Nafli alheimsins

Við Íslendingar erum rosalega uppteknir af því að bera okkur saman við aðrar þjóðir og kunn er tilhneiging okkar til að vilja skora hátt á ýmsum listum, oftar en ekki "miðað við höfðatölu". Þannig séð erum við bara eins og til dæmis Súðvíkingar sem eru rígmontnir af sínu plássi og finnst allt á Ísafirði hálf slappt. Ísland er fullt af krummaskuðum sem þykjast nafli Íslands og samanlagt erum við krummaskuð sem þykist nafli alheimsins. Því finnst okkur nánast minnkun í því að vinna á smáþjóðarleikunum en flott ef við mjökumst aðeins upp lista bestu knattspyrnuþjóða í heimi. Við berum okkur bara saman við þá bestu.

Þótt við næðum 300.000 manns á dögunum erum við ennþá bara í 178. sæti yfir stærstu þjóðir heims. Þessi staðreynd er auðvitað reiðarslag og ámóta mikið spark í pung þjóðarstoltsins og þegar kom upp úr kafinu að handbolti er í 126. sæti yfir vinsælustu íþróttagreinar heimsins, einu sæti á eftir mexíkósku hanaati. Alls konar lúseraþjóðir eru fjölmennari en við. Til dæmis Vestur-Sahara, sem er einn stór sandkassi og ekki fræg fyrir annað en að þangað eru í boði dagsferðir frá Kanaríeyjum; Lúxemborg er miklu fjölmennari en Ísland, en það eina merkilega þar eru vinsældir íslensku söngkonunnar Þórunnar; og Möltumenn eru hundrað þúsund hræðum fleiri en við. Samt er Maltasúkkulaði það eina merkilega við Möltu og Harrison Ford hefur örugglega aldrei komið þangað.

Best væri því ef við einbeitum okkur að þessum 52 löndum sem eru fámennari en við. Ef við berum okkum sífellt saman við þau getum við örugglega haldið brjóstkössunum þöndum. Fyrir neðan okkur á listanum eru upp til hópa aðrar einmanalegar eyjar en ólíkt Íslandi eru þær snauðar af ólgandi krafti og glæsilegri menningu. Eiga Barbadosar til dæmis einhvern sem er jafn frægur og Björk? Er einhver Kári Stefánsson að gera góða hluti á Samóaeyjum? Er stórfengleg útrás í gangi hjá hlutabréfaliðinu á Tonga? Nei! Við skörum fram úr þessum dvergum í öllu tilliti! Íslandi allt!

Einu sinni fór ég til útlanda í miðju "fjölmiðlafrumvarpsmálinu", sem hafði skekið þjóðfélagið vikum saman. Það var ótrúlegt að vera þar sem enginn minntist einu orði á það mál eftir allan hamaganginn. Þá uppgötvaði ég nauðsyn þess að komast úr sveittri naflalónni. Í naflanum er nefnilega oftar en ekki óþefur.