans fuðrar upp af því bara) England
er í ruglinu. Manni finnst þetta annað hvort og til skiptis vera
geðveikt rugl í stjórnlausu partíliði eða rökrétt afleiðing af ójöfnuði
og illa stjórnuðu samfélagi. Örugglega bæði. Þó einhverjir séu að
mótmæla heimsósómanum, sem svo sannarlega er engin vanþörf á að mótmæla
og laga, eru margir bara í flippinu að upplifa sig í Grand theft auto
realtime – "Þessi níhílíska æska er alin upp sem neytendur og ekkert
umfram það. Því er firring þeirra svo alger," segir Siggi Pönk í
kommenti á facebook. En hvað segja hinir popparar?
Massive Attack:
"In context with the complicit support of the government, the banks
looted the nation's wealth while destroying countless small businesses
and brought the whole economy to its knees in a covert, clean manner,
rather like organised crime. Our reaction was to march and wave banners
and then bail them out. These kids would have to riot and steal every
night for a year to run up a bill equivalent to the value of non-paid
tax big business has 'avoided' out of the economy this year alone. They
may not articulate their grievances like the politicians that condemn
them but this is absolutely political. As for the 'mindless violence'…
is there anything more mindless than the British taxpayer quietly
paying back the debts of others while contributing bullets to conflicts
that we have absolutely no understanding of? It's mad, sad and scary
when we have to take to the streets to defend our homes and businesses
from angry thieving kids, but where are the police and what justice is
ever done when the mob is dressed in pin stripe. "
Tom Morello, gítarleikari Rage Against the Machine kom með ræðu:
"I have been following matters in the UK rather closely and I think
it's no accident that over the course of the last year we've seen this
kind of social unrest around the globe from the Arab Spring, to the
riots in Spain and Greece caused by the austerity measures and the
100,000 people seen on the streets of Wisconsin as working class people
stood up for their union rights. When people have the opportunity to
look forward to a bright future with educational opportunities, safety,
security and a positive economic outlook they do not take to the
streets and riot. When people are standing at the lip of the abyss,
looking into a future of poverty, deprivation and crime, that is when
the powder-keg is set to be lit.
As the gap between rich and poor grows more grotesque around the globe
it's really no surprise that the incidents we've seen in the UK
recently are occurring.
I originally found out about the unrest through emails and tweets from
friends in the UK who were referencing certain Rage Against The Machine
songs. How it impacts me emotionally is that firstly I'm concerned for
the safety of everybody involved but overall it just deeply stirs the
fire of my anger at the gross injustice that exists around the globe.
In the midst of these austerity measures you know that the UK's
billionaires are not turning their yachts in but the people in
communities across the UK find themselves living in desperate economic
conditions with no future to look forward to. On the one hand I'm
concerned for safety but at the same time I understand.
I think it's part of a bigger global picture. The people who run this
planet just don't deserve to, and as long as the profit motive is
primary in setting world affairs you are going to have this kind of
gross inequality and this kind of response.
Something's got to give and I would not exempt what's happening in the
UK from the rest of the world. The circumstances are different in each
place but the overarching desire of humanity to stand against tyranny
and want a decent life for themselves and their family in universal."
M.I.A: "I'm going down to the riots to hand out tea and mars bars."
N.M.E. segir svo frá nokkrum mínípoppurum í viðbót að ybba sig og svo er Morrissey gamli aldrei langt undan.
Vonandi kemur einhver skemmtileg músík út úr þessu allavega. Er einmitt
að hlusta á fyrstu Clash plötuna núna og það er algjört óeirðarokk og
alveg frábærlega viðeigandi.
---
Bjarki Tryggvason - Upptekinn af engu
Söngvarinn Bjarki Tryggvason gerði tvær sóló plötur in ðe 70s, Kvöld
1973 og Einn á ferð 1979. Þetta eru að mestu kóverplötur og hafa því
fallið í gleymskunnar dá. Þær eru heldur ekkert voðalega skemmtilegar
og ekkert lag varð vinsælt af þeim. Meiri metnaður var í plötunni Einn
á ferð. Maggi Kjartans sá um upptökur og pródúseringu og stórpopparar
eins og Bó, Pálmi, Björgvin Gísla, Þórður Árna og Ragga Gísla lögðu
hönd á plóg. Þar má finna Beach Boys lagið Busy doin' nothin' á
íslensku. Lagið kom upphaflega út á plötunni Friends árið 1968 og segir
frá daglegu lífi Brians Wilsons þegar hann var smám saman að renna inn
í tímabil offitu og pilludoða. Í textanum er m.a. að finna
leiðbeiningar hvernig skuli keyra heim til Brians (lagið á Youtube).
Gaman að þessu. Þetta er þriðja Beach Boys kóverið á íslensku sem ég
veit um. Stuð stuð stuð / Fun Fun Fun náttúrlega og Kæra vina / Darlin' með Brunaliðinu. Vita lesendur um
fleiri Beach Boys kóver á íslensku?
Það er annars að frétta af Bjarka að það þarf að fara að taka viðtal
við hann því maður veit ekki nógu mikið um hann og hans poppferil.
Viðtalið gæti kannski haft fyrirsögnina Maðurinn sem slökkti á
útvarpinu.
10.08.11
Kom þá í ljós að heimskapítalisminn lafir ennþá – hlutabréfaverð er
bara búið að fara upp og niður (eins og mér komi það eitthvað við) – en
í Englandi er hafið mikið allsherjarpartí á götum úti. Fullir unglingar
– uppfullir af mannskemmandi afþreyingardrasli, froðu og fávitaskap –
að stela og eyðileggja, en ekki kúl pönkmótmæli. Náttúrlega mikill
munur á Clash og X-factor. Eins og til að undirstrika menningarleysi skrílsins var kveikt í plötulager óháða tónlistarbransans í Englandi.
Gat nú skeð að allt færi í bál og brand daginn eftir að ég kaupi
flugmiða til London. Ég ætla nefnilega að sjá hljómsveitina The
Specials í nóvember og sleppa af Krúttlandi í smá stund. Það verður nú
samt örugglega allt með kyrrum kjörum þá og ég get keypt allar þær
bleiur sem ég þarf án vandræða.
Mannapinn er náttúrlega alltaf með leiðindi eins og hinir prímatarnir,
górillan og simpasinn og hvað þetta apadrasl heitir. Þetta lið er bara
svona, alltaf eitthvað að ota sínum tota og skara eld að sinni köku.
Górillum og simpönsum er vorkun, enda svo vitlausir, en mannapinn ætti
að vita betur. Í viðbót við almenn prímataleiðindi hefur mannapinn þann
ókost að hafa "greind" – fatta það að einn daginn drepst hann og þá
bara púff, allt búið. Hann veit ekkert hvað tekur við, líklegast ekki
neitt, og er alltaf voða sorrí yfir þessu og kvíðinn. Engin furða að
hann sé eins og hann er.
Mannapinn hefur því alltaf verið með leiðindi og verður kannski alltaf.
Nema hann læri eitthvað af æðri dýrum eins og höfrungum eða Bonobo
dverg-simpösunum í Kongo. Það er líklega háþróaðasta dýrategund jarðar.
Er eina tegundin fyrir utan homo sap sem ríður sér til skemmtunar og
hefur verið kölluð "erótísku hippa-aparnir" (Bonobo á Wiki). Freyr Eyjólfsson flutti pistil
um daginn um samkynhneigð dýra og nefndi m.a. Bonobo-apana. Þar er
annar hver api gay. Hjá Bonobo ráða kvennaparnir ríkjum og aparnir ríða
frekar en að slást. Mikið vildi ég að við værum meira eins og
Bonobo-apar. Þá þyrfti að koma fyrir "black room" á alþingi.
Hér
er Bonobo umfjöllun á ABC (teprulegir Kanarnir hafa sett borða yfir
svæsnasta apasexið) en annars er fullt af Bonobo "klámi" á Youtube úr
dýragörðum og frá náttúrulegum heimkynnum apanna. Bonobo er málið!
---
Stolið - Föllin
Síðunni barst bréf: Hljómsveitin
Stolið hefur vaknað af löngum dvala og sendir nú frá sér fyrsta lagið í
rúman áratug. Lagið heitir Föllin og er það forsmekkurinn af breiðskífu
sem bandið er nú með í vinnslu. Föllin er í anda þess sem Stolið hefur
áður gert; gítarrokk með alvarlegum undirtón en þó má greina bjartsýni
og trú á mannkynið ef vel er að gáð. Myndband við lagið má nálgast á www.youtube.com/stolidmusic.
Síðast heyrðist í Stolið
þegar hljómsveitin gaf út plötuna Allt tekur enda árið 2000. Af henni
hljómaði lagið Stolið nokkuð á útvarpsstöðvum og myndband við lagið
sást víða. Stolið starfaði í nokkur ár eftir það, en lagðist síðan í
dvala þegar nokkrir meðlima fluttu erlendis. Allir komu þó aftur,
bandið var endurvakið á síðasta ári og hefur unnið hörðum höndum að
nýju efni.
Stolið var stofnuð á
sínum tíma þegar hljómsveitin Soma, sem gaf út plötuna Föl árið 1997 og
sló í gegn með laginu Grandi Vogar 2, hætti störfum. Meðlimir Stolið
eru Guðmundur Annas Árnason, söngvari og gítarleikari, Snorri
Gunnarsson gítarleikari, Kristinn Jón Arnarson bassaleikari, Jón Gestur
Sörtveit trommuleikari og Huldar Freyr Arnarson, hljómborðsleikari og
hljóðmaður.
Stolið mun spila í bakgarði Gallerís Ófeigs, Skólavörðustíg 5, að kvöldi Menningarnætur. Hægt er að fylgjast með Stolið á www.facebook.com/stolidmusic.
08.08.11
Samkvæmt nýjustu fréttum deyr kapítalisminn í dag. Þú verður farinn að borða mannakjöt eftir viku. Eða ekki!
---
Fann þetta bráðhuggulega póstkort frá Staðarskála í sumar í nýju
antíkbúðinni á Akureyri, Fröken Blómfríði. Þetta er frá þeim tíma er
Staðarskáli stóð undir nafni en var ekki bara einn eitt kexið í
kexpakka N1s. Af bílaflotanum fyrir framan að dæma gæti ég trúað að
þetta væri frá svona leit seventís/örlí eitís, eins og maður segir. Því
miður er enginn skrifaður texti aftan á, ekkert: Sæl
Gunna og Stefán! Fengum okkur samlokur, franskar og kók hér í
Hrútafirðinum í sól og blíðu. Hugsum til ykkar með sæluhrolli og
hlökkum til næsta svings. Kossar og miklu meira til, Gugga og Þráinn
Þjóðvegur 1 er undarlega laus við aðlaðandi staði til að á í. Hyrnan í
Borgarnesi er hreinlega ömurlegt pleis. Alltaf brjálað að gera og
subbulegt og illa launaðir (væntanlega) krakkar allt annað en að nenna
því að vinna þarna. Í sumar reyndum við að borða þar en allir skyldu
meira en helminginn eftir því þetta var allt svo grísí og gegnsósa. Enn
á ný hef ég strengt þess heit að stíga aldrei þar inn fyrir aftur.
Baulan er miklu betri og heimilislegri (hef þó ekki borðað þar og veit
ekki einu sinni hvort þeir steiki hamborgara) og Víðigerði er fínt. Þar
er svona gamall þjóðvegafílingur a la gamli Staðarskáli. Í
Varmahlíð ertu svo kominn í g og g aftur, grísí og gegnsósa, minnir
mig, heillangt síðan ég borðaði þar. Það hefur því orðið ofan á að taka
bara nesti með, retro style. Smyrja flatkökur (frá Sveitabakaríi,
annað er rugl) með hangikjöti, kókómjólk á línuna og eitthvað sætt.
Góður staður til að stoppa á leiðinni norður er í skógarlundinum hjá
óteljandi hólunum í Vatnsdal. Þá kemur sér vel að eiga sérstaka
pikknikktösku eins og við.
---
Lufsan er búin að vera í verslunarferð í Skotlandi svo það hefur verið
endalaust kósí hér. Í gær í brakandi sól var tékkað á suðurlandi enda
kominn upp spenningur fyrir Draugasetrinu á Stokkseyri. Draugasetrið og
Álfa og tröllasetrið eru hlið við hlið og hægt að borga 2.500 kall
samtals til að skoða (Dagbjartur þurfti að borga 700 kall). Annars er
það 1.500 kr á hverja sýningu. Þetta er voða flott, en samt bara
heimilislegt og homemade – ekkert blue lagoon chic. Ég nennti ekki að
fá Ipod í álfunum svo maður staulaðist um myrkvaða ranghala og mesta
spennan var að passa að maður misstigi sig ekki. Túristarnir höfðu
gríðarlegan áhuga á þessu en við löbbuðum nú bara í gegn og reyndum að
sjá eitthvað. Til dæmis þessa tröllskessu:
Enda var miklu meiri áhugi á Draugasetrinu. Þar varð Elísabet Lára
sturluð úr hræðslu við fyrsta sýningargripinn og ég varð að halda á
henni sýninguna á enda. Mér sýndist þetta var rosalega flott og skerí –
dálítið eins og í draugalest - einu sinni kom svona dúkka fljúgandi á
okkur. Hryllingsmyndaáhugamaðurinn Dagbjartur var alla vega í sæluvímu.
Atriði nr. 19 er "bannað innan 12 ára", klefi sem 2 mega bara fara inn
í í einu. Þar er hleri sem gestir eiga að lyfta. Dagbjartur þorði ekki
einn inn og hvað þá Elísabet og hún tók ekki í mál að vera skilin eftir
ein fyrir utan klefahurðina svo það er enn ráðgáta hvað er undir
hleranum í klefa 19. Við Dagbjartur verðum því að fara aftur asap og
lyfta hleranum. Þá heimta ég að éta humar í leiðinni, enda
humarhimnaríkið Við fjöruborðið við hliðina á draugaálfatröllunum. Mjög
gott framtak hjá þeim Stokkseyringum að koma sér upp svona skemmtilegum
sýningum. Stokkseyri og Eyrarbakki eru alveg frábærir bæir, hvað þá í
svona geðveiku veðri eins og í gær. Svo var hringnum lokað með pylsu í
pylsukofanum undir brúnni á Selfossi.
En mikið var nú leiðinlegt að sjá ekkert nema gapandi grunninn af Eden.
07.08.11
Finnst nýja leiðin fyrir Gleðigönguna miklu betri en sú gamla. Meira
pláss og meira grand. Þetta var næstum eins og á Champs-Elysees. Við
Elísabet mættum og sáum skrúðgönguna skríða hjá. Að vanda fór ég að
grenja inn í mér við að sjá hvað er mikið til af frábæru fólki á
Íslandi. Þarna var margt flott. Borgó sem "gamla konan", Ómar á "Litla
gul" með strákunum, spúkí asíuálfar, hver er homminn, en að vanda
toppaði Palli þetta allt á gríðarlegri kerru með rosasjóvi. Stóra
spurningin er þó: Hvar voru leðurhommarnir? Ekki laust við að margir
krakkar hafi orðið fyrir vonbrigðum að sjá ekki gömlu góðu leðurhommana
sína.
---
Það var náttúrlega unaðslegur sólskinsdagur í gær og stuttbuxnaveður. Fór með rokklingana í nýja frisbí-golfið á Klambratúni.
Þetta er frábært framtak. Frisbí-golf gengur fyrir sig eins og liggur í
orðana hljóðan. Maður finnur byrjunina og hendir svo frisbíinu þar til
maður hittir ofan í þar til gerða körfu. Níu brautir eru á túninu og sú
fyrsta er til hægri við Kjarvalsstaði. Við mættum með drasl fribiín
okkar og þetta var gaman þótt við værum nokkuð yfir pari. Á leiðinni
henti ég í hausinn á fólki sem var í pikknikk. Voru þar komnir nokkrir
af forsvarsmönnum frisbí-golfsins sem sögðu mér að frá kl. 17-19 væri
starfsmaður á byrjunarreitnum að selja sérstaka frisbí-golf diska. Þeir
eru minni, þykkari og þyngri en venjulegir diskar. Kosta reyndar 5.500
kall svo ég hélt nú bara áfram að kasta brotna Opal frisbíinu mínu.
Kannski maður fjárfesi þó einhvern tímann því þessir frisbí-golf-diskar
fljúga miklu lengra og ákveðnar en venjulegir.
Hver veit þó hvað garðurinn fær að vera lengi í friði fyrir fávitum með
skemmdarfísn. Það er náttúrlega lenska hér að rústa öllu sem
rústanlegt er á sem stystum tíma. Það er ekki það hjólreiðaskilti í
bænum sem slefandi eyðileggingarfávitar eru ekki búnir að eyðileggja.
Og símaklefarnir í gamla daga? Símarnir í þeim voru í lagi í mesta lagi
2 daga í senn þar til einhver molbúinn var búinn að finna aumingjaskap
sínum útrás með því að rífa tólið af. Og brjóta rúðuna með því. Og
skíta í hornið. Og jafnvel þótt þessir klefar væru fyrir framan
löggustöð, þá var bara meiri ögrun að skemmileggja.
Stóð enda heima að þótt frisbí-golfgarðurinn sé ekki nema sirka tveggja
vikna gamall er landlæg eyðileggingin byrjuð. Á fyrsta teig var búið að
brjóta upp úr rándýrum plattanum, sem sýnir brautina:
Ömurlegt! Spái því að næst þegar ég kem verði búið að "tagga"
upplýsingaskiltið í klessu, brjóta restina af plöttunum og grafa upp
nokkrar körfur og stela. Samt vonandi ekki. Það má alltaf láta sig
dreyma um fávitalausa borg.
---
Horfði á ágæta mynd í gær, Limitless. Þar er sniðug pæling til
grundvallar, "dóp" í pilluformi (NZT-48) sem gerir notandann rosalega
gáfaðan ("með fjögurra stafa greindarvísitölu") og súper öruggan með
sig. Aðalið er uppurðarlítill rithöfundalúser sem verður hámarks
verðbréfaspaði á pillunni og súper eintak af "fallega fólkinu". Frekar
lummulegt að halda því fram samt að hámarksmarkmið með lífinu sé að
vera farsælasti verðbréfaspaði í heimi. Pælingin er samt góð því
auðvitað ætti "dóp" að virka þannig að maður verði ógeðslega gáfaður og
klár, öfugt við raunveruleikann sem er sá að á dópi er fólk annað hvort
stjórnlausir kjánar eða hættulegir mikilmennskubrjálæðingar. Pillan í
myndinni hefur samt sömu aukaverkanir og annað dóp: Á "niðurtúrnum"
verður allt ömurlegt og því lendir aðalið í nokkru veseni við að redda
sér fleiri pillum, enda er þetta eftirsótt stöff. Ágætis mynd.
06.08.11
Gleðiganga frá BSÍ kl. 14 og Jónas Sig - Skálmöld í Popppunkti í kvöld. Bara beisik.
---
Út er komin safnplatan Stuð stuð stuð. Þetta er eina stuðplatan sem þú
þarft á heimilið. Pakkinn samanstendur af 40 lögum á 2 diskum og
spikfeitum bæklingi þar sem ég rita aðfaraorð með hverju lagi. Þetta
eru lögin sem voru á stuðlistanum mikla sem búinn var til fyrr í sumar:
Þetta stuðlagaval var hugsað sem einskonar "tease" á bókina Stuð stuð
stuð - Rokk og popp á Íslandi 1950-2010, sem Sögur útgáfa gefur út í
haust. Verið er að leggja lokahönd á það spikfeita þrekvirki. Ég gæti
vel trúað að ég eigi aðeins eftir að röfla meira um það.
---
Í Pylsuvagninum í Laugardal má nú fá Elvis pylsu á 360 kr. Hvað er Elvis pylsa? spurði ég stelpurnar. Við setjum sko Pik-nik
franskar á þær, sögðu þær. Ég fékk mér bara venjulega. Ekki vissi ég að
Elvis hefði haft dálæti á Pik-nik frönskum. Hefði búist við að "Elvis
pylsa" þýddi beikon, sýrop og pillur.
---
Maður liggur í rúminu svona 1/3 af lífinu og því algjört skilyrði að
þar sé allt eins og best verður á kosið. Ég fór með gamla koddann minn
í Sólskinshöllina og hef verið að vandræðast með að kaupa mér nýjan
heilsukodda í staðinn. Fór í gegnum tvo hjá Dorma en fékk að skila
þegar ég vaknaði alltaf nær lamaður á eftir. Ég fékk endurgreitt upp í
topp en þurfti ekki að kaupa ilmkerti fyrir inneignina. Þetta
fyrirkomulag - að fá bara endurgeitt - er Dorma til mikils sóma og alls
ekki algengt á Íslandi. Prófaði einn ódýran kodda hjá Rúmfatalagernum,
en eftir að hafa þurft að svæla í mig Íbófen nokkra morgna í röð út af
axlareymslum sagði ég fokk itt og fór í Betra bak og fékk mér lúxus
Tempur fyrir allan peninginn. Ég var allavega í lagi í morgun.
Afgreiðslumaðurinn dró upp þennan kassagítar og lét mig kvitta á eins
og aðra poppara sem hafa komið í búðina. Og þetta eru nú engir smá
meistarar. Ef vel er rýnt má sjá að Magnús Eiríksson, Gunni Þórðar,
Villi naglbítur, Herbert, Raggi, Maggi Kjartans og Bubbi sofa allir við
hágæða aðstæður.
05.08.11 Á morgun er alveg súperleikur í Popppunkti: Jónas
Sig & Ritvélarnar keppa við Skálmöld, en bæði lið hafa sýnt mikinn
"styrk" í keppninni só far. Horfist!
---
Ég hef ekki komist til útlanda síðan um páskana í
fyrra og er satt að segja orðinn taugaveikaður út af þessu og því
Íslands-óverdósi sem á mér hvílir. Það vita allir að það er möst að
komst héðan úr Groundhog day a.m.k. einu sinni á ári til að hreinlega
að sturlast ekki. Ég hef verið að hugsa aðeins um New York, nafla
alheimsins. Einu sinni gisti ég þar á Chelsea Hotel. Það var dáldið
spes en samt ekki,
enda er ég hvorki beatskáld né Sid Vicious. Um helgina var þessu
"goðsagnakennda" (sjá: Wiki)
hóteli lokað því einhver ríkur kall er búinn að kaupa það og ætlar að
breyta því. NYTimes
segir frá nostalgískri pönkkind sem mætti á staðinn til að upplifa
"töfrana" í síðasta sinn. Svona er þetta. Svipað og með
("goðsagnakennda" pönkklúbbinn) CBGB's í NY sem maður kom oft í, fyrst
1988 í minni fyrstu NY ferð. Þarna sá maður t.d. Cowboy Junkies, Frogs,
Christmas og fleiri bönd sem eru á hvers manns vörum í dag eða ekki.
Þegar CBGB's var lokað var einhver umræða um það að staðurinn yrði
enduropnaður í Las Vegas en ekkert hefur orðið af því og verður ekki.
Þarna er hins vegar komin einhver tískubúð sem virðist virða legendið
og hefur ekki málað yfir graffitíið á klósettunum. Sjá Wiki.
The Frogs - Homos
Það var mjög gaman að sjá þetta band Á CBGB's og ég keypti plötu með
þeim í kjölfarð, It's Only Right and Natural (1989). Þetta eru bræður
með mjög melódíska músík og "flipp" texta um viðkvæm mál. Sjóið hjá
þeim var ægilega væld, annar var með englavængi á bakinu og eitthvað
svona rugl. Þetta er lokalag plötunnar, sem fjallar að mestu um
hommaskap (lögin heita t.d. These Are the Finest Queen Boys (I've Ever
Seen) og Been a Month Since I Had a Man). Passar vel við, enda gay
pride á morgun og allt að ske. Platan er öll mixuð í mono sem útskýrir
afhverju söngurinn er allur öðru megin. Frogs hafa gert heilan haug af
plötum (ég hef bara heyrt þessa einu) og nuddað öxlum við allskonar
frægðarmenni eins og má sjá á á Wiki.
---
Dauði Amy Winehouse kom manni dáldið á óvart, samt ekki. Þetta var
svipað og þegar Kurt Cobain dó. Fyrst kom frétt um að hann hefði hnigið
niður á tónleikum og svo nokkrum vikum síðar að hann hefði skotið sig.
Í tilefni Amyar var hún bauluð niður í Serbíu og svo lést hún.
Dánarorsök: Óþekkt. Hún lést sem sé úr óþekkt. (Sorrí). Amy var fín, en
ekkert meira fyrir mér. Gaman að einhver skyldi fatta upp á að taka
soulið til endurnýjunar og svo var hún með þessa fínu heysátu á
höfðinu. Vöðvatröllið úr Black Flag Henry Rollins segir papparassa hafa
drepið Amy. Tékkið á blogginu hans.
---
Ojba Rasta - Jolly Good
Lagið Jolly good með íslensku döbbsveitinni Ojba Rasta hefur verið að
gera það gott á Rás 2. Þegar ég heyrði það fyrst var það ókynnt og ég
hugsaði: Vá hvað Guðni Már er kúl að spila eldgamalt döbb á præmtæm.
Ojba Rasta er sem sé helvíti oðentik og hljómar "fullorðinslega"
einhvern veginn þótt þetta séu bara ungir krakkar. Meiri mússíkk takk!
Rósa Ingólfs - Kom ég þar að kvöldi
Hin frábæra listakona Rósa Ingólfs á afmæli í dag. SG gaf út með henni
sólóplötuna Rósa árið 1972 þar sem hún flutti frábært batíkpopp eftir
sjálfa sig og pabba sinn í unaðslegum útsetningum Jóns Sigurðssonar.
Þessi plata hreinlega öskrar á endurútgáfu! Á íslenska Wiki.
04.08.11
Á horninu á Hrísateigi og Laugalæk er kominn vísir að einskonar
sælkerahverfi því þar eru nú a.m.k. tvær góðar búðir fyrir matfólk. Á
móti hvor annarri eru hin þrælklassíska Frú Lauga, sem er öll í lókal mat og beint frá býli dæmi, og pylsubúðin Pylsumeistarinn, sem var að opna. Ég gerði mér ferð þangað og hér að ofan má sjá afraksturinn. Frá Frú Laugu:
Lífrænt ræktuð kirsuber frá Engi
- Þetta eru væntanlega fyrstu "íslensku" kirsuberin sem koma á markað
hér. Verandi kirsuberjafíkill varð ég náttúrlega að tékka á þessu þótt
askjan hafi kostað 890 kall. Vigtaði heima og askjan var 186 grömm.
Samkvæmt þessu er kílóverðið 4.785 kr, sem er, ö, aðeins of mikið.
Verandi fíkill hef ég látið mig hafaða að kaupa þessi ber á 1600-2600
kílóið en Engi verður nú eitthvað að hugsa sinn gang, held ég. Berin
voru auðvitað fersk, enda ekki búin að hossast yfir hafið, og nokkuð
góð, lítil og safarík, en samt á engan hátt það æðisleg að ég tími að
borga svona mikið fyrir þau. Ég fagna því þó auðvitað að kirsuber séu
búin til á Íslandi og sett í sölu. Maður ætti kannski að fara að huga
að ræktun á svölunum?
Flatkökur frá Sveitabakaríi, í
nágrenni Blönduóss - 490 kr fyrir meira en helmingi stærri skammt en
maður fær vanalega. Þessar flatkökur er þær langbestu sem fást hér,
hreinlega unaðslega góðar og "gamaldags" - ekki þetta verksmiðjudót sem
maður fær annars staðar. Kallar upp minningar við flatkökur æsku
minnar, sem smökkuðust einmitt svona, mætulega "sótugar" og
bragðmiklar. Það var einmitt flatkökugerð skáhallt á móti mér á
æskuheimilinu á Álfhólsvegi og gengur húsið enn undir nafninu
Flatkökuhúsið. Flatkökurnar þaðan voru svona. Þessar frá Blönduósi fást
líka í Melabúðinni (hvað fæst nú ekki þar?)
Skyrís með íslenskum bláberjum frá Holtseli
- Ég er náttúrlega búinn að mæra þennan ís árum saman og óþarfi
að hætta því nú. Einfaldlega besti ís í heimi. 500 ml á 890 kr er gjöf!
Í Pylsumeistaranum fæst allskonar kjöt og pylsur. Ég og pabbi erum
búnir að vera með kryddpylsur "á heilanum" áratugum saman, eða síðan
Stebbi bróðir giftist Evgeníu frá Búlgaríu. Hún kom með kryddpylsur með
sér in ðe 70s, sem smökkuðust unaðslega (í minninguni - kannski af því
maður hafði aldrei borðað kryddaðan mat fyrr, bara kjötfars). Þessar
pylsur voru með svörtum piparkornum og pabbi kallaði þær "Svarta
djöfulinn", sem festist við. Leit hefur staðið að þessum pylsum
áratugum saman í mörgum heimsálfum án árangurs. Afgreiðsludömur
Pylsumeistarans (pólskar?) voru ekki þannig á svipinn að maður þyrði að
væla út smakk svo ég keypti litla bita af tveimur pylsum sem mér fannst
líklegastar til að líkjast Svarta djöflinum – Mexíkóskt chorizo
(undarlega sætt en gott) og Ungverkst salami (fínt, passar vel við
flatkökurnar). Þannig var það nú.
---
The Wintergreens - 4
Inn um lúguna kom diskur frá The Wintergreens. Þetta er band sem Gunnar
Þór Ófeigsson er í í Skotlandi með vinum sínum og hefur áður komið við
sögu hér (Open Heart Surgery).
Þessi diskur er takmarkaður mjög, ekki gefinn út í nema 12 eintökum og
sendur á fólk. Mitt er númer 4 og allir fá sitt eigið umslag. Diskurinn
heitir 27 minutes og var tekinn upp 1sta maí sl. Fimm ónafngreind lög.
Fínt stöff að vanda frá The Wintergreens, eins og Young Marble Giants
og Timber Timbre saman, kannski. En allavega, meira Winter eitthvað...
Snorri Helgason - Mockingbird
Winter Sun, nýja platan hans Snorra Helga, "kemur út" í dag. Hún hefur
verið að rúlla í eyrunum á mér síðustu daga og sökkva inn. Verulega
gott stöff. Mockingbird er lag nr. 2 á henni en áður var lag nr. 1, River,
búið að koma fyrir eyrun á þér. Snorri heldur útgáfutónleika á Faktory
í kvöld (byrjar kl. 21). Prinspóló hitar upp. 1490 kr á midi.is/2000 kr
hurð. Allskonar á Snorrifés og Snorrigogo.
03.08.11
Dreymdi að ég væri á djamminu með strákunum í Blue. Við fórum á
einhverja rosa töff skemmtistaði í útlöndum. Við vorum óaðfinnanlegir í
tauinu. Það var allt í gangi en svo þurfti ég endilega að vakna.
---
Í þessu gríðarlega mikla fríi hef ég nánast fríast yfir mig. Það er
ekkert endilega mæ þing að "gera ekki neitt" en maður lætur sig hafaða.
Var í Sólskinshöllinni á Ísafirði og reyndi að hreyfa mig eitthvað til
að veslast ekki upp. Gekk til Súðavíkur (21 km - 3 klukkutíma labb
eftir veginum) til að fá mér borgara í Ömmu Habbý. Leigði mér hjól í
Túristamiðstöðinni og hjólaði Óshlíðina til Bolungarvíkur. Það var mjög
skemmtilegt, enda eru alveg kreisí há og skerí fjöll sem gnæfa yfir
manni á leiðinni og auka kikk að eiga alltaf von á að fá hnullung í
hausinn. Ég var satt að segja með hjartað í buxunum á leiðinni til
Bolungarvíkur og hjólaði eins hratt og ég gat. Mun hressari á leiðinni
til baka og gat meira að segja stoppað og tekið myndir...
(Endastöð sem kemur á óvart)
Það er eitthvað við aflagða vegi sem heillar. Aflagða vegi og hús í
eyði. Mig dreymir oft að ég sé að flækjast í yfirgefnum
verksmiðjuhverfum erlendis. Að vísu mætti ég einhverjum unglingum á bíl
og tveim á hjóli. Fólk notar þennan veg sér til heilsueflingar.
Bæði á leiðinni til Súðavíkur og til Bolungarvíkur gekk/hjólaði ég inn
í kríuvarp og skeit næstum á mig þegar þessi helvítiskríukvikindi gerðu
að mér aðsúg. Kríur eru zombís dýraríkisins. Ég lýg því ekki að þegar
ég kom kjagandi fyrir Arnarnes hóf sig á loft kríuger úr fjörunni –
örugglega þúsund kvikindi – og flögruðu gargandi yfir hausnum á mér
eins og svart ský. Eins gott að þessi fiðurzombís eru ekki samstilltar
hugsanaverur því þá hefðu þær auðveldlega getað goggið mig til bana.
Hvað halda þessir helvítis fuglar að ég ætli að gera? Nauðga eggjunum
þeirra? Ég hljóp grenjandi og öskrandi og baðandi út höndunum í keng og
slapp bókstaflega fyrir horn.
Svo fór ég á mjög mikilvægan fótboltaleik, BÍ-Bolungarvík (fáránlegt
nafn, hvað á þetta að fyrirstilla? Bi-sexual lið frá Bolungarvík?
Afhverju ekki að endurskýra liðið og hafaða töff nafn, t.d. Svörtu
kríurnar) á móti KR. Alveg var mér drullusama hver ynni, enda fátt
forgengilegra/hallærislegra en fótbolti (nema þegar QPR og Breiðablik
eiga í hlut), en aðrir gestir voru á öðru máli. Ég var svo
heppinn að sitja beint undir mestu KR bullunum sem gauluðu allan
leikinn blindfullir eða á LSDvættum hestasterum. Þetta hafði því miður
mjög mótandi áhrif á Dagbjart sem var strax farinn að herma eftir
gaulinu. Ég þurfti að láta hann hlusta á Sigur Rós með heddfóna í tvo
sólarhringa til að rétta hann af. Smábæjarliðið með
kvótakóngapeninga-innspítingunni skíttapaði náttúrlega þrátt fyrir að
hanga lengi á þurru með aðkeyptu vinnuafli (það eru víst einir 4
Vestfirðingar í liðinu), svo ekkert varð úr hinum yfirnáttúrlega
úrslitaleik Þór - BÍ Bolungarvík.
Nennti ekkert á glápa á Mýrarbolta enda er það bara fyrir aðkomufólk.
Ég hefði nú kannski átt að lesa meira. Ég er með Bill Bryson bókina um
allt í gangi, mikinn doðrant sem sýnir fram á hvað við erum einmana á
jörðinni og allt eitthvað stórt en þó smátt og mikill grís að við séum
yfirhöfuð til. Las líka Hellfire um Jerry Lee Lewis og sá verstu mynd í
heimi á dvd. Þetta er allt í Menningarafurðir. Fór í eina nýja sundlaug sem er í Sund/fjöll og drakk tvo nýja gosdrykki sem eru í Gos.
Var ég búinn að segja þér að ég hata kríur?
---
En nú: Glæný íslensk mússikk:
Úlfur Kolka var áður forsprakki hljómsveitarinnar Kritikal Mazz. Gekk
þá undir listamannsnafninu Ciphah en hefur lagt það niður. Hann var að
gefa út sóló EP plötuna Human Error, sem má nálgast frítt á netinu, eða borga fyrir 5€ á Gogoyoko,
sem renna óskiptar til UNICEF. Þessi plata á að brúa bilið á milli
Kritikal Mazz og næstu sólóplötu sem Úlfur kemur með fyrir jól og á að
heita Borgaraleg óhlýðni. Hún verður öll á íslensku (glæsilegt) og er
pólitísk þemaplata. Hér er smá forsmekkur af henni á Youtube, Úlfur
spyr Til hvers að kjósa? og endurómar örugglega skoðanir margra.
---
Kjartan Ólafsson – áður í Ampop – er nú sóló sem Kjarr. Hann hefur nú birt nýtt lag, Quantum Leap, sem er af High Llamas/Beach Boys skólanum, en hafði áður opinberað hið stórgóða Beðið eftir sumrinu. Hann hlýtur að safna þessu saman einn daginn á LP.
---
Emmsjé Gauti - Dusta rykið
Ríða og drekkudúkkan Gauti væri náttúrlega þokkalega leiðinlegur ef
hann væri ekki með svona hressandi músík í kringum sig. Hver nennir
endalaust að hlusta á eitthvað röfl um djamm og ríðingar og Nilla og
allt þetta helvítis lapþunna fávitakjaftæði? Ha, unga fólkið? Ok þá.
Unga fólkið getur étið skít. Dusta rykið er eitt af bestu lögunum af
nýrri og fyrstu plötu Gauta. Hér er rauðahærða tæknitröllið Berndsen
mættur til aðstoðar og einhver Rósa (Rósa í Feldberg?) og allt í svona
ljómandi góðu 80s blússi. Annars er Berndsen alveg að taka trylling
þessa dagana eins og fólk ætti að vita því Úlfur úlfur
er náttúrlega magnað skemmtilegt lag sem vonandi hleypir Bubba út í þá
átt að gera Eigthies-plötu ("Mig hefur alltaf langað til að gera
eighties plötu. Ég hef alltaf fílað OMD. Þetta er ein af þremur bestu
plötunum mínum"...)
Emmsjé Gauta og hinn rígfullorðna en sífellt með buxurnar á hælunum Blazroca má svo sjá hér saman í myndbandi við lagið Hemmi Gunn, en Stígamót og SÁÁ styrktu gerð þess.
Blogg: Maí - Júlí 2011
|