Svefnlaust Ísland

Það verður aldrei jöfnuður í þessum táradal sem við hýrumst í. Sumir eru ríkir og klárir, aðrir ekki, flestir einhvers staðar þarna á milli. Við þessu er ekkert að gera og tilraunir til að koma á algjörum jöfnuði hafa alltaf endað með ósköpum. Algjör jöfnuður næst ekki fyrr en þegar við deyjum því þá verða allir jafn dauðir og enginn munur á ofsaklárum trilljónamæringi og hænu. Dauðinn er því eini alvöru verkalýðsforinginn.

Þegar við sofum erum við að bæði að hlaða batteríin og æfa okkur fyrir dauðann. Við sofum sirka 1/3 af lífinu svo við ættum að vera vel æfð þegar að hinu óumflýjanlega kemur.

Vinir minn segist hafa lesið merkilega grein í Mogganum um tilraunir á bandarískum hermönnum. Þeir fá víst pillur sem sviptir þá þörfinni að sofa. Eftir margra daga svefnleysi geta hermennirnir leyst erfið reikningsdæmi og ekki verður vart við neinar geðveikislegar aukaverkanir. Með hjálp pillanna geta þeir haldið áfram út í hið óendanlega, alltaf jafn hressir.

Að hugsa sér! Kannski er almennt svefnleysi það sem koma skal. Að sofa verður hallærislegt fyrirbæri úr fortíðinni. Amma og afi sváfu, segja krakkar árið 2080. Þau lágu og gerðu ekki neitt alveg eins og dýrin. Pæliði í því!

Nema pillurnar frá ameríska hernum verða svo dýrar að aðeins auðmenn geti keypt þær. Það væri eftir öðru. Stéttskipting framtíðarinnar verður þá þannig að blankir plebbar þurfa eftir sem áður að liggja meðvitundarlausir 1/3 af sólarhringnum en þeir ríku geta verið hressir allan sólarhringinn og notað þennan auka tíma til þess að verða enn ríkari.

Ef pillurnar verða á viðráðanlegu verði munu Íslendingar ná áður óþekktum hæðum í helsta stolti landsins, vinnuálaginu. Á meðan suðrænar þjóðir fúlsa við pillunum því fólki þar finnst örugglega bara fínt að sofa, munu andvökupillurnar rjúka úr íslenskum apótekum og salan setja heimsmet miðað við höfðatölu. Á pillunum mun allra duglegasta fólkið ná 168 stunda vinnuviku. Leikskólar verða opnir allan sólarhringinn enda bæði börn og leikskólakennarar á pillunni. Sjónvarpsdagskráin mun riðlast og morgunsjónvarpið loksins meika einhvern sens. Hver einasti dagur verður eins og Þorláksmessa. Hagvöxturinn verður algjörlega æðislegur og sprengir öll fyrri met.

Nú er bara spurning hvort einhver muni sakna draumanna.