Eilíf hamingja

Samkvæmt trúuðum er þetta hjakk hérna megin bara slöpp byrjun og stuðið hefst ekki fyrir alvöru fyrr en á efsta degi. Stundum þegar ég er búinn að stilla á allar hinar stöðvarnar þvælist ég á Ómega og sé sveitta menn tafsa um heimenda, sem er víst alveg handan við hornið. Öll tákn benda til þess, segja menn, til dæmis er augljóst að internetið er “Dýrið”, og svo er gólað og menn hlakka bersýnilega óskaplega mikið til að komast í burtu.

Það er ekki laust við að kaldur sviti renni niður bakið við þessa sýn því fólkið virðist í alvörunni trúa þessari vitleysu. Og það sem er auðvitað miklu verra er að allskonar fólk trúir svipaðri dellu, til dæmis Bandaríkjaforseti og allskonar öfgalið Íslamsmegin. Þetta jarðlíf er drasl og því skulum við flýta okkur að koma öllu í bál og brand svo eilífa himnasælan geti hafist, virðist vera díllinn.

Trúaðir segja líka að Guð hafi rosalega yfirsýn. Hann veit allt, getur allt og fylgist með okkur. Því er líklegt að þegar við deyjum og erum svo heppin að hafa áunnið okkur rétt til himnavistar að Guð (eða hjálparenglar) slengi framan í okkur tölfræðilegum staðreyndum um líf okkar. Þetta er svona svipað dæmi og maður sér eftir fótboltaleiki í sjónvarpinu. Þá er tölfræði leiksins tekin saman og það kemur í ljós hversu mörg horn hvert lið tók, og svo framvegis.

Kannski eru hinir nýkomnu leiddir að risavöxnum flatskjá þar sem líf þeirra birtist í tölfræðilegum smáatriðum. Eðlilega mun þyrma yfir marga þegar staðreyndirnar liggja fyrir. Ha, eyddi ég átta dögum og sjö mínútum samtals í að leita að týndum sokkum?

En ekki þarf að örvænta. Samkvæmt trúarbrögðunum tekur nú við gríðarmikil sæla og hamingja, og það sem meira er, þetta ástand er eilíft.

Eilíf hamingja – bíður einhver betur?

Það sem mér finnst þó skorta í auglýsingar trúarbragðanna er að þessi “eilífa hamingja” sé útskýrð nánar. Eilíf hamingja gerandi hvað? Mókandi á sloppi með hörpu á skýdruslu gónandi út í loftið? Þegar á þá trúuðu er gengið með þetta draga þeir bara auga í pung og tala um órannsakanlega vegi.

Neytendasamtökin hefðu því án efa bannað trúarbrögðin. Það þýddi allavega lítið fyrir einhvern banka að lofa “eilífri hamingju” og hafa svo ekkert í höndunum nema tal um að kúnninn verði bara að “trúa á okkur”.

Það væru ömurleg hlutskipti dýrategundar okkar að líða undir lok fyrir svona bjánaskap.