Listauppeldi

Nú þegar alvöru fólk eins og Eva María Jónsdóttir er farið að ámálga þau sannindi að fólk eigi að setja börnin sín í fyrsta sæti er bara tímaspursmál hvenær það þykir jafn hallærislegt og træbaltattú á mænunni að eyða meirihluta dagsins í vinnunni. Sjálfur verð ég ekki sáttur fyrr en nóg er að vinna til klukkan eitt til að hinir svokölluðu endar nái saman.

Ég reyni að eyða sem mestum tíma með syni mínum. Ég sver það! Stundum freista þó ýmis áhugamál heima fyrir og þá kemur sjónvarpið í góðar þarfir. Sonurinn er vandlátur á skrípóið og lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Hann vill eiginlega miklu frekar leika sér með dótið sitt og vill að ég leiki með honum. Þá toga bókaskápurinn og tölvan en ég bít á jaxlinn, fer á rassinn og byrja að dæla bensíni á legóbíla.

Þótt skömm sé frá að segja finnst mér ekkert sérlega gaman að dæla bensíni á legóbíla, a.m.k. ekki tímunum saman, og því er best þegar við feðgar dettum niður á eitthvað sem við höfum jafn gaman af. Teiknimyndir frá Hollywood innihalda alltaf smotterí fyrir fullorðna, Húsdýragarðurinn er ágætur, fjörur, göngustígar, endurnar á tjörninni og Kolaportið er klassískt stöff.

Ég vil auðvitað efla listrænan áhuga hjá syninum og fer stundum á listasöfnin með hann. Þar eru fáir á ferli en vítt til veggja og nóg pláss fyrir eltingarleiki. Í bland má reyna að vekja áhuga á dótinu á veggjunum.

Nema hvað. Nú er það allra fínasta að gera sem ógeðslegust verk, kannski til að sýna fram á hvað við lifum á viðsjárverðum tímum. Við fórum í Hafnarhúsið á Pakkhús postulanna, sem er mjög góð sýning að sögn. Listaverkin líta flest út eins og sviðsmyndir úr Aliens III: Sjúkleg hljóð hvína í sölum með sturluðu ljósablikki, dót í lofti er eins og rakaskemmd frá helvíti, hárflækjur sem minna á kóngulóarvef teygja sig um veggi og allt er sem hryllilegast. Hræðsla sonarins magnaðist með hverju verkinu og ég sá mig fljótlega tilneyddan að hlaupa með hann organdi út.

Ég gafst ekki upp og fór á Kjarvalsstaði. Þar brast barnið strax í grát yfir málverkum Þórdísar Aðalsteinsdóttur af ljótu fólki í afkáralegum stellingum. Síðasta hálmstráið var verk gömlu meistaranna en nú var sonurinn búinn að fá þvílíkt listaofnæmi að hann fór að kjökra og iða í skinninu þegar við nálguðumst landslagsmyndir Kjarvals. Það kostaði mjög stóran ís að bæta fyrir þessa meðferð.