Handrukkarar lýðræðisins

Lærdómur síðustu daga er þessi: Handrukkarar, þótt þeir láti stórkarlalega, eru vælandi vesalingar inni við beinið sem brotna saman í vörslu lögreglunnar. Stjórnmálamenn, þótt þeir láti eins og heilagir fulltrúar almennings, eru upp til hópa tækifærissinnaðir lúsablesar sem gera hvað sem er til að moka undir rassgatið á sjálfum sér. Hjá öðrum hópnum er drifkrafturinn peningar og dóp, hinum völd og áhrif.

Ítrekað hefur komið í ljós í skoðanakönnunum að álit almennings á stjórnmálamönnum er lítið. Það sjá allir í gegnum þetta lið. Hafi álitið verið lítið má telja fullvíst að það er algjörlega hrunið eftir atburði síðustu daga. Fyrst þögðu Ingibjörg og Össur þunnu hljóði þegar stórvafasöm ráðning Þorsteins Davíðssonar var til umræðu. Hefðu þau ekki froðufellt snarvitlaus af bræði út af nákvæmlega sömu atburðum sitjandi hinum megin borðsins? Þú getur rétt ímyndað þér. Þetta er hlægileg tækifærismennska og prinsippleysi.

Sama er með þennan Framsóknargaur sem kvartar yfir fatakaupum Björns Inga. Af hverju létu menn hann ekki fá nokkur pör af sokkum, tvær slaufur og jakkaföt? Þá myndum við ekki heyra múkk.

Og svo er það uppreisn gamla góða Villa. Það var hryllileg sjón þegar þau stóðu þarna á mánudaginn eins og sljór her uppvakninga, starandi tómum augum út í loftið og fnæsandi sigri hrósandi með tvö A4 blöð af almennt orðuðum loforðum í sautján liðum, sem hefði þó verið hægt að stytta niður í eitt: Við ætlum að gera allt sem allir vilja að við gerum en þó sérstaklega það sem Ólafur F. vill.

Hvaða rugl er þetta? Er ekki heil borg hérna full af ómönnuðum leikskólum, yfirfullum umferðaræðum og fúkkalyktandi brunagildrum sem þarf að redda einhvern veginn? Væri ekki nær að þetta lið gerði eitthvað af því sem það var kosið til að gera í stað þess að sitja endalaust á svikráðum í því eina augnamiði að koma sjálfum sér til valda og áhrifa?

Ég segi það satt. Næst þegar allt þetta pakk byrjar að stilla sér brosandi upp á plakötum, lofandi öllu fögru, mun ég ganga um með lepp á báðum og þykk eyrnaskjól. Og ég mun ekki óhreinka mig á því að mæta niðurlútur í kjörklefann til þess eins að handrukkarar lýðræðisins láti mig fá einn umganginn enn.