Það er ekki tekið út með sældinni að fá Fálkaorðuna. Eftir að myndin af þér skælbrosandi með næluna í röðinni hjá forsetanum hefur birst í blöðunum er sjálfkrafa komið veiðileyfi á þig. Fuss og svei!, segir fólk pirrað. Hvað er nú þessi að fá þetta, fyrir ekki annað en að mæta í vinnuna?, er frussað með kleinunni í kaffatímunum eða nei nei uss, mátti nú ekki bíða í nokkra áratugi með að láta þennan hafa orðu – hann er ekki orðinn fertugur!
Þessi undirliggjandi óánægja með fálkaorðuveitinguna er svo mikil að þegar Fréttablaðið lagði spurningar fyrir orðuhafa á dögunum þóttu “áttu þetta skilið?” og “varstu að spá í að þiggja ekki orðuna?” fullkomlega viðeigandi spurningar. Enginn þóttist sjálfur geta lagt mat á það hvort hann væri verðugur orðuhafi en nokkrir játuðu að hafa spáð í að afþakka. Aðalástæðan sem gefin var upp fyrir því að þiggja var að það að afþakka hefði vakið meiri athygli en hitt. Því má álykta að fólk taki við orðunni í þeirri von að enginn taki eftir því.
Sjálfur bíð ég spenntur við símann seinni hluta árs og vona að forsetaskrifstofan hringi. Ég ætla að þiggja orðuna því ef ég afþakka hana vekur það alltof mikla athygli. Og ekki vill maður það. Svo verður maður bara að þola það að fólk híi á mann í nokkra daga fyrir að hafa fengið orðu.
Fálkaorðan mín mun sóma sér vel í kassa ofan í geymslu við hliðina á Íslensku tónlistarverðlaununum sem ég fékk fyrir plötu ársins árið 1994. Öðrum verðlaunum er því miður ekki til að dreifa því ég er búinn að týna viðurkenningarskjali frá Hæfileikakeppni Kópavogs 1980.
En ég veit svo sem alveg afhverju fólk er fúlt út í Fálkaorðuna. Hver einasti kjaftur á þessu veðurbarða vindrassgati telur sig réttilega eiga skilið að fá orðu fyrir það eitt að vera ekki löngu fluttur til heitu landanna. Það er ekki nóg með að veðrið sé ömurlegt og drungalegheitin í skammdeginu dragi úr hressustu gleðipinnum allan mátt, heldur vinnum við mest allra til þess að eiga fyrir dýrasta mati í heimi og afborgunum á okurvöxtum af dýrasta húsnæði í heimi. Svo leggjum við hvert og eitt okkar af mörkum til að viðhalda vitleysunni með því að kjósa sama liðið trekk í trekk til þess eins að það hækki kaupið sitt daginn eftir kosningar.
Að vera Íslendingur er fórn sem við færum
daglega. Og auðvitað ættum við öll að fá
fálkaorðu fyrir það. Því legg ég
til að þetta orðukjaftæði verði afgreitt fyrir
fullt og allt og orðan steypt í ál og send á línuna
um næstu áramót.