Tyrkir í Kringlunni

Stundum lendi ég í því að trilla útlendingum um Reykjavík, kannski fólki sem hefur aldrei komið hingað áður og finnst allt nýstárlegt og framandi. Tyrkneskir kunningjar hafa verið hérna að undanförnu, aðallega til að tékka á iðandi listalífinu og miðbæjarstemmingunni. Þeim finnst öll “litlu húsin” í miðbænum krúttleg og fólkið vingjarnlegt.

Ég pældi nokkuð í því hvert ég ætti að fara með þau. Það er náttúrlega löngu búið að loka Naustinu og full langt að fara með þau í Eden. Svo hefðu þau kannski ekkert gaman að flúorperuræktuðum banönum. Því fór ég með þau í Perluna. Það var öskrandi skammdegi, súld og skítugur snjórinn hálfbráðnaðurinn út um allt. Ég sagði þeim að útsýnið væri miklu flottara í sól eða þegar snjór væri yfir öllu. Þeim fannst útsýnið samt alveg rosalega glæsilegt, tóku endalaust af myndum allan hringinn og ég var hreykinn eins og hani á haug.

Ég sagði þeim að þau þyrftu að komast úr miðbænum. Þar héngi bara eitthvað artí fartí lið sem gæfi ekki nema takmarkaða mynd af landi og þjóð. Til að kynnast þjóðinni almennilega fór ég því með þau í Krigluna. Ég var búinn að upphugsa tvö skemmtiatriði til að fara með í Hagkaupum. Það fyrra var að sýna þeim sviðahaus í kælinum. Þeim fannst hausinn ekkert spes, komandi frá Istanbúl þar sem sviðahausar hanga víst uppi um alla veggi á krám.

Hitt skemmtiatriðið var öllu meira sjokkerandi fyrir þau en sviðin. Það var eiginlega kvikindislegt af minni hálfu. Ég fór aftur í kælinn og sótti af handahófi frauðplastbakka með þremur kjúklingabringum velstrekktum innan í plastfilmu. Ég benti glottandi á verðið – sjáiði: 1995 krónur! Tyrkirnir klóruðu sér í hausnum og notuðu reiknivélina í símunum sínum. 22 Evrur fyrir þrjár kjúklingabringur, getur það verið? spurðu þau varfærnislega og horfðu á mig eitt spurningarmerki. Ég kinkaði hægt kolli og dró annað augað í pung: jebbs, þetta er satt.

Nú brast á með handpati og orðaflaumi á tyrknesku. Maðurinn náði vart andanum – já en… já en… kjúklingur er auðveldasta dýr í heimi í ræktun, æpti hann og starði á frauðplastbakkann í höndum sér. Hvernig stendur á þessari sturlun? Hvert erum við eiginlega komin?

Tja, þetta er nú bara eins og það er, sagði ég rólega, yppti öxlum og fylltist stollti yfir því þjóðlega okri sem Tyrkirnir voru nú að tapa sér yfir. Þau muna örugglega miklu lengur eftir því en útsýninu af Perlunni.

En gamanið var bara rétt að byrja. Næst fór ég með þau í Ríkið.