Powerpoint í helvíti
Ég er skráningarfíkill og áhugamaður um tölulegar upplýsingar um sjálfan mig. Því er ég að vona að handan við móðuna miklu taki á móti mér nefnd sem slær upp ítarlegu powerpoint-sjói um líf mitt. Trúarbrögðin gera flest ráð fyrir einhverju svona yfirliti, en þau eru bara svo gamaldags og hallærisleg að nýjustu forritin frá Microsoft koma hvergi fyrir í þeim. Ég held að starfsmenn himna og/eða helvítis hljóti að hafa tekið nokkra endurmenntunarkúrsa og séu orðnir sjóaðir í að framreiða tölulegar upplýsingar á myndrænan hátt. Ég, steindauður en þó sprelllifandi í hvítum kyrtli, verð settur við endann á langborði og svo hefst sýningin. Kökurit, súlurit og línurit ganga upp og niður á tjaldinu og sýna mér sannleikann um líf mitt. Þetta verður mjög áhugaverð sýning. Þú svitnaðir 740 lítrum, borðaðir samtals 37 beljur og hugsaðir sjö ár samtals vafasamar hugsanir sem samræmast ekki feminískum grunngildum, verður mér kannski sagt með tilheyrandi refsingu. Þú eyddir tveimur dögum og 3,4 klukkutímum í að leita að týndum sokkum, 2,2 kíló af skeggi liggja eftir þig og 204 daga samtals lástu í rúminu og svitnaðir af áhyggjum yfir erfiðri skuldastöðu. Því miður verðum við að tilkynna þér að afborganirnar 35 sem þú áttir eftir af íbúðinni fylgja með inn í næstu "vídd". Svona verður líf mitt greint í sundur lið fyrir lið á svipaðan hátt og fótboltaleikir eru teknir fyrir í sjónvarpsútsendingum að leik loknum. jahá, mun ég hugsa, nokkuð sáttur bara. Ég drap þá allavega engan né setti lítið þjóðfélag á hausinn. Og eitt mun koma mér mest á óvart: Hvað ég eyddi miklum tíma í að neyta og hugsa um mjólkurafurðir. Mér verður gefið aftur að smakka á jarðarberjasúrmjólkinni sem ég unni sem barn og kom í pýramídafernu. Þá verður stóru spurningunni loks svarað: Hvernig er grísk jógúrt raunverulega á bragðið? Það eru nefnilega til tvær tegundir á markaðinum hér og þær eru ekkert líkar. Frá MS kemur þykk og bragðgóð grísk jógúrt sem ég er sólginn í. Bíóbú framleiðir kókosjógúrt, sem er æðisleg. Því hélt ég að mín biði geðveik snilld þegar grísk jógúrt frá þeim kom á markaðinn. Hún er aftur á móti miklu verri á bragðið en hin gríska MS og þar að auki helmingi dýrari. En hvor jógúrtin er líkari alvöru grískri jógúrt? Og skiptir það einhverju máli? Skiptir ekki bara máli hvor mér finnst betri? Fávitar athugið: Þessi Bakþanki er í rauninni um kosningarnar á laugardaginn. |