Ljósin kveikt

Það versta við fyllirí er að þeim lýkur. Þá þurfa bytturnar að koma sér heim, sofa úr sér og horfa framan í morgundaginn. Og fyrst þá taka hinir ömurlegu timburmenn við.

Þetta er búið að vera langt og strangt fyllirí. Það lofaði góðu í upphafi. Jakkafötin óaðfinnanleg, hárið sleikt aftur í velilmandi sveip, skórnir pússaðir, bindin teinrétt. Veislustjórarnir slógu í glösin: Látum partíið byrja! Nóg bús, sígó og hvítt inni á klósetti. Morgundagurinn kemur aldrei, það verður alltaf partí og þeim sem er ekki boðið eru bara öfundsjúkir aumingjar. Byrja núna!

Svo var hamast á barnum. Eins og það væri enginn morgundagur. Og um tíma leit út fyrir að það væri enginn morgundagur, svona um miðbikið þegar Elton var í skemmunni og okkur var sagt frá einhverjum fullum í kappakstri í útlöndum. Geðveikt stuð.

Nema hvað. Öllum að óvörum voru veislustjórarnir komnir í útkastarajakka í morgunsárið. Það var svakalegt sjokk þegar þeir kveiktu ljósin. Allir fengu ofbirtu í augun. Þetta er búið - drullið ykkur út! æptu útkastararnir. Ekki lengur brosandi hresskarlar eins og í upphafi veislunnar heldur illúðlegir og hótandi beljakar í alltof litlum bleiserjökkum.

Haugfullar rollurnar létu misvel að stjórn. Flestir dröttuðust út á endanum. Ég fer ekki rassgat, gólaði ofurölvi bytta og hélt sér í sófafót. Hann var búinn að gera upp á bak í Armaniinum. Tveir útkastarar náðu að kroppa hann burt og henda honum út. Hann stóð um tíma og gargaði utan í hurðinni en svo valt hann af stað heim til sín.

Niðri í bæ voru tveir í slag. Þeir voru búnir að vera í slag síðan 1999. Ultu um torgið utan í hvor öðrum. Vindhöggin gengu út í loftið. Djísús hvað þetta eru þreytandi slagsmál, sögðu byttur sem voru farnar að þynnast upp og byrjaðar að hugsa aðeins skýrar. Getur enginn fjarlægt þessa menn?

Þegar við, sem vorum ekki á neinu fylliríi og eigum ekki aðra ósk en að fá að vera í friði fyrir stjórnlausum fyllibyttum, vöknuðum og fórum út í bakarí þurftum við náttúrlega að klöngrast yfir ælur, blóðslettur og glerbrot næturinnar. Svo verður eflaust reynt að troða timburmönnunum upp á okkur líka. Að minnsta kosti erum við nú þegar búin að fá reikninginn fyrir Alka Seltzernum.